Umsóknarfrestur um Starfslaun listamanna á Akureyri rennur út 19. mars

sitelogo


Stjórn Akureyrarstofu auglýsir eftir umsóknum listamanna um starfslaun fyrir tímabilið 1. júní 2010 til 31. maí 2011. Starfslaunum verður úthlutað til eins listamanns og hlýtur viðkomandi sex mánaða laun. Ætlast er til að að listamaðurinn helgi sig list sinni eða einstökum verkefnum á vettvangi hennar á starfslaunatímanum og einungis listamenn sem eiga lögheimili á Akureyri koma til greina.
Umsækjendur skili, ásamt umsókn, upplýsingum um listferil sinn og greinargóðum upplýsingum um hvernig starfslaunatíminn skal notaður. Umsóknum skal skilað í þjónustuanddyri ráðhússins að Geislagötu 9. Nánari upplýsingar veitir Hulda Sif Hermannsdóttir verkefnisstjóri viðburða- og menningarmála hjá Akureyrarstofu í netfanginu huldasif@akureyri.is.
Fyrir tímabilið 2009-2010 hlutu Guðný Kristmannsdóttir myndlistarkona og Björn Þórarinsson tónlistarmaður starfslaun til að sinna list sinni í sex mánuði hvort.
Umsóknarfrestur er til og með 19. mars nk.


VARIÐ LAND - Yfirlitssýning á verkum Tryggva Ólafssonar í Listasafninu á Akureyri

tryggvio

TRYGGVI ÓLAFSSON - VARIÐ LAND
yfirlitssýning í Listasafninu á Akureyri 20. mars - 9. maí 2010

Þann 20. mars nk. opnar Listasafnið á Akureyri veglega yfirlitssýningu á verkum Tryggva Ólafssonar listmálara. Sýningin ber nafnið Varið land og spannar 40 ár af feril Tryggva, tímabilið frá 1969 til 2009. 

Tryggvi hefur fyrir löngu skipað sér í framvarðasveit íslenskrar myndlistar með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl sínum og er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna Íslands. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og Kaupmannahöfn í Danmörku, þar sem hann hefur búið í yfir 40 ár. Tryggvi hefur haldið fjölda einkasýninga á löngum ferli sínum og tekið þátt í samsýningum í fjölmörgum löndum. Verk hans prýða bækur og blöð og hann hefur skreytt byggingar bæði hér á landi og erlendis.

Eitt orð – örlæti – lýsir myndlist Tryggva Ólafssonar betur en flest önnur. Einhverjum kann að þykja auðveldara að heimfæra þetta orð á geðríkan lista- og lífsnautnamanninn sjálfan, sem áratugum saman skaut skjólshúsi yfir umflakkandi Íslendinga í margs konar ásigkomulagi meðan hann bjó í Kaupmannahöfn. En þetta á engu síður við um myndlist hans, enda er varla við öðru að búast af svo heilsteyptum manni. 

Þetta „örlæti“ er að sumu leyti innbyggt í þá myndlistarstefnu sem Tryggvi hefur helgað sig frá því um miðjan sjöunda áratuginn, nefnilega popplistina. Sú list grundvallast ekki á viðteknum módernískum hugmyndum um nýsköpun frá grunni, heldur á meðhöndlun listamannsins á myndrænum ummerkjum nútíma neyslu- og fjölmiðlasamfélags, teiknimyndasögum, ljósmyndum, auglýsingaskiltum, vöruumbúðum, kvikmyndabútum og fleiru í þá veru.

Í myndum Tryggva endurspeglast lífsreynsla hans og skoðanir, veruleiki Íslendings sem hefur orðið fyrir þroskandi áhrifum af langri dvöl erlendis. Hann á sinn eigin myndheim; goðsagnir sem hann hefur ofið úr hugsun sinni, heimþrá, minningum og hugleiðingum um heiminn.

Snemma á ferli sínum málaði Tryggvi mynd sem hann kallaði Varið land, með augljósri tilvísan til umdeilds félagsskapar sem bar sama nafn. Árið 1977 var eflaust litið á þessa mynd sem innlegg í áróðursherferð íslenskra herstöðvarandstæðinga, en í dag, í ljósi þess sögulega yfirlits sem þessi sýning í Listasafninu á Akureyri myndar, öðlast hún aðra og víðtækari merkingu. 

Í myndinni raðar Tryggvi saman minnum sem í sameiningu draga upp mynd af ástandi sem kalla mætti íslenskt „tímaleysi“; við sjáum torfbæ, máf svífa þöndum vængjum, mann við málaratrönur, hægindastól sem gefur fyrirheit um hvíld. En það á sér stað „rof“ í myndinni, þessu „tímaleysi“ er spillt með inngripi pólitískra afla (mynd af Bjarna Benediktssyni), herþotum, hálfum hermanni, handsög, skammbyssu og reykjarkófi. Og myndin spyr: Hvað er til varnar?

Á þessu ári eru fimmtíu ár liðin frá fyrstu sýningu Tryggva hér á landi en listamaðurinn fagnar einnig 70 ára afmæli sínu síðar á árinu. Það má því segja að Tryggvi standi á miklum tímamótum nú.

Thor Vilhjálmsson rithöfundur og Sören Haslund,  sendiherra Danmerkur á Íslandi, opna sýninguna sem haldin er í samstarfi við Málverkasafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað. Sýningin stendur til 9. maí 2010.

Í tilefni sýningarinnar er gefin út sýningarskrá með umfjöllun um líf og list Tryggva eftir Aðalstein Ingólfsson.

Frekari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri 
í síma 461 2610 eða í tölvupósti á netfanginu art@art.is

Bloggfærslur 17. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband