Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
18.4.2008 | 15:48
Styrktarsjóður Guðmundu Andrésdóttur auglýsir eftir umsóknum
Styrktarsjóður Guðmundu Andrésdóttur auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á árinu 2008
Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins nr. 9321 er markmið hans ,,að styrkja og hvetja unga og efnilega myndlistarmenn til náms en stofnfé sjóðsins er arfur samkvæmt erfðaskrá Guðmundu Andrésdóttur listmálara sem lést árið 2001. Ráðstöfunarfé sjóðsins eru raunvextir af höfuðstól og verður í ár ráðstafað 7.5 milljónum króna. Stjórn sjóðsins ákveður hversu margir styrkir verða veittir.
Sjóðurinn styrkir myndlistarmenn til framhaldsmenntunar og er æskilegt að umsækjendur hafi lokið BA prófi í myndlist eða sambærilegu námi. Hægt er að sækja um styrk til lengri eða skemmri námsdvalar erlendis, þó aldrei skemur en til sex mánaða. Umsókn skal fylgja ítarleg greinargerð um fyrirhugað nám ásamt meðmælabréfi og upplýsingum um fyrra nám og starfsferil.
Stefnt er að úthlutun eigi síðar en 13. júní næstkomandi.
Umsóknarfrestur er til og með 9. maí 2008. Umsóknir merktar styrktarsjóðnum skulu sendar:
Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma Listasafnsins 515 9600.
Stjórn Styrktarsjóðs Guðmundu Andrésdóttur
12.3.2008 | 21:17
Bæ bæ Ísland opnar í Listasafninu á Akureyri á laugardag
LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI KYNNIR
Bæ bæ Ísland
Uppgjör við gamalt konsept
Laugardaginn 15. mars nk. verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýningin BÆ BÆ ÍSLAND sem er átaksverkefni tuttugu og þriggja myndlistamanna og fjölmargra annarra sem vilja ræða landsins gagn og nauðsynjar með einum eða öðrum hætti. Höfundur verkefnisins og sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni í Listasafninu eru Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Erling Þ. V. Klingenberg, Hallgrímur Helgason, Hannes Lárusson, Hlynur Hallsson, Inga Svala Þórðardóttir & Wu Shan Zhuan, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Libia Pérez de Siles de Castro & Ólafur Árni Ólafsson, Magnús Sigurðarson, Ólafur Sveinn Gíslason, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Rúrí, Steingrímur Eyfjörð, Unnar Örn Auðarson & Huginn Þór Arason, Þorvaldur Þorsteinsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir.
Sem sjá má er hér smalað saman í öflugan her fólks sem er allt annað en skoðanalaust um verkefnið Ísland og hvernig því hefur verið umturnað á síðustu tveimur áratugum. Því Íslandi hefur verið umbylt og í þeirri byltingu eru lykilorðin einkavæðing, kvótakerfi, misskipting, útrás, græðgi, þrælsótti, innflytjendur og stóriðja. Allt gott og blessað en afleiðingin er að nú má segja að landið byggi þrjár þjóðir, þ.e. milljarðamæringar, íslenskt alþýðufólk og innflytjendur.
Heiti verkefnisins, Bæ bæ Ísland, vísar í fyrsta lagi til kveðjuhófs eða útfarar um 19. og 20. aldar hugmyndarinnar um Ísland. Það sem í gær var unga Ísland er nú tákn hins liðna. Bless bless (hin kristilega blessun) víkur fyrir hinu ennþá óformlegra bæ bæ og vitnar um leið um það hvernig íslenskan er farin á límingunum. Í öðru lagi hljómar bæ eins og sögnin að kaupa (buy) á ensku og verður því til eins konar undiráróður: Kaupum kaupum Ísland! Bæ bæ Ísland er þannig uppgjör við hugmyndina um tunguna sem upphaf og endi sögulegrar tilvistar þjóðarinnar, sem og möguleika hennar til að lifa af menningarlega útjöfnun hnattvæðingarinnar.
Verkefninu Bæ bæ Ísland tengist fólk sem er óhrætt við að segja meiningu sína í salarkynnum tjáningarfrelsisins. Þetta er fólk sem getur skilgreint sig á báðum vígstöðvum, í hinu gamla sem og hinu nýja, staðbundið og heimsvætt, hvort heldur sem er á sjó eða landi, á leikskólum eða í bönkum. Alvarleiki, sem dottinn er úr tísku, er hér settur á oddinn.
Bæ bæ Ísland er einnig uppgjör við atlögu auðmagnsins að landi þjóðarinnar. Ýmsir nútímavæddir víkingahöfðingjar virðast hafa sagt bæ bæ við landið í áþreifanlegri merkingu og fjarstýra nú að miklu leyti efnahagsmálum þjóðarskútunnar utan úr heimi líkt og Danakonungur gerði á sínum tíma. En þegar öllu er á botninn hvolft var það samt ekki kana- eða kommagull sem asninn bar yfir borgarmúrana. Gullið kom úr hirslum okkar sjálfra. Sýningin er eins konar hugmyndafræðileg úför og kveðjuhóf í formi myndlistarsýningar.
Á opnunardegi sýningarinnar kl. 14 verður frumflutt tónverkið Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands í Ketishúsinu á Akureyri, en verkið var unnið í samstarfi myndlistardúósins Libiu Castro og Ólafs Ólafsson og tónskáldsins Karólínu Eiríksdóttur. Libia og Ólafur fóru þess á leit við Karólínu að hún semdi tónverk þar sem allar 81 greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Verkið er skrifað fyrir tvo einsöngvara, píanó, kontrabassa og blandaðan kór og flytjendur verksins eru: Ingibjörg Guðjónsdóttir (sópran), Bergþór Pálsson (baritón) Tinna Þorsteinsdóttir (píanóleikari), Gunnlaugur Torfi Stefánsson (kontrabassaleikari) og kammerkórinn Hymnódía frá Akureyri undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar.
Föstudaginn 14. mars kl. 15 verður haldið opið málþing um konseptið Ísland í Ketilhúsinu. Ágúst Þór Árnason, Þorvaldur Þorsteinsson og Ósk Vilhjálmsdóttir halda framsöguerindi, en fundarstjóri er Birgir Guðmundsson lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.
Unnið er að því að gefa út viðamikla bók síðar á árinu þar sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga gera upp við gamla konseptið Ísland og fyrirhugað er að halda ráðstefnu undir sama nafni. Bókin er hugsuð sem safnrit og jafnframt nokkurs konar leiðarvísir. Í henni verður m.a. tekið á bankakerfinu, þjóðarímyndinni, útlendingum á Íslandi, fjölmiðlum, stóriðju- og náttúruverndarsjónarmiðum og siðferði í stjórnmálum, auk þess sem þar verður einnig að finna umfjöllun um framlag listamannanna á sýningunni og myndir af verkum þeirra.
Ítarlegar upplýsingar um listamennina og inntak sýningarinnar er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is. Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður safnsins, Hannes Sigurðsson, í síma 899-3386 (netfang: hannes@art.is).
Þess má að lokum geta að ekkert fyrirtæki treysti sér til að styrkja verkefnið, sem segir ef til vill sína sögu. Sýningunni lýkur 11. maí og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.
25.2.2008 | 22:51
Muggur og Ferðasjóður Muggs auglýsa eftir umsóknum
Auglýst er eftir umsóknum til dvalar erlendis vegna:
* myndlistarsýningar
* vinnustofudvalar / þátttöku í verkstæði
* annars myndlistarverkefnis
Sömu skilyrði gilda um Ferðasjóð Muggs og Mugg, auk þess eru skilyrði um að verkefnið sé sýnilegt og að það geti að mati sjóðsstjórnar styrkt ímynd Reykjavíkur sem uppsprettu fyrir öflugt og framsækið myndlistarlíf.
Hér með er auglýst eftir umsóknum vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu
1. apríl 2008 til 30. september 2008 Úthlutun fer fram eftir miðjan mars 2008.
Til að geta fengið úthlutun úr Muggi og/eða Ferðasjóði Muggs þarf umsækjandi að vera fullgildur félagi í SÍM og leggja fram tilskilin gögn er staðfesti boð um þátttöku í myndlistarviðburði eða úthlutun á aðstöðu til vinnu við myndlist. Ekki er veitt fé vegna dvalar í vinnustofum þegar fullir dvalarstyrkir fylgja úthlutun.
Vinsamlega athugið að dvalarstyrkir og ferðastyrkir eru eingöngu veittir til einstaklinga. Ferðastyrkir eru veittir í formi flugmiða, ekki peninga, ekki er hægt að endurgreiða keypta miða.
Umsóknum skal fylgja ítarleg og greinargóð lýsing á verkefninu, upplýsingar um sýningu, sýningarstað, vinnustofusetur, verkstæði, ráðstefnu eða annað það sem við á hverju sinni. Einnig skal fylgja staðfesting ábyrgðarmanns verkefnisins í því landi sem það fer fram í, þ.e. sýningarstjóra, safnstjóra, galleríeiganda, forstöðumanns vinnustofuseturs, verkstæðis eða annars, allt eftir eðli verkefnisins. Dagsetningar verkefnisins verða að koma fram.
Styrkþegar undirgangast skuldbindingar gagnvart sjóðunum samkvæmt sérstökum samningum sem gerðir verða í kjölfar úthlutunar og kveður m.a. á um að styrkþegum beri að skila stuttri greinargerð um notkun styrksins.
Mikilvægt er að hafa umsóknina vandaða, skýra og hnitmiðaða. Lesa reglur og leiðbeiningar vel. Sækja þarf um á sér eyðublaði fyrir hvorn sjóð.
Umsóknareyðublöð, stofnskrár beggja sjóðanna og reglur um úthlutun er að finna á heimasíðu SÍM. Nánari upplýsingar um Mugg eru einnig veittar á skrifstofu SÍM, sim(hjá)simnet.is, s. 551 1346
Umsóknum skal skilað til skrifstofu SÍM fyrir 7. mars 2008, póststimpill gildir.
Úthlutað verður úr báðum sjóðunum samtímis.
7.12.2007 | 09:09
Umsóknir um styrki CIA til 10. des. 2007
Kæru myndlistarmenn
Síðasti dagur á árinu 2007 til að senda inn umsóknir til Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar cia.is, vegna styrkja til verkefna með skemmri fyrirvara er, næstkomandi mánudagur, 10. desember.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu miðstöðvarinnar:
http://cia.is/styrkir/index.htm
Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar
Hafnarstræti 16
101 Reykjavík
tel: +354-562-7262
fax:+354-562-6656
info(hjá)cia.is
www.cia.is
www.artnews.is
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)