María Dýrfjörð opnar sýningu í Flóru á Akureyrarvöku

10599200_824630740901356_7664337738242335447_n

María Rut Dýrfjörð
Eitthvað fallegt
30. ágúst - 4. október 2014
Opnun á Akureyrarvöku, laugardaginn 30. ágúst kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/1489406471298785

Laugardaginn 30. ágúst kl. 14, á Akureyrarvöku opnar María Rut Dýrfjörð sýninguna “Eitthvað fallegt” í Flóru á Akureyri.

María er fædd árið 1983 á Akureyri og útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri vorið 2013. Auk þess er hún með diplómapróf í alþjóðlegri markaðsfræði með áherslu á hönnun frá TEKO í Danmörku og stúdentspróf af félagsfræðibraut úr Menntaskólanum á Akureyri og af listhönnunarbraut með áherslu á textíl frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. María rekur vinnustofu í Flóru á Akureyri þar sem hún starfar sem grafískur hönnuður ásamt því að sinna ýmsum persónulegum verkefnum. 
Á þessari fyrstu einkasýningu Maríu, Eitthvað fallegt, sýnir hún textílverk sem unnin eru með blandaðri tækni, útsaum og vefnaði. Í verkunum endurspeglast vangaveltur Maríu um lífið og undrið sem náttúran er, hvernig allar baldursbrár virðast við fyrstu sýn eins, þegar hvert blóm er í raun einstakt. Um verkin segir María:

“Ég hef alla tíð haft unun á symmetríu og endurtekningu. Það fylgir því hugarró að uppgötva reglu í endurtekningu, sjá út óvænt munstur og fylgja því til enda. Það er einmitt þannig sem náttúran er uppbyggð, í allskonar kerfum og endurtekningum. Og planta er ekki bara planta; með því að rýna í séreinkenni hverrar og einnar getum við greint á milli tegunda, flokkað og séð að plantan sem þú hefur í hendi er hundasúra en ekki túnsúra. Ég er eins og hver önnur manneskja með tvö augu, munn og nef, tvær hendur og fætur. Eitt af mínum einkennum er þörfin fyrir að skapa. Kannski hef ég það í genunum, mögulega á ég það að þakka uppeldinu. Skilgreinir þörfin mig frá öðrum, er þetta mitt séreinkenni? Með nál og þráð á lofti yfirfæri ég vangaveltur mínar í myndvef með endurteknum handtökum, útkoman er eitthvað fallegt sem ég skil eftir mig fyrir komandi kynslóðir.”

Nánari upplýsingar um verk Maríu má finna á http://mariacreativestudio.com

Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru á Akureyrarvöku kl. 10-18.  Frá og með 1. september er opið mánudaga - laugardaga kl. 12-16. Sýningin stendur til laugardagsins 4. október 2014.


Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband