Hlynur Hallsson með leiðsögn um sýninguna “Bæ bæ Ísland” á sunnudag

baebae

Sunnudaginn 13. apríl klukkan14:00 mun Hlynur Hallsson vera með leiðsögn um sýninguna “Bæ bæ Ísland” í Listasafninu á Akureyri.

Rýnt verður í einstök verk og velt upp spurningum um samfélagið og sýn listamanna og almennings á það. Spurningum verður velt upp eins og: Hvað er fallegt? Er allt leyfilegt? Getur listin breytt einhverju? Er komin kreppa? Hvar endar þetta? Boðið verður uppá umræður um sýninguna og einstök verk.

Leiðsögnin ásamt umræðum mun standa yfir í um 40 mínútur og er öllum opin.

Heiti verkefnisins, „Bæ bæ Ísland”, vísar í fyrsta lagi til kveðjuhófs eða útfarar um 19. og 20. aldar hugmyndarinnar um Ísland. Það sem í gær var unga Ísland er nú tákn hins liðna. Bless bless (hin kristilega blessun) víkur fyrir hinu ennþá óformlegra bæ bæ og vitnar um leið um það hvernig íslenskan er farin á límingunum. Í öðru lagi hljómar bæ eins og sögnin að kaupa (buy) á ensku og verður því til eins konar undiráróður: „Kaupum kaupum Ísland!” „Bæ bæ Ísland” er þannig uppgjör við hugmyndina um tunguna sem upphaf og endi sögulegrar tilvistar þjóðarinnar, sem og möguleika hennar til að lifa af menningarlega útjöfnun hnattvæðingarinnar.

Tímarit eða sýningarskrá með upplýsingum um verkefnið, listamenn, verkin og þjóðfélagið kom út fyrir opnun sýningarinnar og dreift án endurgjalds og án kostunaraðila.

Unnið er að því að gefa út viðamikla bók síðar á árinu þar sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga gera upp við gamla konseptið Ísland og fyrirhugað er að halda ráðstefnu undir sama nafni. Bókin er hugsuð sem safnrit og jafnframt nokkurs konar leiðarvísir. Í henni verður m.a. tekið á bankakerfinu, þjóðarímyndinni, útlendingum á Íslandi, fjölmiðlum, stóriðju- og náttúruverndarsjónarmiðum og siðferði í stjórnmálum, auk þess sem þar verður einnig að finna umfjöllun um framlag listamannanna á sýningunni og myndir af verkum þeirra.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni í Listasafninu eru Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Erling Þ. V. Klingenberg, Hallgrímur Helgason, Hannes Lárusson, Hlynur Hallsson, Inga Svala Þórsdóttir & Wu Shan Zhuan, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Libia Pérez de Siles de Castro & Ólafur Árni Ólafsson, Magnús Sigurðarson, Ólafur Sveinn Gíslason, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Rúrí, Steingrímur Eyfjörð, Unnar Örn Auðarson & Huginn Þór Arason, Þorvaldur Þorsteinsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir.
Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson.

Hlynur Hallsson er myndlistarmaður og einn þátttakenda í sýningunni Bæ bæ Ísland.

Ítarlegar upplýsingar um listamennina og inntak sýningarinnar er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is.


Lýðræðisdagurinn 2008 á Akureyri

ak

Lýðræðisdagurinn 2008 verður haldinn laugardaginn 12. apríl nk. í Brekkuskóla á Akureyri undir yfirskriftinni "Þú & ég & Akureyri". Tilgangurinn með framtakinu er fyrst og fremst að efla íbúalýðræðið og koma af stað frjóum umræðum um það hvernig bæjarbúar sjái fyrir sér að gera megi Akureyri að ennþá betri bæ.

Dagskráin hefst kl. 13.00 og er áætlað að henni ljúki um klukkan 17.00. Vonast er eftir góðri þátttöku þar sem fólk getur valið um að ræða málin í átta ólíkum málstofum þar sem fjallað verður um ýmis áhugaverð málefni sem varða hag bæjarbúa. Flestar málstofurnar verða haldnar tvisvar og því ætti jafnvel að vera hægt að taka þátt í tveimur þeirra ef vilji er fyrir hendi.

Á fundinum gefst bæjarbúum tækifæri til að hafa áhrif á bæjarbraginn, deila skoðunum sínum og sjónarmiðum með öðrum, og láta gott af sér leiða í bæjarmálum almennt.

Málstofurnar eru eftirfarandi:

      Íbúalýðræði
      Framsaga: Ágúst Þór Árnason - agust@unak.is
      Umræðustjóri: Margrét Guðjónsdóttir

      Mengun, umferð og lýðheilsa
      Framsaga: Pétur Halldórsson - peturh@ruv.is
      Umræðustjóri: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir

      Göngu- og hjólreiðastígar
      Framsaga: Guðmundur Haukur Sigurðarson - ghs@vgkhonnun.is
      Umræðustjóri: Inga Þöll Þórgnýsdóttir

      Lýðheilsa og skipulag
      Framsaga: Matthildur Elmarsdóttir - matthildur@alta.is
      Umræðustjóri: Karl Guðmundsson

      Hæglætisbær eða heimsborgarbragur?
            Framsaga: Hólmkell Hreinsson - holmkell@akureyri.is
            Umræðustjóri: Katrín Björg Ríkarðsdóttir


      Vistvernd í verki. Allra hagur.
      Framsaga: Stella Árnadóttir - gstella@heimsnet.is
      Umræðustjóri: Gunnar Gíslason

      Að eldast á Akureyri.
      Framsaga: Sigrún Sveinbjörnsdóttir - sigrunsv@unak.is
      Umræðustjóri: Þórgnýr Dýrfjörð

      Akureyri – fjölskylduvænt samfélag.
      Framsaga: Jan Eric Jessen - 24jej@ma.is
      Umræðustjóri: Sigríður Stefánsdóttir


Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, setur Lýðræðisdaginn kl. 13.00 með stuttu ávarpi og síðan hefst vinnan í málstofunum. Að þinginu loknu, upp úr kl. 16.00, mun María Sigurðardóttir, nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, sjá um að slíta samkomunni á viðeigandi hátt.

Skorað er á Akureyringa að fjölmenna og taka þátt í líflegum umræðum um bæinn sinn.


Bloggfærslur 11. apríl 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband