Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Angela Rawlings með fyrirlestur í Ketilhúsinu

Ketilhusid_frettatilkynning3

Þriðjudaginn 30. september kl. 17 heldur Angela Rawlings fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Wild Slumber for Industrial Ecologists (Villtar svefnfarir iðnaðarvistfræðinga). Þar mun hún meðal annars fjalla um samnefnda sýningu sem nú stendur yfir í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Sýningin er árangur af samstarfi myndlistarmanna, rithöfunda og tónlistarmanna sem dvalið hafa í alþjóðlegri gestavinnustofu á Hjalteyri undanfarið. Ásamt Rawlings eru þau Elsa Lefebvre (Frakkland/Belgía), Gústav Geir Bollason (Ísland), Maja Jantar (Belgía) og Philip Vormwald (Frakkland/Þýskaland) þátttakendur í sýningunni. Eitt umfjöllunarefni hennar er iðnaðarvistfræði og rannsóknir á flæði efnis og orku í iðnaðarkerfum. Iðnaðarvistfræðingar rannsaka þróun á sjálfbærum og lokuðum kerfum þar sem úrgangur eins iðnaðar getur verið auðlind annars. Fyrirlesturinn fer fram á ensku en hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Fyrirlesturinn er sá fyrsti í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Ketilhúsinu kl. 17 í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal fyrirlesara vetrarins eru Hlynur Helgason listfræðingur, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sýningarstjóri og myndlistarmennirnir Aðalsteinn Þórsson, Arna Valsdóttir, Stefán Boulter og Guðmundur Ármann Sigurjónsson.

http://listasafn.akureyri.is

https://www.facebook.com/events/1482605935344754/


Íris Ólöf Sigurjónsdóttir í listamannsspjalli í Flóru

dros5

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir
Drósir og draumar
24. nóvember  2012 - 12. janúar 2013
Sýningarspjall fimmtudaginn 10. janúar kl. 20-21.
Sýningarlok laugardaginn 12. janúar
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Fimmtudagskvöldið 10. janúar kl. 20-21 verður Íris Ólöf Sigurjónsdóttir í listamannsspjalli í Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri og allir eru velkomnir.

Nú eru einnig síðustu forvöð að sjá sýningu Írisar sem nefnist „Drósir og draumar” í Flóru. Hún sýnir textílverk og skart úr hráefni úr ýmsum áttum sem lifað hefur tímana tvenna og þrenna. Gamlir efnisbútar, perlur og prjál  eru efniviður nýrra drauma og drósir koma við sögu.

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir er textílhönnuður og textílforvörður að mennt. Menntuð í Osló og London. Hún er safnstjóri  Byggðasafnsins á Dalvík og samfara safnastarfinu vinnur hún að textílhönnun á vinnustofu sinni í Svarfaðardal þar sem hún hefur búið sl. 10 ár. Íris Ólöf hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum s.s hjá Handverki og Hönnun en sýningin í Flóru  er þriðja einkasýning Írisar.

Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til föstudaga kl. 11-13 og 16-18 og laugardaga kl. 13-16 og stendur til laugardagsins 13. janúar 2013.
Nánar um sýninguna á http://www.mynd.blog.is/blog/mynd/entry/1269247

Nánari upplýsingar veitir Íris Ólöf í síma 892 1497 og Kristín í síma 661 0168.

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.


Málþing um list í dagsins önn í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

althy_769_uhu_769_si


Alþýðuhúsið á Siglufirði
Laugardaginn 6. okt. 2012 kl. 14.00 - 17.00

Málþing um list í dagsins önn, eiga listir erindi við þig?
Málþingið er ætlað almenningi og öllu áhugafólki um listir.

Kl. 14.00   Örligur Kristfinnsson myndlistamaður / forstöðumaður Síldarminjasafnsins á Siglufirði.

Kl. 14.15 Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands.

Hver er galdur listarinnar?

Kl. 14.45 Kristín Þóra Kjartansdóttir félagsfræðingur / framkvæmdastjóri.

Sambúð með myndlist.

Kl. 15.00  Kaffihlé

Kl. 15.15  Þórarinn Hannesson Tónlistamaður / forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands.

“Þorpið fer með þér alla leið“

kl. 15.30 Þórgnýr Dýrfjörð   heimspekingur / framkvæmdastjóri Akureyrarstofu.

Hver fann upp Björk?

kl. 15.45  Almennar umræður og fyrirspurnir.



Allar nánari upplýsingar hjá Aðalheiði í síma 865-5091
Aðgangur ókeypis
www.freyjulundur.is

Eyþing, Fiskbúð Siglufjarðar, Sparisjóður Siglufjarðar, Fjallabyggð eru styrktaraðilar.


Umfjöllun umsýninguna Glóbal - lókal í Listasafninu á Akureyri

img_2846.jpg

Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri

Listumfjöllun

Glóbal - lókal í Listasafninu á Akureyri (Sjónlistamiðstöðin).

Í listasafninu stendur nú yfir samsýningin Glóbal-lókal í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. Sýningarstjóri er Dr. Hlynur Helgason. Sex listamenn sem á einn eða annan hátt tengjast Akureyri deila með sér rými safnsins. Listamennirnir hafa allir einhver tengsl við erlendan listheim gegnum búsetu, nám eða sýningahald erlendis.

Hér er fjallað um sýninguna með augum fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri sem er í nánast daglegum tengslum við sýninguna og marga af gestum hennar. Fellur þessi umfjöllun frekar undir listfræðslu fyrir almenning frekar en að um hefðbundna listgagnrýni sé að ræða. Hér verður hvorki vitnað í ítarlegan texta Dr. Hlyns Helgasonar, sem finna má á heimasíðu Sjónlistamiðstöðarinnar, né í listgagnrýni Þóroddar Bjarnasonar, sem birtist í Fréttablaðinu. Hvorutveggja á að vera sýnilegt á www.sjonlistamidstodin.is auk Sjónpípunnar sem er miðill stofnunarinnar sjálfrar.

Samruni - jafnvægi

Eftir að hafa unnið í safninu í fleiri vikur með sýningunni Glóbal-lókal eru þau hugtök sem fyrst koma upp í hugann samruni og jafnvægi. Jafnvægi er helst fólgið í valinu á listamönnunum og samruni í því hvernig verkin falla saman og á stundum verða að einu verki. Þar ber helst að nefna tónverk Baldvins Ringsted og söngvídíóverk Örnu Valsdóttur sem verður sem eitt verk við innganginn í miðsalinn. Þess ber að geta að það er vægast sagt þreytandi að hlusta á hávaða frá listaverkum á sýningum fyrir þá sem sitja yfir í fjóra tíma samfellt á dag en í þessu tilviki sleppur það nokkuð vel vegna þess hve verkin eru vönduð og falla vel saman.


Blámi norðursins

Sjálf sýningin hefst raunar með tvíræðum texta Hlyns Hallssonar utan á safninu við brunastigann en þar hefur hann krotað NEYÐARINNGANGUR. Mjög skilja menn þetta misjafnlega eins og sennilega er ætlun listamannsins.
Við safnaleiðsögn er best að byrja við þennan umrædda inngang að innanverðu og horfa yfir Austursalinn og yfir í Miðsalinn. Blái liturinn er yfirgnæfandi í verkunum sem sýnileg eru frá þessu sjónarhorni og tengir hann þau saman í þétta heild og vísar kannski ómeðvitað í norðrið, áttina til Norðurpólsins.
Flugferð Örnu í videoverki hennar þar sem fingur hennar reyna að snerta skýin og himininn og blár veggur Hlyns með hvítu blöðunum sem öll vísa til staða í bænum sem áhorfandinn getur myndgert á sérstökum blöðum, tóna vel saman. Bláa litinn er einnig að finna í textaverki Jónu Hlífar Halldórsdóttur þar sem bláir stafir (texti þar sem stendur “Þú siglir aldrei til sama lands”) eru á svörtum fleti sem og bláu málverki Baldvins af kirkju bæjarins og einhverri paradísarströnd með pálmum. Öll þessi fjögur verk, ýta ennfremur undir tilfinningu fyrir útkjálka norðursins og þess sem er lokal eða staðbundið.
Í sama sal er textaverk Hlyns með þremur textum á mismunandi tungumálum og er enski hlutinn skrifaður með bláum lit neðst á veggnum. Hinir textarnir eru í grænu og rauðu (sjá nánari útskýringu á verkunum í texta  Dr. Hlyns Helgasonar á heimasíðu). Málverk Baldvins er áhugavert, bæði formið; að saga Akureyrarkirkju út og bæta ofan á verkið og einnig innihaldslega; tregi og rómantísk sýn á heimabæinn og táknmynd hans. Þetta ætti að vera kunnuglegt flestum þeim er dvalið hafa langdvölum erlendis. Baldvin gefur þessu líka skoplegan blæ. Verkið virkaði í fyrstu sem nokkurskonar kitchmynd eða söluvarningur á túristastöðum en eftir margra vikna áhorf hefur styrkur hennar og fegurð magnast og má hún teljast góð táknmynd fyrir 150 ára afmæli Akureyrar.

img_4055.jpg

Snautleg listaverkaeign bæjarins

 Hér er ekki hægt annað en taka fram hve sorglegt það er að Akureyrarbær fjárfesti ekki í listaverkum og að ekkert sé keypt til minningar um þessi merku tímamót. Listaverkaeign bæjarins er ekki einungis tímaskekkja heldur til skammar. Ekki er hægt að gefa bænum listaverk ef einhver hefur áhuga á því, því hann tekur ekki við slíkum gjöfum þar sem þeim fylgja kvaðir. Það er alveg með ólíkindum að vilji sé ekki fyrir hendi á því að safna verkum eftir þá góðu listamenn sem tengjast bænum og líka yfir höfuð að safna nútímalist eftir fremstu listamenn þjóðarinnar. Þessi verk verða bara dýrari í innkaupum með tímanum og bestu verkin verða ekki einu sinni föl, þegar frammí sækir.

Verk Hlyns Hallssonar kallast vel á yfir salinn á stærstu veggjum þess og halda þau góðu jafnvægi hvert við annað eins og samstilltar vogarskálar. Krafturinn og fegurðin í verkum Hlyns nýtur sín vel hér auk þess sem hann ögrar áhorfandanum. Pappírsskúlptúr Jónu Hlífar nýtur sín líka einkar vel við gluggana sem kasta skuggum sínum inn í salinn í sólskini og hafa þeir sjónræn áhrif á listaverkið og umhverfi þess. Þessi skúlptúr er fagur og áhrifaríkur, þar sem lítið tré vex uppúr blaðabunka og leitar í birtuna frá gluggunum en ekki upp í loftið. Þetta litla tré krefst þess að starfsmennirnir hlúi vel að því með vatnsgjöfum og umhyggju. Á efsta blaðinu í pappírsbunkanum stendur “Öll tré á Íslandi eru gróðursett”. Verkið vísar á ljóðrænan hátt í hringrás náttúrunnar og iðnaðarins/menningarinnar. Pappír er gerður úr trjám og hér lætur hún pappírinn gera eða halda utanum tré í vexti. Hlutföll plöntunnar og pappírsins ýta undir styrk verksins og fagurfræði.

Nonni sem tákngervingur sýningarinnar

Annað verk eftir Jónu Hlíf er í litlu rými við Vestursal en þar sést vídeómynd af henni mála á sér nefið og í kringum munninn eins og trúðar gera en einnig koma upp í hugann myndir af pandabjörnum. Undir vídeóinu er lesin texti eftir Hjálmar Brynjólfsson af Garðari Thor Cortes en hann lék Nonna í kvikmynd um þá bræðurna Nonna og Manna, fyrir all löngu. Á kynningarplakati sýningarinnar kemur þessi tenging við Nonna aftur fram en þar spjallar hann sem gamall rithöfundur við japönsk börn. Akureyringurinn orðinn heimsmaður og víðförull að fræða ungviði heimsins um æsku sína á norðurhjara veraldar. Þetta verk, ekki síður en málverk Baldvins, vex við hvert áhorf. Ástæða er til þess að nefna mikilvægi þess að skoða sýningar oft og hve blekkjandi það er oft að dæma verk eftir fyrsta áhorf.
Verk Níelsar Hafstein eru öll í Vestursalnum auk textaverks Hlyns og vídeóverks af næturhimni vorsins á Akureyri eftir Örnu sem fellur snilldarlega inn í verk Níelsar af byggingargrind húss. Annað verk Níelsar á sýningunni er af mörgum sögum sem saga í stólpa úr tré og er hreyfing verksins slík að auðvelt er að hugsa sér sagarhljóðin og hreyfingu þeirra. Þetta verk magnast við hvert áhorf og verður í huganum að einhverskonar hreyfimynd. Lítið líkan af Effelturninum í París er þarna líka og mynd af því hvernig hægt er að gera líkan af Empire State byggingunni í New York. Gaman er því að labba frá táknmynd Parísar í gegnum húsgrindina sem táknar Akureyri og yfir til New York. Meira global og lokal getur það ekki verið en Akureyri er sem kunnugt  einmitt staðsett mitt á milli þessara borga. Verk Níelsar mynda sterka heild í rýminu og tjá bæði gott skopskyn hans og næmi fyrir efninu.

Minningar uppvaxtarins

 Í miðsalnum eru fleiri verk eftir Baldvin. Áhugaverðast er spegill sem sagaður hefur verið niður á kerfisbundinn hátt í tengslum við rytma í discolagi úr fortíð hans. Hlutarnir eru svo límdir  saman aftur og ræmur af veggfóðri komið fyrir á veggnum neðan við spegilinn en  þær vísa einnig í tísku uppvaxtarára hans. Verkið er hrífandi og langaði gesti safnsins frá Kaliforníu að eignast það en þar sem það rúmaðist ekki í handfarangri þeirra eins og þau sögðu keyptu þau minna verk á annarri sýningu og stungu í handfarangur sinn. Þau lofsömuðu þá list sem þau sáu á Akureyri og fannst snautlegt að geta flutt svo lítið magn með sér heim.
Verk Jóní Jónsdóttur af hinni sögufrægu ævintýrapersónu Gosa og vinkonu hans hér Gosastelpunni, að plata fólk er áhrifaríkt og formsterkt. Verkið er pínulítið á stórum vegg en styrkur þess er þannig að það virðist mun stærra. Gestir safnsins þurfa margir skýringu á því, hvað það þýði að Gosastelpan segist vera Akureyringur og nefið lengist. Skýringuna má lesa í texta Dr. Hlyns á heimasíðunni. Allir þeir aðkomumenn sem ekki aðlagast bænum auðveldlega geta samsamað sig þessu verki, einkum börn nærsveitanna sem flytja og byrja í nýjum skóla á Akureyri. Plakat af verkinu er til sölu í safninu. Verk Jóní er sterkt, eftirminnilegt og fallegt. Þetta verk er nokkuð eitt á báti og eins og örlítið aðskilið frá öllum hinum verkunum sem fléttast svo auðveldlega saman og mynda eins og eina heild. Þetta er þó á engan hátt truflandi, þvert á móti endurspeglar verkið að ekki allir eru Akureyringar þó svo það sé gefið í skyn. Hvað er það annars að vera Akureyringur?
Hve lengi á að búa hér til að verða Akureyringur? Eru menn það eftir einhvern vissan árafjölda af búsetu hér í æsku, jafnvel þó að  þeir flytji í burtu? Margir hafa eitt uppvaxtarárunum á  mörgum mismunandi stöðum, kannski er tímaskekkja að kenna sig einungis við einn stað.
 

img_2813.jpg

Sami himinninn heima sem heiman

Það verk sem flestir gestir safnsins tjá sig um að hrífi þá og lýsa hrifningu sinni yfir er videóverk Örnu Valsdóttur en titill þess er eftir samnefndri kvikmynd Der himmel über Berlin eftir Wim Wenders og vill Arna vísa til þess að allt er þetta sami himininn hvort heldur hann er yfir Akureyri eða Berlin, lokal eða global. Verkið snertir augljóslega áhorfandann djúpt og hrífur söngurinn á eftirminnilegan hátt.

Sýningin hefur verið mjög vel sótt og stærsti hluti gestanna verið útlendingar.
Þetta er áhugaverð sýning í tilefni afmæli bæjarins og vekur upp margar spurningar og vangaveltur á viðfangsefninu sem erfitt er að gera skil í svo stuttum texta. Safngestirnir hafa margir ekki getað orða bundist af hrifningu yfir því að það skuli vera ókeypis inn á safnið og á allar sýningarnar í Listagilinu. Einhverjir verða fyrir vonbrigðum með að á safninu skuli ekki vera safneign til sýnis ásamt tilfallandi sýningum. Það er kannski tímabært að fara að safna myndlist og endurbyggja húsnæðið fyrir 200 ára afmæli bæjarins.


Fræðsludagskrá í Sal Myndlistarfélagsins

fraedsludagskra.jpg

Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar sunnudaginn 26. ágúst

img_9979.jpg

Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar

Frá því 23. júní hefur verið myndlistarsýning við matjurtargarða bæjabúa á Krókeyri og í gömlu gróðrarstöðinni þar. Þar koma saman myndlistarmenn, listnemar og leikmenn. Sýnendur eru:

Arna G. Valsdóttir
Hlynur Hallsson og Krístín Þóra Kjartansdóttir (sameiginlegt verk)
Joris Rademaker
Guðrún Pálína Guðmundsdóttir
Ívar Hollanders og Victor Hollanders (sameiginlegt verk)
Sigrún Á. Héðinsdóttir
Þórarinn Blöndal

Þetta er í annað sinn sem þetta verkefni er haldið og eru allir sömu myndlistarmenn og síðast auk nýrra þátttakenda. Verkefnið var valið fyrir Íslands hönd á norrænu menningarhátíðina Nord Match í Helsinki haustið 2011. Verkefnið miðar að því að tengja saman list, ræktun matvæla og fræðslu.

img_7348.jpg

Viðburður með fræðslu og smökkun grænmetis verður sunnudaginn 26. ágúst kl. 15-17
við gömlu gróðrarstöðina á Krókeyri


Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, myndlistarmaður.
Talar um verkefnið, tildrög þess og um listaverkin sem þar eru.

Listnemarnir Victor og Ívar Hollanders fremja listgjörning í tengslum við myndverk sem þeir eiga á sýningunni.

Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir og áhugamanneskja um ræktun.
Talar um garðyrkju í víðara samhengi.

Kristín Kolbeinsdóttir, kennari og eigandi Silva-hráfæði Syðra-Laugalandi efra.
Talar um ræktun og möguelika á  að lifa af henni.

Jóhann Thorarensen, garðyrkjufræðingur hjá Akureyrarbæ.
Talar um hvað sameinar myndlist og matjurtir og um uppskeruna sem gestum er boðið að smakka.

Verkefnið er styrkt af Eyþingi og Afmælisnefnd Akureyrar vegna 150 ára afmælis bæjarins.
Verkefnisstjórar eru Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, myndlistarmaður  og Jóhann Thorarensen garðyrkjufræðingur hjá Akureyrarbæ.

img_9970.jpg


Nes auglýsir gestavinnustofur fyrir 2 íslenska listamenn - frí dvöl, styrkur vegna efniskostnaðar

skagastrond

KUL

Könnun umhverfisáhrifa á listsköpun

Skagaströnd

1. – 30. september 2012

 

KUL er þverfaglegt verkefni í listsköpun, í umsjón Nes listamiðstöðvar á Skagaströnd, sem haldið verður í september nk.. Verkefnið tengir saman íslenska og erlenda listamenn sem dvelja einn mánuð í listamiðstöðinni og því lýkur með hátíð, þar sem listamennirnir sýna hvernig Skagaströnd og nágrenni hefur áhrif á listsköpun þeirra.

 

KUL verkefnið fjallar um listsköpun og áhrif umhverfisins á hana. Markmið verkefnisins miðar að því að skapa afurð sem hægt er að vinna að á staðnum, afurð sem er hagnýt, afurð sem getur verið þverfagleg og sem örvar huga og hönd. KUL miðar að því að skapa tengsl milli listforma, þar sem við erum til staðar og virk. Verkefnið kannar samræðuna milli staðarins og tilverunnar, hvernig við erum mótuð af innri og ytri aðstæðum og hina síkviku og gagnvirku mótun umhverfis og sjálfsins.

Nes listamiðstöð auglýsir eftir tveimur íslenskum listamönnum, til að dvelja í listamiðstöðinni í september, sem eru tilbúnir til að taka þátt í KUL. Innifalin er frí dvöl í listamiðstöðinni og styrkur vegna efniskostnaðar, gegn framlagi listamannanna til verkefnisins.

Lokahátíð KUL verður á Skagaströnd 29. september, með listkynningum og matarviðburðum, listamannanna, matreiðslumanna á svæðinu og heimamanna.

Einn þáttur í KUL er matreiðsluverkefni sem Henry Fletcher, sérfræðingur í nýtingu vannýttra hráefna, stjórnar. Hann mun safna plöntum og sjávarfangi við strendur Skagastrandar og nágrennis og vinnur síðan með matreiðslumönnum á svæðinu að nýta hráefnin við að skapa nýjar mataruppskriftir og endurbæta gamlar. Þeir matreiðslumenn sem taka þátt í verkefninu eru Gunnar Sveinn Halldórsson í Kántrýbæ á Skagaströnd, Björn Þór Kristjánsson og Shijo Mathew í Pottinum Restaurant á Blönduósi og Jón Daníel Jónsson á Sauðárkróki.

KUL er hugmynd sem Tanja Geis, Henry Fletcher, Jacob Kasper og Andrea Cheatham Kasper áttu frumkvæði að. Verkefnið er í umsjón Melody Woodnutt, framkvæmdastjóra Nes listamiðstöðvar.

Nes listamiðstöð er staðsett á Skagaströnd og í ár dvelja þar yfir 100 listamenn frá fjölmörgum þjóðlöndum. Vaxtarsamningur Norðurlands vestra styrkir KUL verkefnið.

 

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 29. júlí 2012.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni:  http://neslist.is/

Netfang: Melody Woodnutt:  nes@neslist.is

Sími: Melody Woodnutt:  691 5554

Umsóknareyðublað:  http://neslist.is/application/call-for-artists/


Þórarinn Blöndal með listamannsspjall og sýningarlok í Flóru

toti_bondal_1117576.jpg

Þórarinn Blöndal - listamannsspjall
fimmtudaginn 27. október klukkan 20
- í Flóru - Listagili á Akureyri


Sýningu Þórarins Blöndals myndlistamanns Guli skúr 8 lýkur laugardaginn 29. október, en tveim dögum áður eða fimmtudaginn 27. október verður boðið upp á spjall við listamanninn í Flóru. Sýning Þórarins þar hefur verið opin gestum og gangandi síðan á Akureyrarvöku í sumar og hefur fjöldi fólks komið að sjá og upplifa verkið. Þau sem ekki hafa enn komið geta nýtt þetta tækifæri sem listamannsspjallið er til að missa ekki af sýningunni. Um leið segir Þórarinn frá vinnu sinni, en viðmælandi hans verður Hlynur Hallsson myndlistamaður og listrænn ráðunautur í Flóru. Spjallið hefst klukkan 20.

Um verkið Guli skúr segir Þórarinn:
“Í geymslum má finna allt það sem maður leggur til hliðar og hugsar sér að nota síðar. Við flutning minn á vinnustofu minni fór ég í gegnum allt mitt dót og sorteraði. Setti allt í kassa og merkti og lagði af stað með mitt hafurtask. Í nýjum híbýlum mínum syðra fylgdi bílskúr og nefndi ég hann Gula skúr og þar er mín vinnustofa. Rýmið er sirka tíu sinnum rúmir þrír metrar. Gengið inn að austanverðu og einnig eru stórar dyr að norðan. Hillur eru allan vesturvegginn og gott vinnuborð við suðurvegg.

Fyrirferðarmiklir á gömlu vinnustofunni voru vísar að óljósum hugmyndum, grunur um lausnir en óklárað. Sumu snyrtilega raðað í kassa og sorterað en á stundum mikil óreiða. Nokkrar hugmyndir höfðu dagað uppi og gleymst en dúkkuðu nú upp og vöktu upp gamla maníu. En sumt átti aldrei að lifa nema í kössum og geymslum og ekki hugsað til annars brúks. Einkennilega mikið af dóti sem hafði safnast upp og er nú í Gula skúr. Þessar óljósu hugmyndir og vísar að verkum eru til sýnis í Flóru.

Þórarinn Blöndal er fæddur á Akureyri 25. október 1966. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og fór svo til Academiie van Beeldende Kunst í Rotterdam, Hollandi. Ásamt því að halda sýningar sjálfur hefur Þórarinn staðið fyrir ýmsum listviðburðum og tekið virkan þátt í menningarstarfi á Akureyri. Þá er hann einn af stofnfélögum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og er í stjórn hennar. Þórarinn hefur komið að ýmsum verkefnum tengdum söfnum víða um land, bæði sem hönnuður og sýningastjóri. Undanfarna vetur hefur hann kennt myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri. Þórarinn er meðlimur í Dieter Roth Academy.

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar.

Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri
Viðburður á Facebook

Heimasíða Þórarins


Akureyri - hvert stefnir? Málþing í AkureyrarAkademíunni

akureyrarakademian_1

Akureyri - quo vadis? eða Akureyri - hvert stefnir er yfirskrift málþings sem AkureyrarAkademían stendur fyrir laugardaginn 22. október frá 13:00 til 17:00 í Húsmæðraskólanum, Þórunnarstræti 99 á Akureyri. Málþingið er öllum opið, aðgangur er ókeypis og vonast eftir líflegri umræðu. Fluttir verða sex fimmtán mínútna langir fyrirlestrar, boðið upp í hreyfimínútur þeirra á milli og ávaxta og grænmetishlé áður en farið er í almennar umræður. Dagskráin í heild sinni:

Akureyri - quo vadis? AKUREYRI - HVERT STEFNIR?

AkureyrarAkademíunni, laugardaginn 22. október kl. 13:00 - 17:00
Málþing öllum opið í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti 99 á Akureyri, aðgangur ókeypis.

1.) Stutt erindi um menntun og menningu
13:00 Menntun á Akureyri í framtíðinni?
- Darri Arnarson, formaður Ungmennaráðs Akureyrar
13:15 Menning á Akureyri í framtíðinni?
- Lárus H. List, listamaður
13:30 Spurningar til fyrirlesara
13:40 10 hreyfimínútur í umsjón Grétu Kristínar Ómarsdóttur

2.) Stutt erindi um atvinnu og aldur
13:50 Atvinna á Akureyri í framtíðinni? Soffía Gísladóttir frá Vinnumálastofnun
14:05 Að eldast á Akureyri í framtíðinni? Friðný Sigurðardóttir frá Öldrunarheimilum Akureyrar
14:20 Spurningar til fyrirlesara
14:30 10 hreyfimínútur í umsjón Grétu Kristínar Ómarsdóttur

3.) Stutt erindi um heilbrigði og sjálfbærni
14:40 Heilbrigði á Akureyri í framtíðinni? Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur og heilsuþjálfari
14:55 Sjálfbærni á Akureyri í framtíðinni? Brynhildur Pétursdóttir frá Neytendasamtökunum
15:10 Spurningar til fyrirlesara

SKIPTIMARKAÐUR SKOÐANA
15.20 Ávaxta- og grænmetishlé (kaffibaunin fær að fljóta með)
15.40 Samtala þátttakenda og fyrirlesara í þremur umræðuhornum

Horn 1: Menntun og menning.
Umræðustjóri: Jón Hjaltason
Ritari: Guðmundur Árnason

Horn 2: Atvinna og aldur.
Umræðustjóri: Hjálmar Brynjólfsson
Ritari: Sigurður Bergsteinsson

Horn 3: Heilbrigði og sjálfbærni
Umræðustjóri: Valgerður Bjarnadóttir
Ritari: Sólveig Georgsdóttir

16:15 Samantekt - ritarar umræðuhornanna gera grein fyrir helstu skoðunum sem settar voru fram og draga upp útópíu? framtíðarinnar.

16:45 Dagskrárlok

Málþingsstjóri er Pétur Björgvin Þorsteinsson, formaður AkureyrarAkademíunnar.

Sýning listakvennanna Örnu Valsdóttur og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur í gamla kennslueldhúsinu á miðhæðinni í Húsmæðraskólanum verður opin sama dag frá 12:00 til 18:00.

Verkefnið fékk styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.

Innsetning og teikningar í AkureyrarAkademíunni

 129-2946_IMG

AKUREYRARAKADEMÍAN KYNNIR:
Í tilefni af degi hússins, fimmtudaginn 13. október kl. 17:00

,,Obbolítill óður til kjötbollunnar"

Staður: Gamla kennslueldhúsið í Húsmæðraskólanum

Arna Valsdóttir vinnur innsetningarverk úr hljóðteikningu sinni ,,Obbolítill óður til kjötbollunnar" sem hún vann árið 2005 fyrir RÚV og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir sýnir teikningar sem hún vann undir áhrifum húsmæðraskólans.

Allir velkomnir - aðgangur ókeypis.

Húsmæðraskólinn á Akureyri við Þórunnarstræti 99 var formlega tekinn í notkun 13. október 1945. Frá árinu 2006 hefur AkureyrarAkademían haft aðstöðu í húsinu.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband