Bæ bæ Ísland opnar í Listasafninu á Akureyri á laugardag

listak_frettir_0208

LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI KYNNIR

Bæ bæ Ísland

Uppgjör við gamalt konsept
Laugardaginn 15. mars nk. verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýningin „BÆ BÆ ÍSLAND” sem er átaksverkefni tuttugu og þriggja myndlistamanna og fjölmargra annarra sem vilja ræða landsins gagn og nauðsynjar með einum eða öðrum hætti. Höfundur verkefnisins og sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni í Listasafninu eru Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Erling Þ. V. Klingenberg, Hallgrímur Helgason, Hannes Lárusson, Hlynur Hallsson, Inga Svala Þórðardóttir & Wu Shan Zhuan, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Libia Pérez de Siles de Castro & Ólafur Árni Ólafsson, Magnús Sigurðarson, Ólafur Sveinn Gíslason, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Rúrí, Steingrímur Eyfjörð, Unnar Örn Auðarson & Huginn Þór Arason, Þorvaldur Þorsteinsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir.

Sem sjá má er hér smalað saman í öflugan her fólks sem er allt annað en skoðanalaust um „verkefnið Ísland” og hvernig því hefur verið umturnað á síðustu tveimur áratugum. Því Íslandi hefur verið umbylt og í þeirri byltingu eru lykilorðin einkavæðing, kvótakerfi, misskipting, útrás, græðgi, þrælsótti, innflytjendur og stóriðja. Allt gott og blessað en afleiðingin er að nú má segja að landið byggi þrjár þjóðir, þ.e. milljarðamæringar, íslenskt alþýðufólk og innflytjendur.

Heiti verkefnisins, „Bæ bæ Ísland”, vísar í fyrsta lagi til kveðjuhófs eða útfarar um 19. og 20. aldar hugmyndarinnar um Ísland. Það sem í gær var unga Ísland er nú tákn hins liðna. Bless bless (hin kristilega blessun) víkur fyrir hinu ennþá óformlegra bæ bæ og vitnar um leið um það hvernig íslenskan er farin á límingunum. Í öðru lagi hljómar bæ eins og sögnin að kaupa (buy) á ensku og verður því til eins konar undiráróður: „Kaupum kaupum Ísland!” „Bæ bæ Ísland” er þannig uppgjör við hugmyndina um tunguna sem upphaf og endi sögulegrar tilvistar þjóðarinnar, sem og möguleika hennar til að lifa af menningarlega útjöfnun hnattvæðingarinnar.

DSCF0012Verkefninu „Bæ bæ Ísland” tengist fólk sem er óhrætt við að segja meiningu sína í salarkynnum tjáningarfrelsisins. Þetta er fólk sem getur skilgreint sig á báðum vígstöðvum, í hinu gamla sem og hinu nýja, staðbundið og heimsvætt, hvort heldur sem er á sjó eða landi, á leikskólum eða í bönkum. Alvarleiki, sem dottinn er úr tísku, er hér settur á oddinn.

„Bæ bæ Ísland” er einnig uppgjör við atlögu auðmagnsins að landi þjóðarinnar. Ýmsir nútímavæddir „víkingahöfðingjar“ virðast hafa sagt bæ bæ við landið í áþreifanlegri merkingu og fjarstýra nú að miklu leyti efnahagsmálum þjóðarskútunnar utan úr heimi líkt og Danakonungur gerði á sínum tíma. En þegar öllu er á botninn hvolft var það samt ekki kana- eða kommagull sem asninn bar yfir borgarmúrana. Gullið kom úr hirslum okkar sjálfra. Sýningin er eins konar hugmyndafræðileg úför og kveðjuhóf í formi myndlistarsýningar.
Á opnunardegi sýningarinnar kl. 14 verður frumflutt tónverkið „Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands“ í Ketishúsinu á Akureyri, en verkið var unnið í samstarfi myndlistardúósins Libiu Castro og Ólafs Ólafsson og tónskáldsins Karólínu Eiríksdóttur. Libia og Ólafur fóru þess á leit við Karólínu að hún semdi tónverk þar sem allar 81 greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Verkið er skrifað fyrir tvo einsöngvara, píanó, kontrabassa og blandaðan kór og flytjendur verksins eru: Ingibjörg Guðjónsdóttir (sópran), Bergþór Pálsson (baritón) Tinna Þorsteinsdóttir (píanóleikari), Gunnlaugur Torfi Stefánsson (kontrabassaleikari) og kammerkórinn Hymnódía frá Akureyri undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar.

Föstudaginn 14. mars kl. 15 verður haldið opið málþing um „konseptið Ísland“ í Ketilhúsinu. Ágúst Þór Árnason, Þorvaldur Þorsteinsson og Ósk Vilhjálmsdóttir halda framsöguerindi, en fundarstjóri er Birgir Guðmundsson lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.

Unnið er að því að gefa út viðamikla bók síðar á árinu þar sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga gera upp við gamla konseptið Ísland og fyrirhugað er að halda ráðstefnu undir sama nafni. Bókin er hugsuð sem safnrit og jafnframt nokkurs konar leiðarvísir. Í henni verður m.a. tekið á bankakerfinu, þjóðarímyndinni, útlendingum á Íslandi, fjölmiðlum, stóriðju- og náttúruverndarsjónarmiðum og siðferði í stjórnmálum, auk þess sem þar verður einnig að finna umfjöllun um framlag listamannanna á sýningunni og myndir af verkum þeirra.

Ítarlegar upplýsingar um listamennina og inntak sýningarinnar er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is. Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður safnsins, Hannes Sigurðsson, í síma 899-3386 (netfang: hannes@art.is).

Þess má að lokum geta að ekkert fyrirtæki treysti sér til að styrkja verkefnið, sem segir ef til vill sína sögu. Sýningunni lýkur 11. maí og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.


Arnar Tryggvason opnar myndlistarsýningu í Populus tremula á laugardag

Arnar-Tryggvason-web

Populus Kynnir:

Stór laugardagur í Listagili

nýjar sýningar í hverju skoti

Populus tremula kl. 14:00

Arnar Tryggvason

Myndlist

Laugardaginn 15. mars kl. 14:00 opnar Arnar Tryggvason myndlistarsýningu í Populus tremula.

Þetta er önnur einkasýning Arnars sem útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri 1995.

Verkin á sýningunni eru tölvuunnar ljósmyndir, bleksprautuprentaðar á striga.

Myndverk Arnars hafa vakið verðskuldaða athygli enda sýnir hann ljósmyndir af húsum, götum og landslagi sem er ekki til – ljósmyndir af hugarheimi.

Hvert verk er samsett úr aragrúa ljósmynda sem Arnar bútar niður og raðar saman upp á nýtt – byggir ný hús og mótar nýtt landslag. Og þrátt fyrir að myndefnið hafi yfir sér framandlegan blæ er áhorfandinn þess jafnframt fullviss að hann þekki myndefnið, hafi gengið þarna um, komið í þessi hús.

Velkomin í ferðalag um framandi heimaslóðir.

http://poptrem.blogspot.com


Opið hús í nýrri vinnustofu í Brekkugötu 13 á Akureyri

Ný vinnustofa ,,Báshús” er komin í notkun í Brekkugötunni. Listakonurnar Sveinka, Bogga og Steinunn Ásta eru komnar með vinnustofu í Brekkugötu 13 á fyrstu hæð. Þær hafa opið gestum og gangandi laugardaginn 15. mars kl.17-19. Það fjölgar því listhúsum í Brekkugötunni og verður Báshús góð viðbót við Svartfugl og Hvítspóa, DaLí Gallery, Amtið og Gallerí+. 
http://gralist.wordpress.com

Jón Henrysson opnar myndlistarsýninguna “Bakland” í Deiglunni laugardaginn 15. mars

bakland lifskraftur_minni

Bakland og þolraunir.

Laugardaginn 15. mars kl. 14.30 opnar Jón Henrysson myndlistarsýninguna “Bakland” í Deiglunni, Listagilinu á Akureyri.

Á sýningunni verða Palli sem var einn í heiminum, Tralli á ísjakanum og Stúfur sem var orðinn stór. Einnig verða 18 íslenskar myndir á lífskraftsfernum með ávöxtum og vítamíni. Loks veltir Jón fyrir sér, hvert sé bakland manna sem hann elti á götum vestrænna borga á síðasta ári. Allt er þetta síðan hjúpað í þolplast gegn táraflóðum og breytt yfir restina með viðkvæmu yfirbreiðsluplasti.

Opið er í Deiglunni frá kl. 13-17, mánudaga til laugardaga. Sýningin stendur til 29. mars 2008.


Þuríður Sigurðardóttir opnar í DaLí Gallery á Akureyri á laugardag

dali7304
 
Þuríður Sigurðardóttir, Þura, kynnir málverkaröðina “STÓД í DaLí Gallery á Akureyri, laugardaginn 15. mars kl. 17-19.

Viðfangsefni á sýningunni er íslenski hesturinn og býður listamaðurinn áhorfandanum að taka þátt í rannsókn sinni á tengslum manns og dýrs í gegnum upplifun lita og áferðar feldsins.

Með því að höfða til löngunarinnar að klappa mjúkum dýrum verða málverkin nánast ómótstæðileg og um leið koma fram spurningar um málverkið sem miðil. Þaulunnin og tímafrek kallast þau á við listasöguna og vega salt milli hins fígúratífa og abstrakt.

Um leið og Þura vinnur með upplifun áhorfenda í sýningarrýminu skoðar hún líka eigin upplifun úti í náttúrunni í hestamennsku.

"Þetta er ekkert venjulegt stóð sem ég kem með norður! Ef fólk á von á málverkum með hestum, sem koma vaðandi á móti áhorfandanum eða settlegum töltara með knapa á baki í fallegu landslagi, valið með tilliti til ættbókar hestsins verða þetta tóm vonbrigði! Hesturinn hefur mjög sterka hefð í myndlist og er gjarnan sýndur sem tákn um styrk. Hann birtist oft í íslenskum myndverkum sem þarfasti þjónninn, sem hluti af landslagi, tákn fyrir sveitasælu og hinn frjálsa íslending. Mig langar hins vegar að fara aðra leið til að túlka þessa dásamlegu skepnu sem hesturinn er og finnst ekki ástæða til að leita í hefðina".

Þura útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2001 og lagði m.a. stund á íkonamálun og íkonafræði hjá rússneska prófessornum Yuri Bobrov. Hún hefur starfað víða að myndlist og á að auki glæstan tónlistaferil. Þura hefur haldið fjölda einka- og samsýninga bæði innanlands og utan og hefur unnið að ýmsum verkefnum myndlistar. Hún er einn af stofnendum START ART listamannahúss á Laugarveginum, er einn hugmyndasmiða og umsjónarmanna Opna Gallerísins sem sýndi víða í 101 Reykjavík og kennir við Myndlistaskólann í Reykjavík og Mosfellsbæ. Þura situr í stjórn SÍM og hefur gegnt þar varaformennsku.

Sýningin ,,Stóð" stendur til 5. apríl í DaLí Gallery.

Þuríður Sigurðardóttir

http://thura.is

thura(hjá)thura.is

s. 8993689

 

DaLí Gallery

Brekkugata 9

600 Akureyri

dagrunm(hjá)snerpa.is

http://daligallery.blogspot.com

Dagrún s.8957173

Lína s.8697872

 

Opið: föstudaga og laugardaga kl.14-17 og eftir samkomulagi.

Um páska er opið á skírdag, föstudaginn langa og laugardag á sama tíma.
 

Bloggfærslur 12. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband