Færsluflokkur: Umhverfismál

Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar sunnudaginn 26. ágúst

img_9979.jpg

Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar

Frá því 23. júní hefur verið myndlistarsýning við matjurtargarða bæjabúa á Krókeyri og í gömlu gróðrarstöðinni þar. Þar koma saman myndlistarmenn, listnemar og leikmenn. Sýnendur eru:

Arna G. Valsdóttir
Hlynur Hallsson og Krístín Þóra Kjartansdóttir (sameiginlegt verk)
Joris Rademaker
Guðrún Pálína Guðmundsdóttir
Ívar Hollanders og Victor Hollanders (sameiginlegt verk)
Sigrún Á. Héðinsdóttir
Þórarinn Blöndal

Þetta er í annað sinn sem þetta verkefni er haldið og eru allir sömu myndlistarmenn og síðast auk nýrra þátttakenda. Verkefnið var valið fyrir Íslands hönd á norrænu menningarhátíðina Nord Match í Helsinki haustið 2011. Verkefnið miðar að því að tengja saman list, ræktun matvæla og fræðslu.

img_7348.jpg

Viðburður með fræðslu og smökkun grænmetis verður sunnudaginn 26. ágúst kl. 15-17
við gömlu gróðrarstöðina á Krókeyri


Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, myndlistarmaður.
Talar um verkefnið, tildrög þess og um listaverkin sem þar eru.

Listnemarnir Victor og Ívar Hollanders fremja listgjörning í tengslum við myndverk sem þeir eiga á sýningunni.

Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir og áhugamanneskja um ræktun.
Talar um garðyrkju í víðara samhengi.

Kristín Kolbeinsdóttir, kennari og eigandi Silva-hráfæði Syðra-Laugalandi efra.
Talar um ræktun og möguelika á  að lifa af henni.

Jóhann Thorarensen, garðyrkjufræðingur hjá Akureyrarbæ.
Talar um hvað sameinar myndlist og matjurtir og um uppskeruna sem gestum er boðið að smakka.

Verkefnið er styrkt af Eyþingi og Afmælisnefnd Akureyrar vegna 150 ára afmælis bæjarins.
Verkefnisstjórar eru Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, myndlistarmaður  og Jóhann Thorarensen garðyrkjufræðingur hjá Akureyrarbæ.

img_9970.jpg


Nes auglýsir gestavinnustofur fyrir 2 íslenska listamenn - frí dvöl, styrkur vegna efniskostnaðar

skagastrond

KUL

Könnun umhverfisáhrifa á listsköpun

Skagaströnd

1. – 30. september 2012

 

KUL er þverfaglegt verkefni í listsköpun, í umsjón Nes listamiðstöðvar á Skagaströnd, sem haldið verður í september nk.. Verkefnið tengir saman íslenska og erlenda listamenn sem dvelja einn mánuð í listamiðstöðinni og því lýkur með hátíð, þar sem listamennirnir sýna hvernig Skagaströnd og nágrenni hefur áhrif á listsköpun þeirra.

 

KUL verkefnið fjallar um listsköpun og áhrif umhverfisins á hana. Markmið verkefnisins miðar að því að skapa afurð sem hægt er að vinna að á staðnum, afurð sem er hagnýt, afurð sem getur verið þverfagleg og sem örvar huga og hönd. KUL miðar að því að skapa tengsl milli listforma, þar sem við erum til staðar og virk. Verkefnið kannar samræðuna milli staðarins og tilverunnar, hvernig við erum mótuð af innri og ytri aðstæðum og hina síkviku og gagnvirku mótun umhverfis og sjálfsins.

Nes listamiðstöð auglýsir eftir tveimur íslenskum listamönnum, til að dvelja í listamiðstöðinni í september, sem eru tilbúnir til að taka þátt í KUL. Innifalin er frí dvöl í listamiðstöðinni og styrkur vegna efniskostnaðar, gegn framlagi listamannanna til verkefnisins.

Lokahátíð KUL verður á Skagaströnd 29. september, með listkynningum og matarviðburðum, listamannanna, matreiðslumanna á svæðinu og heimamanna.

Einn þáttur í KUL er matreiðsluverkefni sem Henry Fletcher, sérfræðingur í nýtingu vannýttra hráefna, stjórnar. Hann mun safna plöntum og sjávarfangi við strendur Skagastrandar og nágrennis og vinnur síðan með matreiðslumönnum á svæðinu að nýta hráefnin við að skapa nýjar mataruppskriftir og endurbæta gamlar. Þeir matreiðslumenn sem taka þátt í verkefninu eru Gunnar Sveinn Halldórsson í Kántrýbæ á Skagaströnd, Björn Þór Kristjánsson og Shijo Mathew í Pottinum Restaurant á Blönduósi og Jón Daníel Jónsson á Sauðárkróki.

KUL er hugmynd sem Tanja Geis, Henry Fletcher, Jacob Kasper og Andrea Cheatham Kasper áttu frumkvæði að. Verkefnið er í umsjón Melody Woodnutt, framkvæmdastjóra Nes listamiðstöðvar.

Nes listamiðstöð er staðsett á Skagaströnd og í ár dvelja þar yfir 100 listamenn frá fjölmörgum þjóðlöndum. Vaxtarsamningur Norðurlands vestra styrkir KUL verkefnið.

 

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 29. júlí 2012.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni:  http://neslist.is/

Netfang: Melody Woodnutt:  nes@neslist.is

Sími: Melody Woodnutt:  691 5554

Umsóknareyðublað:  http://neslist.is/application/call-for-artists/


Myndlistarsýning við matjurtargarða Akureyrarbæjar

img_7367.jpg

Laugardaginn 23. júní kl. 15-17 opnar myndlistarsýning við matjurtargarða bæjarins sem eru við gömlu gróðrarstöðina á Krókeyri í Innbænum, (ofan við Iðnaðar- og Mótorhjólasöfnin).
Sýningin er hluti verkefnis Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur myndlistarmanns og Jóhanns Thorarinsens garðyrkjufræðings, sem nefnist Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar.

Verkefnið hófst 2010 og var í kjölfarið valið til norrænu menningarráðstefnunnar Nordmatch í Helsinki fyrir Íslands hönd. Þá tóku fimm myndlistarmenn þátt í sýningunni og einn félags- og garðyrkjufræðingur. Í ár hefur sýningin stækkað og bætt við sig leikmönnum og listnemum og eru þeir samtals ellefu. Þátttakendur í sýningunni eru Arna G. Valsdóttir, Hlynur Hallsson, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Þórarinn Blöndal, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, Joris Rademaker, Sigrún Héðinsdóttir, Júlía Runólfsdóttir, Hugi Hlynsson, Viktor Hollanders og Ívar Hollanders.

Afmælisnefnd Akureyrar vegna 150 ára afmælis bæjarins og Eyþing styrktu verkefnið. 26. ágúst verður svo uppskeruhátíðin þegar menn geta gætt sér á uppskerunni, ásamt því að hlýða á fyrirlestra um myndlist, gróður og ræktun.
Allir eru velkomnir.


Bekkirnir í bænum opnar í Sal Myndlistarfélagsins

image-3.jpg


Myndlistaskólinn á Akureyri efnir til sýningar í sal Myndlistarfélagsins í Kaupvangsstræti 10, næstkomandi laugardag 5. mars 2012 kl. 14:00.  Sýndar verða tillögur sem nemendur í sérnámsdeildum skólans hafa unnið á síðustu vikum í áfanga undir handleiðslu Árna Árnasonar. Verkefnið fólst í því að laga og bæta umhverfi setbekkjanna í bænum.  Um er að ræða þrívítt verk og eða umgjörð um bekkina ásamt hugsanlegu nýju vali á staðsetningu þeirra. Verkefnið var unnið í samráði við Akureyrarbæ.

Sýningin verður opin milli klukkan 14:00-17:00 tvær helgar og lýkur 13. maí.


Ljóðahátíð í Verksmiðjunni á Hjalteyri, Grundarskógi og Populus tremula

lj_c3_b3dah_c3_a1t_c3_addin-2011-web2.jpg

Síðustu helgina í september verður haldin Ljóðahátíð í Eyjafirði.
Aðstandendur hennar eru Verksmiðjan á Hjalteyri, Populus tremula og
Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Hin árlega Ljóðaganga í Eyfirskum skógi verður að þessu sinni hluti
hátíðarinnar og nú haldin í Grundarskógi í Eyjafirði.

Dagskrá verður þríþætt eins og fram kemur hér að neðan. Hópur góðskálda
heimsækir Eyjafjörð og les ljóð sín fyrir heimamenn og gesti.

Fram munu koma m.a. eftirtalin skáld:

Guðbrandur Siglaugsson
Anton Helgi Jónsson
Kristín Svava Tómasdóttir
Bjarni Gunnarsson
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
Ísak Harðarson

Fyrst verður ljóðakvöld í Verksmðjunni á Hjalteyri kl. 21.00 föstudaginn 23. sept.

Síðan Ljóðaganga Grundarskógi í Eyjafirði kl. 14.00 laugardaginn 24. sept.

Að lokum ljóðakvöld í Populus tremula sama kvöld kl. 21.00.

Aðgangur verður ókeypis og öllum heimill. Malpokar leyfðir.

Ljóðahátíðin er styrkt sérstaklega af Menningarráði Eyþings, Uppheimum og
Amtsbókasafninu á Akureyri.

 


Reynsla er Þekking í Verksmiðjunni á Hjalteyri

george_d.jpg


Reynsla er Þekking
George Hollanders / Sharka Mrnakova / Birgit Ehrhardt
10. - 25. september 2011

Opnun laugardaginn 10. september kl. 14
Opið laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og eftir samkomulagi 892 6804

https://www.facebook.com/event.php?eid=153838708036850


Sýningin Reynsla er Þekking er lífandi og listræn framsetning sem beinir athygli að eko- og úti kennslu í leikskólum, náttúrulegum leikgörðum og áhrifum þeirra á þroska fólks - bæði andlegan og líkamlegan. Þetta er einskonar hugleiðsla um óhefðbundnar kennsluaðferðir sem byggja á "experiential learning".

Miðpunkturinn er manneskjan, skilningarvit hennar, tengslin við náttúruna, náttúrulögmál, staðbundnar atvinnugreinar, auðlindir, menningararfleifðin, samfélagið og sjalfbærir lífnaðarhættir.
Sýningin mun standa frá 10. til 25. September 2011 í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Náttúrulegir leikvellir er gerðir úr náttúrulegu eða endurunnu hráefni eða hlutum. Heildrænt umhverfi sem þessar leikgarðar mynda, miðar að því að örva skilningarvit barnanna og fólks og færa þau nær náttúrunni og samfélaginu sem þau búa í.

Sýningin er margþætt og er samstarfsverkefni Sharka Mrnakova, George Hollanders og Birgit Ehrhardt.

Meðal þess sem verður sýnt er:
Afrakstur af þróunarverkefni um útikennslu sem var unnið í sumar í samstarfi við leikskólann Iðavelli á Akureyri. Þar voru elstu börnin úti alla daga frá júni og fram í miðjan júli á nærliggjandi leikvelli og unnu í anda úti leikskóla. Unnið var með náttúruleg og endurunnin hráefni, menningararfleifðinna s.s. sögur og staðbundna starfshætti, skilningarvitin, náttúrulögmál og element svo eitthvað sé nefnt. Einnig var unnið með órjúfanleg tengsl manneskjunnar og náttúrunnar með því að leggja áhersla á sjálfbæra lifnaðarhætti, endurvinnslu og náttúruvernd í gegnum daglegt starf eða upplifun og fræðslu.

Sýnt verður bland af verkefnum barnanna en einnig gögnum sem leikskólakennara söfnuðu saman s.s. upptökur (hljóð og myndbönd), ljósmyndir og fleira.

Einnig verða til sýnis hönnunarferli og uppbygging í samvinnu við foreldra frá náttúralegum leikgarði sem varð til við Krílakot í sumar til að gefa innsýn í hugmyndfræði á bak við þessa tegund af leikgörðum.  
Til sýnis verða aðferðir og óhefbundnar leiðir til að endurnýta sorp eða úrgang við kennslu í leikskólum eða fræðsluaðferðir.

Ýmsar innsetningar leika sér að skilningarvitum gesta og gangandi og eru gagnvirk til að gefa dýpri innsýn í eigin reynsluheim og hugmyndafræðina á bak við náttúrulega leikgarða og "experiential learning". Einnig eru til staðar gagnvirkt vinnusvæði þar sem gestir og gangandi geta tekið þátt í og skapað sína eigin hugarsmíð.

Á sýningunni er einnig ítarleg kynning um eko- eða úti leikskóla og náttúrulega leikgarða.

Menningarráð Eyþings er stuðningsaðili sýningarinnar.

George Hollanders & Sharka Mrnakova
Nánari upplýsingar veitir George i síma 892 6804




Verksmiðjan á Hjalteyri
http://www.verksmidjan.blogspot.com
https://www.facebook.com/pages/Verksmi%C3%B0jan-%C3%A1-Hjalteyri/92671772828
https://www.facebook.com/event.php?eid=153838708036850


george_g.jpg


Bókin MYNDIR - BILDER - PICTURES komin út

fors_myndir.jpg



MYNDIR - BILDER - PICTURES er 33 mynda röð þar sem Hlynur Hallsson setti saman ljósmyndir og stutta texta á íslensku, þýsku og ensku. Hér eru þær allar samankomnar í einni bók ásamt textum eftir þrjá höfunda auk viðtals, ritaskrá og lista yfir þær sýningar þar sem verk úr myndröðinni hafa verið sýnd.

Claudia Rahn listfræðingur í Zürich skrifar um frásagnir og myndir Hlyns. Friðrik Haukur Hallsson félags- og menningarfræðingur í Bielefeld skrifar um tengsl listamannsins og heimspekingsins út frá kenningum franska heimspekingsins Maurice Merleau-Ponty. Raimar Stange sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og gagnrýnandi í (Austur-) Berlín skrifar um textaverk Hlyns og Kristín Þóra Kjartansdóttir tekur viðtal við Hlyn.


Úr texta Claudiu Rahn: Hlynur Hallsson – On the road

"Hér er um að ræða ljósmyndir ásamt textum á þremur tungumálum. Ljósmyndirnar og textarnir mynda "vegamyndir", sem eru samsettar úr reynslu og minningum Hlyns. Í heild virkar þetta eins og eins konar dagbók. Myndum úr fjölskyldulífinu er stillt upp ásamt myndum af vinum sem og ókunnugu fólki, af landslagi, myndum úr fjölþjóðlegum listaheiminum. Ljósmyndirnar skapa saman skrautlega heild sem gefur einnig innsýn inn í líf Hlyns. Þessi heild virðist í fyrstu litlaus og þýðingarlítil en í samhengi við textanna verður áhrifamáttur þeirra ótrúlegur."


Úr texta Raimars Stange: Make words not war!

"Það var á seinni hluta tíunda áratugarins sem Hlynur Hallsson sendi mér póstkort frá ýmsum heimshornum. Þar skrifaði hann á íslensku þótt hann vissi mætavel að ég hef alls engan skilning á því tungumáli, en á þeim tíma var skilningsleysið - það að skilja eitthvað ekki – og fagurfræðileg gæði þess aðalmálið í hinni fagurfræðilegu heildarsýn. Slíkt er jú alveg í anda Jóhanns Heinrich Pestallozi, svissneska menntafrömuðarins. Pestallozi kom einmitt með þá hugmynd að börn ættu að umgangast framandi tungumál til þess að þeim yrði ljóst að maður getur ekki skilið allt, að skilningur manns er takmarkaður."


Úr texta Friðriks Hauks Hallssonar: Heimspekingurinn og listamaðurinn

"Við fyrstu sýn virðast skynsvið okkar skarast á tilviljunarkenndan hátt. Strangt tekið eru hreyfingar á milli skynheimanna skýrar, þannig að úr myndefni verður til listaverk. Skynjunarleg tilurð fullgerðs listaverks krefst augljóslega allra þriggja skynheimanna. Er auðveldast að lýsa tengsl þeirra og skilgreina feril skynjunarinnar þeirra á milli með viðeigandi sýni- eða myndefni. Ljósmynda-texta-verk Hlyns Hallssonar bjóða hér uppá sérstaklega góðan möguleika til að skilja þennan feril frá myndefni til listaverks. Hlynur notast við margmiðlunartækni (ljósmyndir, myndbönd o.s.frv.), sem hefur í auknum mæli haslað sér völl innan myndlistarinnar, en hann innlimar ávallt texta í myndverk sín með ákveðnum hætti, þannig að textinn verður að órjúfanlegum hluta hvers verks um sig."


Úr viðtali Kristínar Þóru Kjartansdóttur

"Smáir hlutir, minningabrot og jafnvel eitthvað jafn ómerkilegt og rykhringur í grasi felast í myndefni þínu. Mér finnst margt af þessu virka brothætt, viðkvæmt og forgengilegt.

Já, þannig er lífið og við og úr því þú segir það þá er náttúran einnig brothætt, viðkvæm og forgengileg. Og smáu hlutirnir í lífinu eru einmitt það sem gerir það þess virði. Það sem er sem gefið og svo sjálfsagt, það er einmitt svo mikilvægt. Maður áttar sig bara oft ekki á því fyrr en svo löngu seinna eða þegar einhver annar bendir manni á það. Og stundum er það þá of seint en sem betur fer ekki alltaf. Þetta er kryddið sem er svo mikilvlægt og nauðsynlegt. Þannig er einhver stund sem maður upplifir ef til vill daglega samt einstök en einnig hlutir sem manni finnst ekkert merkilegir þegar þeir eiga sér stað en eru ómetanlegir í minningunni og það er galdurinn að geta bent á þessa hluti og þessar upplifanir sem allir upplifa einhvertímann og miklu oftar en við áttum okkur á. Og þetta hefur eitthvað með okkur sjálf að gera og þjóðfélagið og hraðann og það að gefa sér tíma til að uppgötva svona hluti. Ef það tekst þá er mikið áunnið."

Allir textar í bókinni eru á íslensku, þýsku og ensku.

Forlag höfundanna gefur bókina út og Uppheimar sjá um dreifingu á Íslandi og fæst bókin í öllum helstu bókaverslunum og einnig á Kjarvalsstöðum, í Hafnarhúsinu, hjá Útúrdúr og hjá Flóru á Akureyri.


HLYNUR HALLSSON
MYNDIR - BILDER - PICTURES

68 bls.
162 x 246 mm
Bókarhönnun: Ólafur Númason og Hlynur Hallsson
Þýðingar á íslensku, þýsku og ensku: Lois Feurle, Kristín Kjartansdóttir, Bjarnheiður Kristinsdóttir, Wolfgang Sahr og Ómar Kristinsson
Prófarkarlestur: Pétur Halldórsson, Inga Lín Hallsson og James Carl
Styrktaraðilar: Myndstef og Akureyrarstofa
Útgefandi: forlag höfundanna
Dreifing: Uppheimar
Prentað hjá Odda
ISBN 978-9979-9672-1-7

Einnig á https://www.facebook.com/pages/Myndir-Bilder-Pictures/201008189949681

cover_myndir.jpg


Listvísindamiðja barna í Verksmiðjunni á Hjalteyri

kedjuverkun.jpg

Keðjuverkun  - Verksmiðjunni á Hjalteyri

Helgina 9. og 10. júlí stendur Verksmiðjan á Hjalteyri fyrir vísinda/listasmiðju fyrir börn á öllum aldri frá kl. 13 - 17, báða dagana.  Boðið verður upp á verkefni sem byggjast á keðjuverkun. Úr tilfallandi efnivið á staðnum og öðru verða byggðar risastórar brautir fyrir kúlur og bolta sem koma af stað keðjuverkun annarra hluta.  
Markmiðið er að börn og foreldrar læri saman á skemmtilegan hátt um orsök og afleiðingu,  tengsl hraða, halla og stærðar á skemmtilegan og skapandi hátt.  Um hönnun, jafnvægi, fagurfræði og fleira.  Keðjuverkun er viðfangsefni fjölda listamanna. Hjá sumum rekast orð á orð, örðum hlutur á hlut.  Meðal merkra listamanna sem skoðað hafa keðjuverkun í verkum sínum eru þeir Peter Fischli og David Weiss.  Smiðjan er ætluð allri fjölskyldunni,  en börn yngri en átta ára verða að vera í fylgd með fullorðnum.
Smiðjustjóri er Kristín Dýrfjörð lektor við Háskólann á Akureyri og leikskólakennari. Hún hefur unnið með börnum og fullorðnum í vísindasmiðjum í mörg ár og þróað þá hugmyndafræði. Síðasta verkefni hennar snýr að því að vinna með kúlurennibrautir í leikskólanum Aðalþingi í Kópavogi. Tengill námskeiðsins og starfsmaður Verksmiðjunnar á Hjalteyri, er Arna Valsdóttir, myndlistarkona, þær Arna og Kristín hafa unnið lengi saman að vísindasmiðjuverkefnum. Með þeim verður Sandra  Lilja Parvainen sem er í myndlistarnámi í Finnlandi.

Nánari upplýsingar eru hægt að fá hjá Örnu Valsdóttur, í síma 8659755 og hjá Kristínu Dýrfjörð í síma 8974246 og á feisbókarsíðu viðburðarins http://www.facebook.com/event.php?eid=159930537413278

Nánari upplýsingar
Hér má sjá  börn í Aðalþingi gera fyrstu tilraun með útikúlurennibauti   http://www.youtube.com/user/adalthing1
Og hér má sjá fyrstu tilraunir með innibrautir. http://www.youtube.com/user/adalthing1#p/u/7/ohPtt8YLWCs
Á síðu Aðalþings má finna umfjöllun um tengsl lista og leikskólastarfs. http://www.adalthing.is/index.php/stefna/tengsl-lista-og-leiksk-lastarfs/

verksmi_jan.jpg


Arnþrúður Dagsdóttir opnar sýningu á Kaffi Karólínu

brei_a-.jpg

 

Arnþrúður Dagsdóttir

 

Breiða

 

07.08.10 - 03.09.10

 

Café Karólína // Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755

 

 

Breiða, sýning Arnþrúðar Dagsdóttur verður opnuð laugardaginn 7.ágúst kl. 15.00 á Kaffi Karólínu. Sýningin stendur til 3.september. Allir eru velkomnir.

 

Arnþrúður Dagsdóttir lauk mastersnámi í myndlist frá Sandberg Instituut í Amsterdam haustið 2007. Hún útskrifaðist 2003 frá myndlistarskólanum AKI, Academie voor Beeldende Kunst en Vormgeving, Enschede, Hollandi. Algeng þemu í verkum hennar eru samskipti manns við náttúruna og náttúruna í sér, sjálfsmyndin, kynja- og kynímyndir.

 

Breiða samanstendur af ljósmyndum. Þær spyrja spurninga um mörk hins almenna og hins einstaka og um tímann í efnislegum hlutum. Í ljósmyndum og fötum er falinn ákveðinn tími, stund sem aldrei kemur aftur en við reynum að klófesta. Föt eru hluti af persónusköpun mannsins, næst skinninu, náttúrunni. Frá mörkum hins almenna og hins einstaka er stutt í sviðsetningar og mögulegar atburðarásir sem efniviður myndanna gæti/gæti ekki hafa tekið þátt í. Myndin sjálf, framsetningin, ákvarðast af einhverju leiti af þessu, en ekki síður af þeirri spennu og fegurð sem verður til þegar náttúru og manngerðum hlutum er stefnt saman.

 

Nánari upplýsingar veitir Arnþrúður í síma 849 2804 eða tölvupósti: dittadags@hotmail.com

 

Sýningin stendur til föstudagsins 3. september og allir eru velkomnir.

 

Café Karólína er opin frá kl. 17 og fram eftir nóttu alla daga nema laugardaga þá er opið frá kl. 15.

 

Næstu sýningar á Café Karólínu:

04.09.10 - 01.10.10                  Margrét Buhl                  

06.11.10 - 03.12.10                  Guðrún Hadda Bjarnadóttir

 


Innlyksa, sýning Hlífar Ásgrímsdóttur verður opnuð laugardaginn 15. maí kl. 14.00 í BOXinu, stóra sýningarsal Myndlistarfélagsins

myndir_f_akureyri_002.jpg

 

Sýningin Innlyksa opnar  15. maí og lýkur 6. júní. Hún er opin um helgar og Hvítasunnuhelgina frá kl.14.00 - 17.00.  Einnig opið fyrstu vikuna eftir opnun alla virka daga frá kl.16.00 - 18.00.  Allir hjartanlega velkomnir og aðgangur ókeypis.

 

Síðustu ár hefur Hlíf Ásgrímsdóttir sýnt verk sem taka mið af sýningarými og umhverfi sýningastaða. Hlíf hefur kallað þær sýningar, Innivera, Innilokun, Innihorn, Innskot, Innviðir. Myndir teknar af sýningarými, málaðar eftir ljósmyndum en hversdagslegum hlutum bætt inn í rýmið, því hlutir yfirgefnir í rými minna ávalt á tilveru fólks. Á þessari sýningu, Innlyksa, hefur Hlíf sett inn í sýningarýmið og myndirnar rúlluplast sem alstaðar er hægt að finna í náttúrunni. Þá eru nokkrar vatnslitaðar ljósmyndir sem hún tók í Brekkunni á Akureyri þar sem greina má plast í þúfum og grasi. Það getur verið erfitt að koma auga á plastið því með tímanum veðrast það og tekur á sig liti sem sjá má í náttúrunni í kring. Í stóru vatnslitaverkunum lætur Hlíf plast verða innlyksa í ímynduðu rými. Innlyksa er skírskotun í að stöðvast eða teppast einhvers staðar. Engan langar til að við sem þjóð verðum innlyksa í brostnu samfélagi eða innilokuð af skömm og í ráðaleysi.

 

Hlíf Ásgrímsdóttir stundaði nám í Myndlista og handíðaskóla Íslands 1987-1991 og framhaldsnám við Listaakademíuna í Helsinki Finnlandi 1994-1996.

 

Hlíf Ásgrímsdóttir hefur haldið fjórtán einkasýningar og tekið þátt í þrjátíu samsýningum bæði hér heima og erlendis. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband