Hlynur Helgason opnar sýninguna Patagónía í Mjólkurbúðinni

c11.jpg


Hlynur Helgason opnar sýninguna Patagónía laugardaginn 10.nóvember kl. 15 í Mjólkurbúðinni Listagili á Akureyri.
 
Sýning Hlyns Helgasonar Patagónía samanstendur af gvassakvarellum, ljósmyndum, ljósmyndaskyggnum og myndbandsverki.

Myndefni núverandi sýningar, Patagóníu, er unnið árið 2010 í Argentínu, bæði í Buones Aires en einnig á ferð þvert yfir suðurhluta landsins, Patagóníu. Hugmyndin er að birta á Akureyri vissan fjarska sem vonast er til að tóni þó við ímynd Akureyringa og þátttöku í heiminum.
 
Viss vakning á bak við þrána sem fylgir sýningunni er fengin úr kafla Atómstöðvar Halldórs Laxness, en þar er Patagónía kynnt til sögunnar sem einskonar draumaland þar sem jafnrétti og réttlæti getur átt sér stað:
 
Hvað viltu ég geri, sagði hann, og ég skal gera það. Ég horfði á hann eins leingi og ég gat, síðan oní hnén á mér; en svarað gat ég ekki. Viltu ég afsali mér öllu, sagði hann: firmanu, kjördæminu, opin­berum trúnaðarstöðum, flokki, lagsmönnum, vinum – og verði aftur fátækur mentamaður. Aldrei aldrei gæti ég þolað þú yrðir lítillækkaður um hársbreidd vegna mín, sagði ég. Enda er ég viss um að þó þú verðir fátækur mundirðu halda áfram að vera það sem vaninn hefur gert þig, sá sem þú ert; og ég það sem ég er, sveitakrakki, vinnustúlka, alþýða; ekkert nema þráin eftir að verða að manni, kunna eitthvað, geta eitthvað sjálf, láta ekki borga fyrir mig, borga fyrir mig sjálf. Hvar ætti að vera til staður fyrir okkur bæði? Nú hlýturðu að sjá að Patagónía er ekki sem slökust hugmynd, sagði hann. Er til nokkur patagónía? sagði ég. Nú skal ég sýna þér á kortinu, sagði hann. Er það þá ekki eitthvert villimannalandið? sagði ég.
 
Hlynur Helgason á að baki rúmlega 25 ára feril sem myndlistarmaður. Á ferli sínum hefur hann sýnt víða, í Reykjavík, á Akureyri, í Þýskalandi, Tékklandi og Argentínu. Nánari upplýsingar um feril Hlyns og verk er að finna á vefsíðum hans: http://tacticalart.net og http://artinfo.is.
Hlynur útskrifaðist frá málaradeild Mynd og Handíðaskóla Íslands 1986 og lauk M.A. prófi frá Goldsmith´s Collage, Un. Of London 1994. Á síðasta ári lauk Hlynur Ph.D. prófi í Media Philosophy frá European Gratuate School.
 
Sýning Hlyns Helgasonar Patagónía stendur 10.-25.nóvember og eru allir velkomnir.
Opnunartími er laugardaga og sunnudaga kl.14-17 og eftir frekara samkomulagi.
Mjólkurbúðin Listagili s. 8957173


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband