JBK Ransu og Guðrún Vera Hjartardóttir í Listasafninu á Akureyri

ransu_xgeo_200x200cm_2007.jpg

Laugardaginn 12. október kl. 15 verður opnuð sýning á verkum listamannanna og hjónanna Guðrúnar Veru Hjartardóttur og JBK Ransu. Í sýningarsölum Listasafnsins á Akureyri tefla þau saman málverkum og skúlptúrum. Verk þeirra eru unnin með tilliti til viðtekinna einkenna listmiðlanna – sem tvívíðir abstrakt fletir og þrívíðir fígúratífir hlutir – og lúta sem slík eigin lögmálum og innri hugmyndafræði en hér eiga þau jafnframt í fjölþættu samtali sín á milli, sem og við áhorfandann og rýmið. Titillinn Einu sinni er… gefur til kynna að hið liðna sé enn til staðar, fortíð og nútíð séu eitt í huga okkar. Lífið sjálft, í sínu endalausa ferli varðveitir fortíðina, birtist í núinu og í sömu andrá erum við okkur meðvituð um óhjákvæmilega framtíð.

Guðrún Vera Hjartardóttir hefur um árabil unnið að fínlegum höggmyndum sínum úr leir og eru myndir hennar af mannslíkömum og forvitnilegum verum mörgum kunnar. Í verkum hennar birtist viðkvæmni mannslíkamans og mannlegrar tilvistar á áleitinn hátt.

JBK Ransu hefur í verkum sínum gjarnan teflt saman andstæðum pólum og velt fyrir sér hvernig hið andlega og það félagslega birtist þar. Hann notar afgerandi liti og í myndum hans hefur m.a. brugðið fyrir vörumerki Nike og tilvísunum í málverk Barnetts Newman sem tengingu við vestrænan skilning á andlegum málefnum.

Guðrún Vera og Ransu stunduðu listnám í Reykjavík og í Hollandi á tíunda áratug síðustu aldar. Þau eiga að baki fjölda einkasýninga bæði hérlendis og erlendis sem og þátttöku í fjölmörgum samsýningum.
 
Sýningin stendur til 8. desember og er opin alla daga nema mánudaga og þriðjudaga kl. 13-17 í Listasafninu á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.
 
Meginstyrktaraðilar Sjónlistamiðstöðvarinnar eru Flugfélag Íslands og Flytjandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband