23.6.2014 | 16:11
Sumarsýning GÓMS í Deiglunni 2014 "Tvívirkni / Duality"
Sýningin Tvívirkni er áframhald af samvinnu GÓMS (Georg Óskar & Margeir Dire Sigurðsson).
Í verkum GÓMS tvíeykisins má glögglega sjá að allar hugmyndir hafa ákveðið mikilvægi. Þær hlaðast saman á einum myndfleti sem endurspeglar andrúmsloft og undirliggjandi samhengi hlutanna.
Útkoman er aðferðafræði sem kallast Absorbism eða Óbeislað hugmyndaflæði.
Tilgangur lífsins, Himalaya fjöllin, Pungbartar og Kúlusúkk eru til að mynda í þessum skilningi órjúfanleg heild í leit að ákveðinni tilfinningu og túlkun.
Á sýningunni Tvívirkni renna tveir hugarheimar í eitt og við skyggnumst djúpt inní hugarheim þessara dularfullu fígúru sem myndlistamaðurinn og hugmyndasmiðurinn GÓMS er.
Eðli hans er órannsakað og hvatir óþekktar, en eitt getum við gefið okkur, hann er klofinn skrauthundur sem svífst einskis þegar kemur að sköpun.
Við fyrstu kynni af GÓMS er ekki víst að fólk átti sig ekki á því hvað hann er að segja, enda liggur honum margt á hjarta og á það til að tala um það allt saman í einni belg og biðu. En það gerir hann að ásettu ráði, því það er svo margt sem ekki er hægt að koma fullkomlega í orð eða setningu og því bætir hann við leikrænum tilburðum.
Einnig má hann virðast annars hugar, hvatvís og í erfiðleikum með að halda aftur af sér, sem er í vissulega í ákveðnum skilningi rétt, en það er einmitt það sem gæðir verkunum þá dýpt sem þau búa yfir. Allt hleðst saman, ofan á og yfir hvort annað, Þangað til allt sem skiptir raunverulega máli helst hönd í hönd og segir allt sem segja þarf.
GÓMS þekkir sjálfan sig og umhverfið sem hann lifir í. Í hreinskilni sinni setur hann miðju fingurinn upp og segir "Gera meira, blaðra minna"
Þetta er í sjöunda sinn sem þeir félagar vinna saman undir nafninu GÓMS en fyrsta sýningin var árið 2009.
Nánari upplýsingar um GÓMS: http://www.gomsduo.com
https://www.facebook.com/events/682429545166434
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.