10.1.2013 | 01:06
Kristinn G. Jóhannsson opnar myndlistasýningu í Mjólkurbúðinni
Kristinn um sýninguna:
Hvað sem annars má segja um þessi verk verður því með engu móti haldið fram, með réttu, að þeim hafi verið hróflað upp í skyndi eða í óðagoti. Eins og sum ykkar muna ef til vill var fyrst skorið til þeirra fyrir rúmum þrjátíu árum og stundum hefi ég sýnt ykkur hluta úr þeim eða frumparta . Fyrst vorið 1982. Þau verk hafa síðan lifað sjálfstæðu lífi. En nú loksins hefur mér auðnast það eftirlæti að koma verkunum til annarrar meðvitundar. Þau eru orðin eins og mig minnir ég hafi ætlað þeim í upphafi án þess ég muni það glöggt, enda er fátítt að nokkuð verði það sem því var ætlað.
Þar sem þetta verkefni hefur tekið mig þrjátíu ár og ég að nálgast áttrætt er ekki talið líklegt ég ljúki öðru slíku verki. Er þó langlífi í ættum sem að mér standa, bæði svarfdælskum og þingeyskum.
Þess vegna má, held ég , lofa ykkur því, að með þessu ljúki útskornu , grafísku og þrykktu lífi mínu en það hefur verið með nokkrum fádæmum og fólgið í þessum dúkristum, sem hér hefur verið raðað saman til að byggja þessi kostulegu verk, sem eiga sér ekki marga sálufélaga.
Hvað sem því líður er ég heldur feginn því, að nú er lokið bjástrinu og ég hefi komið þessum dúkskurði á nýtt tilverustig.
Kristinn G. Jóhannsson (1936) varð stúdent frá MA 1956 og lauk kennaraprófi 1962. Starfaði við kennslu og skólastjórn á Patreksfirði, Ólafsfirði og Akureyri tæpa fjóra áratugi. Nam myndlist á Akureyri, í Reykjavík og í Edinburgh College of Art.
Efndi til fyrstu sýningar sinnar á Akureyri 1954 en sýndi fyrst í Reykjavík 1962 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og tók sama ár , fyrsta sinni,þátt í Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum við Austurvöll. Hefur síðan sýnt oft og víða heima og erlendis.
Sýning Kristins G. Jóhannssonar stendur 12.-27.janúar og eru allir velkomnir
Flokkur: Menning og listir | Breytt 11.1.2013 kl. 21:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.