Curver Thoroddsen sýnir í Ketilhúsinu

CurverThoroddsen_Sjonlista

Sjónlistamiðstöðin heilsar nýju ári laugardaginn 18. janúar kl. 15.00 þegar Curver Thoroddsen opnar sýninguna Verk að vinna / Paperwork í Ketilhúsinu á Akureyri. Þar stendur listamaðurinn fyrir raunveruleikagjörningi í anda fyrri verka sinna þar sem daglegt líf hans og listsköpun skarast.

Curver lokar sig af í heilan mánuð í Ketilhúsinu og fer allsnakinn og berskjaldaður í gegnum tugi ára af uppsöfnuðum blöðum, pappír, bréfsefni, skjölum og öðru tilfallandi efni og grisjar úr glundroðanum. Þessi persónulega flokkun og endurskoðun helst í hendur við eldri verk Curvers þar sem að hann hefur m.a. sett upp kompusölu í Listasafni Íslands, tekið íbúð sína í gegn í sjónvarpsþættinum Innlit/Útlit, breytt Nýlistasafninu í barnaleiksvæði og selt lundapizzur í Bjargtangavita.

Á efri hæð Ketilhússins verður samhliða gjörningnum sýning á úrvali filmugjörninga og vídeóverka Curvers frá síðastliðnum árum. Þá verður einnig hægt að gægjast inn í þetta mánaðarlanga verkefni listamannsins á samfélagsmiðlum þar sem hann mun setja inn stöðufærslur á Instagram og á Facebooksíðu sinni: www.facebook.com/curverthoroddsen

Í myndlist sinni notar Curver blandaða miðla m.a. gjörninga, myndbandsverk, innsetningar og venslalist til að kanna hugmyndir um sjálfið, dægurmenningu og samfélagið. Veruleikinn eins og hann blasir við flestum fær nýja merkingu þegar hann er yfirfærður á vettvang myndlistar og er það endurtekið viðfangsefni í listsköpun Curvers. Hann hefur einnig verið ötull á vettvangi tónlistar, ekki síst undanfarin ár með hljómsveitinni Ghostigital.

Sýningin stendur til 16. febrúar og er opin milli kl.12.00-17.00 alla daga nema mánudaga. Aðgangur er ókeypis.
 
Sjónlistamiðstöðin
Kaupvangsstræti 12
600 Akureyri
Sími 461 2610


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband