24.2.2016 | 22:39
Viðburðarík helgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Laugardagskvöldið 27. feb. kl. 20.00 2016 mun ljóðahópurinn Hási Kisi og gestur, vera með ljóðaupplestur í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Hási Kisi er ljóðaklúbbur sem starfað hefur á Fljótsdalshéraði frá árinu 2008. Meðlimir Hása Kisa eru Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Hrafnkell Lárusson, Ingunn Snædal og Stefán Bogi Sveinsson. Þau telja sig allt í senn aðdáendur, aðstoðarmenn og harðir og miskunnarlausir gagnrýnendur ljóðsins. Hópurinn hefur staðið fyrir viðburðum og vinnur að útgáfumálum en er fyrst og fremst sjálfshjálparhópur taugaveiklaðra ljóðskálda sem með góðu eða illu ætla sér að láta fólk hlusta á ljóðin sín.
Sérstakur gestur á upplestrinum í Alþýðuhúsinu á Siglufirði verður Urður Snædal sem tengist hópnum sterkum böndum.
Sunnudaginn 28. feb. kl. 14.00 verður síðasti sýningardagur sýningarinnar "Dæld" í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Þá mun listamaðurinn sjálfur, Klængur Gunnarsson vera með kynningu og spjall um verkin sín.
Heitt á könnunni og allir velkomnir.
Menningarráð Eyþings/uppbyggingarsjóður, Fjallabyggð, Fiskbúð Siglufjarðar og Egilssíld styðja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.