VARIÐ LAND - Yfirlitssýning á verkum Tryggva Ólafssonar í Listasafninu á Akureyri

tryggvio

TRYGGVI ÓLAFSSON - VARIÐ LAND
yfirlitssýning í Listasafninu á Akureyri 20. mars - 9. maí 2010

Þann 20. mars nk. opnar Listasafnið á Akureyri veglega yfirlitssýningu á verkum Tryggva Ólafssonar listmálara. Sýningin ber nafnið Varið land og spannar 40 ár af feril Tryggva, tímabilið frá 1969 til 2009. 

Tryggvi hefur fyrir löngu skipað sér í framvarðasveit íslenskrar myndlistar með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl sínum og er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna Íslands. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og Kaupmannahöfn í Danmörku, þar sem hann hefur búið í yfir 40 ár. Tryggvi hefur haldið fjölda einkasýninga á löngum ferli sínum og tekið þátt í samsýningum í fjölmörgum löndum. Verk hans prýða bækur og blöð og hann hefur skreytt byggingar bæði hér á landi og erlendis.

Eitt orð – örlæti – lýsir myndlist Tryggva Ólafssonar betur en flest önnur. Einhverjum kann að þykja auðveldara að heimfæra þetta orð á geðríkan lista- og lífsnautnamanninn sjálfan, sem áratugum saman skaut skjólshúsi yfir umflakkandi Íslendinga í margs konar ásigkomulagi meðan hann bjó í Kaupmannahöfn. En þetta á engu síður við um myndlist hans, enda er varla við öðru að búast af svo heilsteyptum manni. 

Þetta „örlæti“ er að sumu leyti innbyggt í þá myndlistarstefnu sem Tryggvi hefur helgað sig frá því um miðjan sjöunda áratuginn, nefnilega popplistina. Sú list grundvallast ekki á viðteknum módernískum hugmyndum um nýsköpun frá grunni, heldur á meðhöndlun listamannsins á myndrænum ummerkjum nútíma neyslu- og fjölmiðlasamfélags, teiknimyndasögum, ljósmyndum, auglýsingaskiltum, vöruumbúðum, kvikmyndabútum og fleiru í þá veru.

Í myndum Tryggva endurspeglast lífsreynsla hans og skoðanir, veruleiki Íslendings sem hefur orðið fyrir þroskandi áhrifum af langri dvöl erlendis. Hann á sinn eigin myndheim; goðsagnir sem hann hefur ofið úr hugsun sinni, heimþrá, minningum og hugleiðingum um heiminn.

Snemma á ferli sínum málaði Tryggvi mynd sem hann kallaði Varið land, með augljósri tilvísan til umdeilds félagsskapar sem bar sama nafn. Árið 1977 var eflaust litið á þessa mynd sem innlegg í áróðursherferð íslenskra herstöðvarandstæðinga, en í dag, í ljósi þess sögulega yfirlits sem þessi sýning í Listasafninu á Akureyri myndar, öðlast hún aðra og víðtækari merkingu. 

Í myndinni raðar Tryggvi saman minnum sem í sameiningu draga upp mynd af ástandi sem kalla mætti íslenskt „tímaleysi“; við sjáum torfbæ, máf svífa þöndum vængjum, mann við málaratrönur, hægindastól sem gefur fyrirheit um hvíld. En það á sér stað „rof“ í myndinni, þessu „tímaleysi“ er spillt með inngripi pólitískra afla (mynd af Bjarna Benediktssyni), herþotum, hálfum hermanni, handsög, skammbyssu og reykjarkófi. Og myndin spyr: Hvað er til varnar?

Á þessu ári eru fimmtíu ár liðin frá fyrstu sýningu Tryggva hér á landi en listamaðurinn fagnar einnig 70 ára afmæli sínu síðar á árinu. Það má því segja að Tryggvi standi á miklum tímamótum nú.

Thor Vilhjálmsson rithöfundur og Sören Haslund,  sendiherra Danmerkur á Íslandi, opna sýninguna sem haldin er í samstarfi við Málverkasafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað. Sýningin stendur til 9. maí 2010.

Í tilefni sýningarinnar er gefin út sýningarskrá með umfjöllun um líf og list Tryggva eftir Aðalstein Ingólfsson.

Frekari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri 
í síma 461 2610 eða í tölvupósti á netfanginu art@art.is

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband