Á Akureyrarvöku, laugardaginn 27. ágúst klukkan 15 opnar Listasafnið á Akureyri yfirlitssýningu á verkum Gústavs Geirs Bollasonar.
Gústav hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér heima og erlendis og haldið tíu einkasýningar. Þetta er í fyrsta sinn sem yfirlitssýning á verkum Gústavs er haldinn og gefst því gott tækifæri til að fá innsýn í feril þessa einstaka listamanns.
Glundroði og hrörnun eru hugðarefni Gústavs Geirs. Verk hans hverfast um tækifærin sem felast í framrás tímans. Hann vinnur með hluti sem fundnir eru á víðavangi, leikur sér með rekavið náttúrunnar og reköld mannanna. Landslagið læðist inn í ljósmyndasamsetningar, abstrakt grafísk verk og jafnvel verk búin til úr jörðinni sjálfri. Bútar úr jörðinni hafa verið sviptir samhengi sínu og hrifnir inn í galleríið og bíða þess þar að áhorfandinn púsli þeim saman í verkunum og á milli verka.
Miðpunktur sýningar Gústavs í Listasafninu á Akureyri er verk hans Fiskar bera ekki byssur (2004-2008). Þar skeytir listamaðurinn teikningar og málverk saman við myndbanda- og tónskúlptúra. Listilega unnar teikningarnar eru gerðar eftir kvikmynd af hendi sem gangsetur bátsvél. Með þessum teikningum fylgja útlínumyndir sem sýna þverskurð skipsskrokksins og á teiknaðar útlínurnar hefur listamaðurinn málað skipsskrúfuna. Kvikmyndavél á bátnum festi á filmu hafflötinn og lífið á sjónum. Þessari kvikmynd er varpað á vegg og á borð með vatni. Vatnsborðið endurspeglast einnig í myndinni sem varpað er á vegginn. Og freistist einhver áhorfandi til þess að dýfa fingrunum eða hendinni í vatnið, þá umhverfist kvikmyndin í bylgjur, gárur sem sjást bæði á vatnsborðinu og á veggnum.
Einn af hápunktum þessarar sýningar er ný röð teikninga sem er í raun ætlað að þjóna sem eins konar myndstiklur og sýna okkur heiminn eftir að vistfræðilegt hrun hefur átt sér stað. Þegar olíulindirnar þorna upp skipta bílarnir ekki lengur máli; maður sést byggja hús úr gömlum gúmmídekkjum sem vart eru til annars nýt. Svokallaðir flóðhestabílar sundursagaðir afturhlutar bifreiða sem dregnar eru áfram af hestum aka hægt framhjá óplægðum túnum. Í drungalegustu teikningunni er beinamulningsvél að verki innarlega í hlöðu og í þeirri órakenndustu sturta tvær hendur hrútsvofu úr bíldekki ofan í læk. Myndaflokkurinn lýsir því hvernig heimurinn er reistur úr öskustó með nákvæmlega sömu hlutum og lögðu hann í eyði og hvernig samskipti manns og dýra leita aftur til fyrri hátta.
Gústav Geir er fæddur á Akureyri árið 1966. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987-89, nam við Magyar Képzömüveszeti Egyetem í Búdapest 1989-90 og lauk DNSEP gráðu við Ecole Nationale dArt í Frakklandi árið 1995. Gústav er einn af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og situr í stjórn hennar.
Sýningin stendur til sunnudagsins 16. október. Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl 12-17.
Nánari upplýsingar:

Safnfulltrúi: Sóley Björk Stefánsdóttir s: 844-1555

Forstöðumaður og sýningarstjóri: Hannes Sigurðsson: s: 899-3386

www.listasafn.akureyri.is

email: art@art.is

Sími: 461-2610
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.