1.6.2015 | 23:07
Arnar Herbertsson sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Laugardaginn 6. júní kl. 14.00 17.00 opnar Arnar Herbertsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Sýningin samanstendur af átta málverkum og ber yfirskriftina
Ljós í augum dagsins.
Sýningin stendur til 24. júní.
Arnar Herbertsson
er fæddur á Siglufirði árið 1933 og ólst þar upp. Hann lærði húsamálun sem hann sinnti samhliða myndlistariðkun eftir þörfum. Hann flutti til Reykjavíkur 1958 og nam við Myndlistaskólann í Reykjavík 1959-67. Hann sýndi fyrst á haustsýningum FÍM (Félags íslenskra myndlistarmanna) 1965 og 1966 en varð síðan virkur í SÚM (Samband ungra myndlistarmanna) og tók þátt í samsýningum þess bæði innanlands og erlendis. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal árið 1967 og síðast í Neskirkju 2014. Hann var þáttakandi á Tvíæringnum í Rostock í Þýskalandi 1969 og í Nutida Nordisk Konst í Hässelby-höllinni í Svíþjóð 1970. Snemma á sjöunda áratugnum dró Arnar sig í hlé og sýndi lítið þar til árið 1990 en hefur sýnt reglulega eftir það og verk hans verið valin til sýningar. Arnar hefur hlotið starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna og verk eftir hann eru í eigu helstu safna á Íslandi.
Nú nýverið tók Arnar þátt í samsýningunni Nýmálað sem sett var upp á Listasafni Reykjavíkur.
Sumarsýning í heimabænum - Siglufirði 2015
Ljós í augum dagsins
Heimur Arnars er Siglufjörður, þar sem hann ólst upp og þroskaðist meðal ljóss og skugga. Allt sem hann upplifði , sá og fann var í þessum lokaða einangraða firði með einn sjóndeildarhring opinn útá íshaf.
Fjörðurinn sem ól hann og umvafði eins og móðurástin, var líka
kæfandi og þrúgandi, en veitti á sama tíma innblástur, örvun og
djúpa næmni. Eins og hjá mörgum listamönnum þá sýnir þessi
næmni hans myrkustu og björtustu hliðar lífsins.
Eftir upplifun langra kalda vetrarnátta sem aldrei ætla að taka
enda kemur loksins birta endalausrar sumarnæturinnar þegar
fjörðurinn er stilltur og fjöllin speglast í spegilsléttum sjónum
sem einungis gárast af svamli ástfangins Æðarblika eða flugi
tígulegrar Kríu. Ilmurinn í loftinu er sambland af fjöruþangi,
tjöru, dieselolíu og fiski.
Svo er mótsögnin við kyrrðina þegar bryggjurnar iða af lífi og
síldarvertíðin er í fullum gangi , ys og þys, hlátur , vélardynur,
reykur, kappsemi kalla og kvenna í von um betra líf og bjartari
framtíð.
Slíkt umhverfi gat ekki gert annað en að móta viðkvæma lund
og ýta undir frekari næmni hjá litlum rauðhærðum gutta.
Árin líða og drengurinn breytist í ungan mann. Fjörðurinn sem á
hann allan endar að lokum með því að kæfa hann. Eilíf óstöðvandi þrá til fjarðarins, þessi djúpa nostalgía sem á hann leitar stöðugt, þessi djúpa þrá fyrir glötuðum tíma.
Brottfluttur, þá er , eftir sem áður, staðurinn bæði í vöku og draumi í honum
alla tíð og alltaf og hann leitar sífellt þangað aftur og alltaf.
https://www.facebook.com/events/373559152851148
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.