Færsluflokkur: Tónlist

Evudætur í Listasafninu á Akureyri

bordi.evur

EVUDÆTUR

TÓTA, TOBBA OG HRAFNHILDUR

Laugardaginn 24. október kl. 15 verður sýningin Evudætur opnuð í Listasafninu á Akureyri, en hér eru á ferðinni þær stöllur Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (Tóta), Þorbjörg Halldórsdóttir (Tobba) og Hrafnhildur Arnardóttir. Þessar vinkonur unnu allar um skeið hjá Fríðu frænku þar sem gamlir hlutir ganga í endurnýjum lífdaga og andi hins liðna svífur yfir vötnum. Þær eiga einnig sameiginlegt að vinna með fundna hluti og alls konar lífræn og ólífræn efni og aðferðir.

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (f. 1952) hefur starfað innan leikhússins í hartnær 30 ár og getið sér gott orð fyrir búningahönnun og sviðsmyndir. Þórunn útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands í frjálsri myndlist 1982 en fljótlega eftir að námi lauk tók hún að sér verkefni fyrir leikhúsin. Meðfram fjölbreyttu og krefjandi starfi í leikhúsunum hefur Þórunn unnið að myndlist og haldið einkasýningar ásamt því að taka þátt í ýmsum samsýningum. Fyrsta einkasýning hennar var í gamla Nýlistasafninu vorið 1982. Árið 2001hélt Gerðuberg henni Sjónþing þar sem farið var yfir feril hennar að viðstöddu fjölmenni og sýndi hún þar um leið nýjustu verk sín. Tilfinning og efnismeðferð í myndlist Þórunnar hefur í öllum sínum fjölbreytileika og litadýrð lengst af verið nátengd ástríðu hennar fyrir búningum; áhugi hennar á íslenskri þjóðmenningu hefur einnig verið mikill áhrifavaldur í verkum hennar. Að undanförnu hafa ný efni og önnur sjónarhorn í verkum hennar brotið þann ramma.

Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969) útskrifaðist með MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 1996, þar sem hún hefur búið og starfað allar götur síðan. Listamannsnafn hennar er Shoplifter. Í verkum sínum tekst hún á við fyrirbæri eins og hégóma, sjálfsmynd, fegurð og tísku og kemur með margvíslegum hætti inn á þráhyggju og blæti, afsprengi nútímalifnaðarhátta. Tilraunir Hrafnhildar hafa mótast af straumum alþjóðlegrar myndlistar sem og afþreyingarmenningu, tískuiðnaði, dægurlagakúltúr, leikhúsi og fjölmiðlum. Verk hennar eru samofin gjörningum á ýmsa vegu þar sem hún leikur sér oft með freistingar ofgnóttarinnar. Á undanförnum árum hefur hún unnið mikið með gervihár og náttúrulegt hár og búið til skúlptúra og veggmyndir, sem minna á klifurplöntur á húsgöflum, svo úr verður skreytikennd fegurð sem býr jafnframt yfir ógnvekjandi draugalegum áhrifum. Í verkum sínum glímir Hrafnhildur við sögu þessarar hárugu þráhyggju okkar og hvernig sköpun með hana heldur áfram að birtast í menningu samtímans þar sem tilhugsunin um „slæman hárdag“ (e. bad hair day) vokir yfir okkur eins og bölvun.

Þorbjörg Halldórsdóttir (f. 1968) útskrifaðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1988. Tveimur árum síðar hélt hún á vegum skiptinemasamtakanna A.U.S til Mexíkó þar sem hún dvaldi næstu tólf mánuði og stundaði tónlistarnám og starfaði sem músiktherapisti. 1993 urðu tímamót í hennar lífi þegar hún kynntist Önnu í versluninni Fríðu frænku þar sem hún starfaði á árunum 1994-2002. Nokkru síðar var stefnan tekin norður til Akureyrar og árið 2004 opnaði hún sjálf, ásamt Guðrúnu Jónsdóttur, búðina Frúin í Hamborg. Það má segja að í gegnum búðina hafi hún þróað sína myndlist. Þorbjörg vinnur mest með innsetningar og gjörninga og þá gjarnan í samvinnu við aðra listamenn. Í Frúnni í Hamborg hannar og saumar Tobba púða, töskur, hálskraga, hárspangir, kjóla og margt fleira undir merkinu „Frúin í Ham“.

Í grein sem Sjón skrifaði í tilefni sýningarinnar segir m.a.: „Það var í svörtum flauelspúða, stungnum með samlitum glersteinum; það var í jörpum, snúnum hárlokki sem bundinn var saman með fölnandi appelsínugulum silkiborða; það var í eldhússvuntu, svo bættri með grænum, rauðum, bláum og gulum bótum að engin leið var að sjá að eitt sinn var hún hvít. Flauelið í einu horni púðans tók að hnoðrast líkt og krafsað væri í það með langri nögl. Eitt hár lokksins tók að vaxa, að spinna sig frá hinum í silkihaftinu, og reyndist hrokkið. Einn saumanna sem hélt fastri bót á vinstra brjósti svuntunnar tók að rekja sig upp, að lengjast og vinda sig niður á gólfið. Og þannig gekk á með kvisi, hvísli og hvískri uns flauelshnoðrinn, hárið staka og saumþráðurinn höfðu magnast svo að stærð og gerð – hnoðri dafnað, hár þykknað, þráður hlaðist upp – að hvert fyrir sig myndaði að lokum fullvaxna og einstaka konu.“

Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson. Rithöfundurinn Sjón skrifar smásögu í sýningarskrána sem er hönnuð af Kviku ehf. Sýningin stendur til 13. desember. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma: 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is.

Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Ókeypis aðgangur í boði Akureyrarbæjar.

 
 LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI
 AKUREYRI ART MUSEUM


Kristján Pétur sýnir í Hafnarfirði

JSBach%20Brandenburgerconcert%20kynning_thumb%5B1%5D

Laugardaginn 17.10. kl. 14-17 opnar Kristján Pétur Sigurðsson sýninguna „Þagnarangar úr Brandenburgarkonsert nr. 5 eftir J.S.Bach“ í Gullsmíða og Skartgripaverslun Fríðu Strandgötu 43 í Hafnarfirði. Verkin eru unnin úr krossviði, kopar og maghóní.

Sýningin verður síðan opin í þrjár vikur á opnunartíma verslunarinnar.
Það væri mér sönn ánægja að þú og þínir litu inn við opnun.

Kristján Pétur Sigurðsson


Myndlistarsýningin KÓPÍUR í Populus Tremula

elli-og-G%C3%86gir-11.09-web


KÓPÍUR
GUÐBRANDUR ÆGIR OG ELLI
MYNDLISTARSÝNING

OG TRÚBADÚRTÓNLEIKAR
AÐALSTEINS SVANS SIGFÚSSONAR

Föstudagskvöldið 11. september kl. 21:00 verður opnuð myndlistarsýningin KÓPÍUR í Populus Tremula. Sýningin fjallar um upphaf, ferðalag og endi listaverks, sem og fram­haldslíf þess. Sýningin samanstendur af videoverki og ljósmyndum. Hún er sam­starfs­verkefni myndlistarmannanna Guðbrands Ægis og ella.

Um kl. 22:00 tekur síðan trúba­dúrinn Aðalsteinn Svanur völdin um stund þar sem hann mun frumflytja nokkra nýja söngva í bland við eldra efni.

Sýningin verður einnig opin laugardaginn 12. og sunnudaginn 13. september kl. 13:00 - 16:00


Tónlistargjörningur í Verksmiðjunni á Hjalteyri

Tónlistargjörningur verður framinn í Verksmiðjunni á Hjalteyri á föstudagskvöld, 21. ágúst, kl. 21.00. Meiningin er að breyta gömlu síldarverksmiðjunni í hljóðfæri og nota til þess raddir söngfólksins í kammerkórnum Hymnodiu, ýmiss konar slagverk Hjörleifs Arnar Jónssonar, gamalt orgel harmóníum í eigu Eyþórs Inga Jónssonar og fiðlu Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur. Flutt verða sígild og alþekkt lög en sannarlega í óvenjulegum og nýstárlegum búningi. Fólki er bent á að koma hlýlega klætt því svalt er í verksmiðjunni. Þó gæti hitnað í kolunum þegar fjörið færist í leikinn ...

Upplýsingar veita:
Eyþór Ingi Jónsson 663-1842
Hjörleifur Örn Jónsson 697-5845
Lára Sóley Jóhannsdóttir 867-0749


Stofnendur Verksmiðjunnar á Hjalteyri opna sýningu




Laugardaginn 1. ágúst kl. 15.00 opnar sýningin Kvörn í Verksmiðjunni á Hjalteyri.
Á sýningunni eru verk eftir stofnendur Verksmiðjunnar og einn gest.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Arnar Ómarsson, Arna Valsdóttir, A.P.E. , Clémentine Roy, Gústav Geir Bollason, Hlynur Hallsson, Jón Laxdal, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Knut Eckstein, Lene Zachariassen, Véronique Legros, Þórarinn Blöndal.

Átök um yfirráðin standa enn... Á sama tíma og endurmatið á gildum samfélagsins og menningarinnar fer fram í rústum gjaldþrota hlutaveltunnar, bæði andlega og efnislega.

Hlutir sem við sjáum í rými sem geymir þá, geta þeir tilheyrt okkur á okkar stað, ef að einhver annar beinir samtímis athygli sinni að þeim og gerir þannig tilkall til þeirra?   Þetta megum við oft reyna – meðvitað/ómeðvitað – við margvíslegar aðstæður, en ekki er gott að átta sig á því af hverju samkeppni ætti að skapast á milli þeirra sem líta sömu hlutina augum.  Það ber þó gjarnan við þegar mat á gildi þeirra og merkingu bætist við, sem tekur til þess hæfileika að sundurgreina og fella dóma um gildið.  Um gildi hvers sem vera skal og þar með hefst oft ójöfn aðgreining þess sem telst skipta einhverju máli.  Það kann að vera einhver lausn á þessari togstreitu þegar við náum að beina augum okkar að raunveruleikanum eins og hann er.  Það að takast sameiginlega á við hindranir, ekki eingöngu við að sjá þennan raunveruleika, heldur skynja það sem er handan auðkenndra forsenda hans (þess sem blasir við).  Við þurfum því að öðlast einhvern sameiginlegan skilning á því hvernig við hugsum og metum gildi hlutanna.  Til þess þarf einhvern einn hvarfpunkt sem leyfir að út frá honum byggist upp sameiginlegt perspektív.  Það má jafnframt taka með í reikninginn og minnast þá allra þeirra óbugandi huglægu viðhorfa, tilfinninga, skynjana, hugsana og framsetninga sem hvert okkar, sem af sjálfu sér, veit, hefur og þarf að fást við með eigin dómgreind, og um leið, mati á öllu því sem einhverju kann að varða.
Hvernig er best að finna þennan hvarfpunkt?  Hann gæti leitt aftur til grundvallaratriða og orðið upphaf endurmats.  Í bókstaflegri merkingu er hugmyndin sú að finna upp hjólið að nýju.

Um þessar mundir eru liðin tvö ár síðan hópurinn lagði af stað með fyrirætlanir um blómlegt menningarlíf í gömlu Verksmiðjunni á Hjalteyri.
Ekki verður annað sagt en vel hafi tekist til og listáhugafólk verið duglegt að leggja leið sína á fjölbreytilega viðburði.
Verksmiðjan hefur öðlast nýtt líf í hugum fólks og möguleikarnir óendanlegir.

Sýningin stendur til 22. ágúst og er opin um helgar frá kl. 14.00 - 17.00.
www.verksmidjan.blogspot.com
Menningarráð Eyþings, Norðurorka, Kaldi og Ásprent styrkja Verksmiðjuna á Hjalteyri.
Húni II siglir kl. 13:00 frá Torfunefsbryggju á Akureyri á opnun í Verksmiðjunni á Hjalteyri.
Nánari upplýsingar gefur Hlynur Hallsson í síma 659 4744 eða Gústav Geir Bollason í síma 461 1450

KVÖRN


Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Arnar Ómarsson
Arna Valsdóttir
A.P.E.
Clémentine Roy
Gústav Geir Bollason
Hlynur Hallsson
Jón Laxdal
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Knut Eckstein
Lene Zachariassen
Véronique Legros
Þórarinn Blöndal

1. – 22. ágúst 2009
Opnun laugardaginn 1. ágúst kl. 15
Opið um helgar frá kl. 14 - 17
www.verksmidjan.blogspot.com

img_4844.jpg

 


Allir gjörningar í Verksmiðjunni í kvöld en ekki á morgun

Í kvöld, föstudag 10. júlí kl. 21.00, verða allir gjörningarnir fluttir sem auglýstir hafa verið í Verksmiðjunni á Hjalteyri, enginn á morgun. Verið velkomin og eigum góða kvöldstund saman.

Á dagskrá eru Joris Rademaker, Helgi Svavar Helgason, Davíð Þór Jónsson, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Ásdís Sif Gunnarsdóttir.

http://www.verksmidjan.blogspot.com


Gjörningahelgi í Verksmiðjunni á Hjalteyri

opnunpetilm_035.jpg

Föstudag 10. Júlí kl. 21.00
Helgi Svavar Helgason og Davíð Þór Jónsson
framkvæma tónlistarspuna með mynd- og leiklist.

Laugardag 11. Júlí kl. 17.00
Joris Rademaker og fl. fremja görninga.

Yfirstandandi sýning.
Ilmur Stefánsdóttir og Pétur Örn Friðriksson

Opið um helgar kl 14.00-17.00
Myndir og nánari upplýsingar um viðburði og Verksmiðjuna á Hjalteyri á: http://www.verksmidjan.blogspot.com

Nánari upplýsingar veitir Aðalheiður S. Eysteinsdóttir í símum 462 4981 og 865 5091

Menningarráð Eyþings styrkir dagskrána í Verksmiðjunni á Hjalteyri


Ljóðadagskrá með rokkuðu ívafi og sýningarlok í Verksmiðjunni á Hjalteyri

einar_jpg_550x400_q95.jpg

Laugardaginn 20. júní verður ljóðadagskrá með rokkuðu ívafi í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Umsjónarmaður dagskrárinnar er skáldið og rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson en sérlegir gestir hans verða söngvaskáldin Kristján Pétur Sigurðsson og Þórarinn Hjartarson.
Dagskráin hefst kl. 21:00 og er enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Um þessar mundir stendur yfir sýningin "Hertar sultarólar" í Verksmiðjunni, hún  er opin laugardaga og sunnudaga milli kl 14:00-17:00 henni lýkur um næstu helgi og því eru síðustu forvöð að sjá þessa sýningu sem hefur hlotið afar góðar viðtökur og verið vel sótt. Sýningunni lýkur sunnudaginn 21. júní.
Myndir og nánari upplýsingar um viðburði og Verksmiðjuna á Hjalteyri á: http://www.verksmidjan.blogspot.com


Menningarráð Eyþings styrkir dagskrána í Verksmiðjunni á Hjalteyri


Baldvin Ringsted sýnir hjá Gallerí Víð8ttu 601

baldvin.jpg

Baldvin Ringsted sýnir hjá Gallerí Víð8ttu 601 15. apríl til 5. maí í Leirutjörn á Akureyri

Sýningin átti upphaflega að opna annan dag páska en henni var frestað vegna þess að listaverkinu var stolið af hólmanum í tjörninni skömmu eftir uppsetningu. Þjófnaðurinn var kærður til lögreglunnar á Akureyri og lýst var eftir verkinu í fjölmiðlum og sáu þjófarnir fljótlega að sér og skiluðu því/skildu eftir við hús í Aðalstræti. Listaverkið hefur nú verið sett upp aftur og fær vonandi að vera í friði þar til sýningu lýkur.

Líta má á útiskúlptúrinn "Trommusett nr.2" sem nokkurskonar minnisvarða,ónytjahlut sem dregur dám af glysgirni og hlutadýrkun. Einmana en þó í undarlegu sambandi við opna náttúruna og kallast sjónrænt á við glitrandi vatnið í kring.

Baldvin Ringsted útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2004 og lauk mastersgráðu frá Listaháskólanum í Glasgow 2007. Hann vinnur gjarnan með tónlist og popp-kúltúr af ýmsu tagi í verkum sínum en þau eru unnin í margvíslega miðla. Baldvin hefur sýnt víða að undanförnu þar á meðal í Center of Contemporary Arts,Glasgow, Kunstverein Arnsberg, Artnews Projects, Berlín og í Listasafninu á Akureyri.


Birgir Sigurðsson opnar myndlistarsýninguna RAFVIRKI 1 2 3 í Populus Tremula.

vinnuskor_827152.jpg

 

PÁSKARNIR 2009 Í POPULUS TREMULA 11.-13. APRÍL

 

 

RAFVIRKI 1 2 3

Opnun laugardaginn 11. apríl kl.14:00

BIRGIR SIGURÐSSON

 

Laugardaginn 11. apríl kl. 14:00 mun Birgir Sigurðsson opna myndlistarsýninguna RAFVIRKI 1 2 3 í Populus Tremula.

 

Með sýningunni tengir rafvirkinn og myndlistarmaðurinn fortíð og nútíð. Efniviðurinn er fenginn úr ýmsum áttum og mörgum listformum blandað saman. Dansverk, ljósskúlptúrar, innsetning, reglugerðarupplestur og ljóðaupplestur. Dansgjörningur á opnun.

 

Sýningin verður einnig opin á páskadag og annan í páskum kl. 14:00-17:00

 

 

 

TÓNLEIKAR

Mánudagskvöldið 13. apríl kl. 21:00

JOHAN PIRIBAUER

 

Johan Piribauer söngvari, lagahöfundur og alþýðurokkari frá Lapplandi heldur tónleika í Populus Tremula að kvöldi annars í páskum. Ásamt honum koma fram Gabriel Liljenström fiðluleikari og söngkonan Maud Rombe. Johan syngur á sænsku en tónlist hans og textar sækja innblástur í menningu og náttúru Lapplands.

 

Johan hefur gefið úr fimm hljómplötur síðan 1995 og hefur flutt tónlist sína víða um heim við góðan orðstír og frábæra dóma.

Auk tónleikanna í Populus koma þau fram á Aldrei fór ég suður á Ísafirði og í Kaffi Hljómalind í Reykjavík.

 

Húsið verður opnað kl. 20:30 | Aðgangur ókeypis | Malpokar leyfðir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband