24.5.2016 | 12:11
Kristján Guðmundsson opnar sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Laugardaginn 28. maí 2016 kl. 15.00 opnar Kristján Guðmundsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Kristján Guðmundsson er einn af þekktari listamönnum þjóðarinnar, búsettur í Reykjavík. Hann hóf listferil sinn uppúr 1960 og var einn af meðlimum SÚM sem þá var framsækinn félagskapur ungra listamanna í Reykjavík.
Kristján bjó á áttunda áratugnum í Hollandi þar sem hann komst í beint samband við strauma og stefnur í heimslistinni og hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir list sína.
Árið 1979 fluttist hann ásamt fjölskyldu sinni heim til Íslands og settist að um tíma á Hjalteyri við Eyjafjörð.
Kristján var fulltrúi Íslands á Feneyjar tvíæringnum 1982 og 2010 hlaut hann hin virtu sænsku Carnegie Art Award. Hann hefur sýnt víða um heim sem og hér heima og hlotið margvíslegar viðurkenningar og lof fyrir verk sín.
Verk Kristjáns láta oft ekki mikið yfir sér, en ef grannt er skoðað má greina djúpa hugsun og kraftmikið formskin, hreinleika og fegurð í viðkvæmum línudansi.
"I am trying to work within the field of tension that exists between nothing and something".
Í íslenskri þýðingu.
Ég reyni að vinna innan viðvarandi spennusviðs á milli einskis og einhvers
Sýning Kristjáns í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði stendur til 11. júní og er opin daglega kl. 14.00 17.00 þegar skilti er úti.
Fjallabyggð, Menningarráð Eyþings/uppbyggingarsjóður og Egilssíld styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Nánari upplýsingar hjá Aðalheiði í síma 865-5091
Stefán Karlssonar tók ljósmyndina af Kristjáni.
https://www.facebook.com/events/1566253200345196
Flokkur: Menning og listir | Breytt 30.5.2016 kl. 08:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.