15.1.2016 | 09:34
Kristinn G. Jóhannsson sýnir í Mjólkurbúðinni
Kristinn G. Jóhannsson opnar málverkasýninguna FJÖRBROT í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri, laugardaginn 16.janúar kl. 14.
Kristinn G. Jóhannsson sýnir bæði olíumálverk og vatnslitamálverk sem hann segir yrkisefni um næsta umhverfi sitt, brekkurnar, tjarnir, tré og trega. Sýningin stendur til 30.janúar
Kristinn um sýningu sína:
Aðrir hafa á liðnum árum látið í ljós álit sitt á prenti eða öðruvísi. Ég birti hér örfá sýnishorn þess í sjálfsupphafningarskyni. Mér verður þar dæmi rithöfunda sem einatt birta utan á nýjum bókum sínum gamla dóma eða stjörnufjöld um fyrri verk og velja þá ekki hina neikvæðustu. Þetta er ekki til eftirbreytni en ég læt mig hafa það og skrifast á elliglöp, sem lýsa sér með þessum fádæmum. Þess vegna einnig nafngiftin Fjörbrot. Þessi sýning markar með öðrum orðum upphaf áttugasta æviárs míns og má það vera afsökun eða tilefni hennar ef vill.
Um volkið í veraldarsjónum.
Þetta er lífleg sýning listamanna af tveimur kynslóðum, sem fara ólíkar leiðir að markinu, sem er auðvitað góð myndlist. Bæði sýna hér góð tilþrif og ber að hvetja fólk til að líta inn í FÍM-salinn
( Mbl. Eiríkur Þorláksson um sýningu Brynhildar og Kristins í FÍM-salnum 1991)
Fyrstur til að sýna í þessum nýja rúmgóða sal er listmálarinn Kristinn G. Jóhannsson og er það vel við hæfi. Bæði er Kristinn einn þekktasti myndlistarmaður norðan heiða og svo tengist hann húsinu æskuböndum, en fjölskylda hans bjó þar þegar hann var drengur. Kristinn hefur tamið sér að gefa sýningum sínum yfirskrift og að þessu sinni nefnir hann sýninguna Málverk um langholt og lyngmó.
..Á sýningunni eru þrjátíu olíumálverk sem öll eru í raun abstrakt myndbyggingar þó þær vísi til hins nálæga í íslenzkri náttúru, á holtum, í móum, þúfum og lyngi; þetta eru smásjármyndir umhverfisins
..þetta er í alla staði ánægjuleg sýning
..( Mbl. Eiríkur Þorláksson um sýningu í Listhúsinu Þingi 1993)
Það er í senn gerjun og hreyfing í málverkunum, sem fylla Austursalinn, mynda þó mjög samstæða heild. Mikið að gerast í myndfletinum en haldið í horfinu með mjúkum línulegum formum, trosnuðum vefjum, er liðast um og skera myndflötinn ásamt heitum og köldum litum er vinna saman, binda og móta svipmikla heild
Telst mikil list að beizla á þann veg hraðann og hefi ekki séð það takast jafn vel áður í vinnulagi Kristins. Hér er um fínlega útgáfu af úthverfu innsæi að ræða, skynræn náttúruáhrif af hárri gráðu.(Mbl. Bragi Ásgeirsson um sýningu í Listasafninu á Akureyri 2001)
Náttúran í sínum óviðjafnanlegu tilbrigðum ber hæst í olíumyndum Kristins, sem eru afar litskrúðugar og mikið að gerast á myndfletinum. Litirnir eru ríkir og lifandi, myndfletinum skipt upp með lóðréttum og láréttum línum svo ferningar myndast með ýmiss konar mynstri. Þó að náttúran sé yrkisefnið elta myndirnar ekki fyrirmynd sína heldur vinna frjálst með liti og form, eru að mestu óhlutbundnar, sýna hughrif og ljóðræna tilfinningu, sem hér er sterk. (Mbl. Ragna Sigurðardóttir um sýningu í Húsi málaranna 2002)
Köflótt landslag Kristins G. Jóhannssonar veitir þó skemmtilegt tilbrigði við landslagsþemað og ekki laust við að listamaðurinn leiki sér að veita náttúrunni textílkennda áferð í verkum á borð við Hauststillukvæði við Pollinn. (Mbl. Anna Sigríður Einarsdóttir, Vorsýning 10 listamálara 2002)
..Hins vegar eru þetta sterk persónuleg einkenni listamannsins og aðal verkanna er einmitt sú persónulega nálgun sem í þeim býr, sú sálræna dýpt sem birtist í síendurteknu samtali listamannsins við átthagabrekkur sem voru og eru. En ekki síst fyrir þær persónulegu tiktúrur listamannsins neðst í myndfletinum þar sem hann speglar sjálfsmynd sína bókstaflega með því að láta undirskrift sína leika afgerandi þátt innan um óhlutbundnar fantasíur ímyndunaraflsins.
.(Mbl. Þóra Þórisdóttir um Sýningar á sjötugu í Ketilhúsi 2006)
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.