5.10.2014 | 20:49
Arna Valsdóttir með þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu
Þriðjudaginn 7. október kl. 17 heldur Arna Valsdóttir fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Eitt augnablik. Þar mun hún fjalla um sýningu sína Staðreynd Local Fact sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.
Á sýningunni má sjá myndbandsverk sem Arna hefur sett upp á síðustu sjö árum ásamt nýju verki sem er sérstaklega gert fyrir þessa sýningu auk verksins La frá árinu 1988 sem markar ef til vill upphafið á rýmistengdum verkum Örnu. 

Arna Valsdóttir nam myndlist við MHÍ og Jan van Eyck Academie í Hollandi þaðan sem hún lauk námi árið 1989. Í Hollandi var Arna þegar farin að gera tilraunir með nýja miðla tengdum gjörningum, tónlist, ljósmyndun og myndvörpun auk hefðbundnari myndlistar. Á þessum tíma fór hún einnig að flétta eigin söngrödd inn í verk sín. Þessar aðferðir hafa verið gegnumgangandi í sköpunarferli Örnu allt til dagsins í dag.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er annar í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Síðdegisfyrirlestrar í Ketilhúsinu.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal fyrirlesara vetrarins eru Jón Gunnar Þórðarson leikstjóri, Hlynur Helgason listfræðingur, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sýningarstjóri og myndlistarmennirnir Aðalsteinn Þórsson, Stefán Boulter og Guðmundur Ármann Sigurjónsson.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.