Safnasafnið á Svalbarðsströnd í Listasafninu á Akureyri

voss_small

Hringheimar

Í sumar taka Safnasafnið á Svalbarðsströnd og Listasafnið á Akureyri saman höndum í verkefninu „safn í safni“ en það byggist á því að sýna hluti úr safneign eins safns í öðru safni og varpa þannig ljósi á menningarsöguleg tengsl safnanna.

Safnasafnið sýnir nú verk Katrínar Jósefsdóttur (Kötu saumakonu) sem eru eigu Akureyrarbæjar og laugardaginn 2. júlí opnar Listasafnið á Akureyri sýningu sem ber heitið Hringheimar og samanstendur meðal annars af fjölmörgum verkum úr safneign Safnasafnsins sem skipt hefur verið upp í fimm smærri sýningar. Sýningarstjórar eru Harpa Björnsdóttir og Níels Hafstein

Sýningarnar búa yfir vitneskju um margs konar hringferla sem hverfast um íslenska myndlist, afmarkaða kima jafnt sem fjölfarin svæði, og birta mismunandi viðhorf, staðhætti og skoðanir. Í gömlu handritunum er heimssýnin ýmist víðtæk eða þröng og sérviskuleg, jafnvel bernsk; í grafíkverkunum og teikningunum kallast markviss vinnubrögð og öguð framsetning hugmynda og val á efni á við tilviljun stundarinnar og hrifnæmi augnabliksins. Í skúlptúrunum er sótt til eldri reynslu og þeir lagaðir að samtímanum, og í einni sérsýningunni er leitast við að gefa myndhugsuninni áþreifanlegan blæ og farið fram á ystu nöf í miðlun áhrifa sem verða til við nýjar lausnir í leikföngum, vísindum og tækni. Svo breitt tjáningarsvið fellur vel að stefnu Safnasafnsins, sem leitast við að eignast verk eftir alþýðulistamenn, börn, hagleiksmenn og einfara, sem og framsækna listamenn sem gera tilraunir sem skara alþýðulist eða eru unnin með þjóðleg minni í huga.

Safnasafnið – Alþýðulist Íslands

Safnasafnið var stofnað 1995 af Magnhildi Sigurðardóttur og Níelsi Hafstein, í gamla Þinghúsinu á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð, en síðan hefur það stækkað umtalsvert og starfsemin orðið viðameiri.

Sýningar Safnasafnsins hafa byggt á nýstárlegri hugsun þar sem alþýðulist og nútímalist mynda fagurfræðilegt samspil, og einstök tengsl heimilis, safns og garðs hafa opnað augu fólks fyrir fegurð mismunandi hluta og innbyrðis samhengis allrar sköpunarþrár.                

Í Safnasafninu má sjá verk eftir sjálflærða alþýðulistamenn jafnt og framsækna nútímalistamenn, börn sem fullorðna – þar má finna málverk, skúlptúra, útsaum, teikningar, líkön, minjagripi, brúður, verkfæri og leikföng, auk áhugaverðs bókasafns. Árlega eru settar upp nýjar sýningar sem hafa það að markmiði að skerpa á myndhugsun eða ögra gestum safnsins og þar er varpað birtu á hina ýmsu kima og hringferli sköpunar.

Nánari upplýsingar hjá Listasafninu á Akureyri í síma 4612610 eða með tölvupósti art@art.is 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband