Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Birgir Sigurðsson með listamannsspjall í Flóru

birgirflora.jpg


Birgir Sigurðsson - listamannsspjall í Flóru
fimmtudag 5. júlí kl. 20-21

Flóra, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Fimmtudaginn 5. júlí nk. stendur Flóra í Listagilinu á Akureyri fyrir listamannsspjalli með Birgi Sigurðsssyni. Spjallið er haldið í tengslum við myndlistarsýningu Birgis sem staðið hefur í Flóru síðustu vikur, en henni lýkur laugardaginn 7. júlí. Sýningin nefnist „Reynslusaga matarfíkils” og er vídeó-innsetning sem gefur áhorfandanum innsýn inn í heim matarfíkils. Í spjallinu kemur Birgir til með að opna inn á tilurð verksins á sýningunni og eins annarra verka hans í myndlist.

Um “Reynslusaga matarfíkils” segir Birgir: „Efniviður sýningarinnar er upplifun mín og reynsla af matarfíkn. Sýningin er þakklæti til matarfíknarinnar sem hefur skipt mig miklu máli í mínu lífi. Mér finnst engin þörf á að tala um þyngd, þyngdartap eða annað sem snýr að þyngd líkamans. Ég er að fjalla um næturátið mitt og hvernig það hefur birst mér allt mitt líf: Ég vakna til að borða og get ekki hætt.“
Birgir Sigurðsson er menntaður rafvirki og er að mestu sjálfmenntaður í myndlist. Hann hefur á undaförnum 14 árum haldið fjölmargar myndlistarsýningar og rekur nú 002 Gallerí á heimili sínu í Hafnarfirði.  


Nánari upplýsingar veitir Hlynur í síma 6594744 / hlynur(hjá)gmx.net eða Kristín í síma 6610168 / flora.akureyri(hjá)gmail.com

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.


Birgir Sigurðsson opnar sýningu í Flóru

birgir_sy_769_ning.jpg

Laugardaginn 16. júní kl. 14 opnar Birgir Sigurðsson myndlistarsýningu sem nefnist „Reynslusaga matarfíkils” í Flóru í Listagilinu á Akureyri. Sýningin er vídeo-innsetning sem gefur áhorfandanum innsýn inn í heim matarfíkils. Gjörningurinn „Reglugerð um ofát” verður fluttur kl. 14.

„Efniviður sýningarinnar er upplifun mín og reynsla af matarfíkn“ segir Birgir. „Sýningin er þakklæti til matarfíknarinnar sem hefur skipt mig miklu máli í mínu lífi. Mér finnst engin þörf á að tala um þyngd, þyngdartap eða annað sem snýr að þyngd líkamans. Ég er að fjalla um næturátið mitt og hvernig það hefur birst mér allt mitt líf: Ég vakna til að borða og get ekki hætt.“
Birgir Sigurðsson er menntaður rafvirki og er að mestu sjálfmenntaður í myndlist. Hann hefur á undaförnum 14 árum haldið fjölmargar myndlistarsýningar og rekur nú 002 Gallerí á heimili sínu í Hafnarfirði.  
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru og stendur til laugardagsins 7. Júlí 2012. Einnig verður boðið upp á listamannaspjall með Birgi Sigurðssyni, fimmtudaginn 5.júlí kl. 20.00.

Nánari upplýsingar veitir Birgir í síma 867 3196 í pósti 002galleri@talnet.is

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.

birgir.jpg

Birgir Sigurðsson
Reynslusaga matarfíkils
16. júní - 7. júlí 2012
Opnun og gjörningur laugardaginn 16. júní kl. 14
Flóra, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri


Bekkirnir í bænum opnar í Sal Myndlistarfélagsins

image-3.jpg


Myndlistaskólinn á Akureyri efnir til sýningar í sal Myndlistarfélagsins í Kaupvangsstræti 10, næstkomandi laugardag 5. mars 2012 kl. 14:00.  Sýndar verða tillögur sem nemendur í sérnámsdeildum skólans hafa unnið á síðustu vikum í áfanga undir handleiðslu Árna Árnasonar. Verkefnið fólst í því að laga og bæta umhverfi setbekkjanna í bænum.  Um er að ræða þrívítt verk og eða umgjörð um bekkina ásamt hugsanlegu nýju vali á staðsetningu þeirra. Verkefnið var unnið í samráði við Akureyrarbæ.

Sýningin verður opin milli klukkan 14:00-17:00 tvær helgar og lýkur 13. maí.


Alþjóðleg ráðstefna um tungumál og listir í Norræna húsinu

artintranslation.jpg

Háskóli Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Norræna húsið
Reykjavík 24.–26. maí 2012 (frestur hefur verið framlengdur til 31. janúar 2012)

Art in Translation er þriggja daga ráðstefna sem stefnt er að því að halda annað hvert ár. Hún var fyrst haldin í maí 2010 og verður haldin aftur í maí 2012. Á ráðstefnunni verða hátíðarfyrirlestrar, tónleikar, myndlistarsýning og fleiri viðburðir meðfram fræðilegum fyrirlestrum og listrænum gjörningum. Markmiðið er að búa til þverfaglegan vettvang handa fræðimönnum, listamönnum og almenningi til að skoða tengingar milli tungumáls og ýmissa listforma.

Með ráðstefnunni 2012 er ætlunin að leita nýrra strauma í ritlist, einkum þegar hún tengist öðrum listformum eða sameinar þau. Leitað er eftir framlagi frá fræðimönnum, sérfræðingum, listamönnum og stúdentum í fjölmörgum greinum (ritlist, myndlist, tónlist, leiklist, kvikmyndum, listfræði, málvísindum, þýðingum, mannfræði, menningarfræði, kennslufræði og öðrum skyldum greinum). Á milli 40 og 50 umsækjendur verða valdir til þátttöku á grundvelli innsendra tillagna.

Sjá nánar um áherslur ráðstefnunnar að þessu sinni hér fyrir neðan, í viðhengi (ef það skilar sér) eða á vefsíðunni https://artintranslation.hi.is/. Tillögur sendist á netfangið artintranslation@hi.is fyrir 31. janúar 2012.


Bækur og bókverk í Flóru

jonahlif.jpg

jólaBÓKAflóra

fimmtudaginn 8. desember 2011

í Flóru, Listagilinu á Akureyri

Allan fimmtudaginn þann 8. desember n.k. verður Flóra með opið fyrir gesti og gangandi að kíkja á jólaBÓKAflóru, en á boðstólnum verða bæði nýútkomnar og sérvaldar eldri bækur. Í tengslum við jólaBÓKAflóruna verða Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir með kynningu á þremur bókverkum sem þau hafa verið að vinna að, en bókakynningin er unnin í tengslum við sýninguna “Nú á ég hvergi heima” sem þau Hjálmar og Jóna opna nk. laugardag í Populus Tremula. Tvö bókverkanna sem þau verða með í Flóru koma nú út í takmörkuðu upplagi en það þriðja verður eingöngu til sýnis í bili, en það er enn í vinnslu.

Fyrri tvö bókverkin hafa þau Hjálmar og Jóna unnið í sameiningu. Um er að ræða annars vegar texta sem Hjálmar bjó til fyrir Jónu undir áhrifum frá verkinu “Byltingin var gagnslaus” og inniheldur 20 athugasemdir við þann verktitil. Seinna bókverkið inniheldur orð sem hafa verið skorin í lituð blöð, sem er tækni sem Jóna hefur verið að nota í ýmis verk. Orðin eru nokkur vel valin lýsingarorð og titill verksins er “Geggjað brjálað sjúklegt æði”. Í raun er þetta byggt á enn eldra verki sem þau unnu saman árið 2005 fyrst, en hafa alltaf verið að bíða að koma frá sér með einhverjum hætti.
Síðasta verkið sem ekki kemur út núna, en verður til sýnis, er bók með einu ljóði sem heitir “Myrkur eða 7 skuggar og Chopin”. Þar hefur Jóna verið að vinna myndskreytingar við textabrot og nálgunin verið sú að reyna að búa til sl. myndljóð eða finna leið til að gera myndljóð.

Bókakynningin Hjálmars og Jónu hefst klukkan 20.

Bækurnar verða svo til sýnis í Flóru um helgina sem hér segir:

föstudag 10-18, laugardag og sunnudag 14-17.



Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar. Svo skemmtilega vill til að Snorri sýnir einmitt í viðburðarrými Flóru þessar vikurnar og verður sýning hans auðvitað opin gestum og gangandi á jólaBÓKAflórunni.

Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri

Nánari upplýsingar veitir Kristín Þóra Kjartansdóttir í síma 6610168



Þórarinn Blöndal með listamannsspjall og sýningarlok í Flóru

toti_bondal_1117576.jpg

Þórarinn Blöndal - listamannsspjall
fimmtudaginn 27. október klukkan 20
- í Flóru - Listagili á Akureyri


Sýningu Þórarins Blöndals myndlistamanns Guli skúr 8 lýkur laugardaginn 29. október, en tveim dögum áður eða fimmtudaginn 27. október verður boðið upp á spjall við listamanninn í Flóru. Sýning Þórarins þar hefur verið opin gestum og gangandi síðan á Akureyrarvöku í sumar og hefur fjöldi fólks komið að sjá og upplifa verkið. Þau sem ekki hafa enn komið geta nýtt þetta tækifæri sem listamannsspjallið er til að missa ekki af sýningunni. Um leið segir Þórarinn frá vinnu sinni, en viðmælandi hans verður Hlynur Hallsson myndlistamaður og listrænn ráðunautur í Flóru. Spjallið hefst klukkan 20.

Um verkið Guli skúr segir Þórarinn:
“Í geymslum má finna allt það sem maður leggur til hliðar og hugsar sér að nota síðar. Við flutning minn á vinnustofu minni fór ég í gegnum allt mitt dót og sorteraði. Setti allt í kassa og merkti og lagði af stað með mitt hafurtask. Í nýjum híbýlum mínum syðra fylgdi bílskúr og nefndi ég hann Gula skúr og þar er mín vinnustofa. Rýmið er sirka tíu sinnum rúmir þrír metrar. Gengið inn að austanverðu og einnig eru stórar dyr að norðan. Hillur eru allan vesturvegginn og gott vinnuborð við suðurvegg.

Fyrirferðarmiklir á gömlu vinnustofunni voru vísar að óljósum hugmyndum, grunur um lausnir en óklárað. Sumu snyrtilega raðað í kassa og sorterað en á stundum mikil óreiða. Nokkrar hugmyndir höfðu dagað uppi og gleymst en dúkkuðu nú upp og vöktu upp gamla maníu. En sumt átti aldrei að lifa nema í kössum og geymslum og ekki hugsað til annars brúks. Einkennilega mikið af dóti sem hafði safnast upp og er nú í Gula skúr. Þessar óljósu hugmyndir og vísar að verkum eru til sýnis í Flóru.

Þórarinn Blöndal er fæddur á Akureyri 25. október 1966. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og fór svo til Academiie van Beeldende Kunst í Rotterdam, Hollandi. Ásamt því að halda sýningar sjálfur hefur Þórarinn staðið fyrir ýmsum listviðburðum og tekið virkan þátt í menningarstarfi á Akureyri. Þá er hann einn af stofnfélögum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og er í stjórn hennar. Þórarinn hefur komið að ýmsum verkefnum tengdum söfnum víða um land, bæði sem hönnuður og sýningastjóri. Undanfarna vetur hefur hann kennt myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri. Þórarinn er meðlimur í Dieter Roth Academy.

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar.

Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri
Viðburður á Facebook

Heimasíða Þórarins


Myndlistarfélagið ályktar vegna ráðningar forstöðumanns Listasafnsins

images.jpg
 
Aðalfundur Myndlistarfélagsins, haldinn í Sal Myndlistarfélagsins 
17. október 2011, samþykkti svohljóðandi ályktun.

Í byrjun nóvember 2010 átti stjórn Myndlistarfélagsins fund með stjórn Akureyrarstofu. Þar var m.a. fjallað um þá óvissu sem ríkt hefur í Listagilinu með tilkomu Hofs og niðurskurðar á fjárframlögum til skapandi lista. Stjórn Myndlistarfélagsins taldi að skilgreina þyrfti hlutverk Listagilsins upp á nýtt sem og hlutverk Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili. Á þessum fundi lagði Myndlistarfélagið fram þá tillögu að mótuð yrði skýr stefna um framtíð og hlutverk Listagilsins. Var því vel tekið af stjórn Akureyrarstofu og óskaði stjórnin eftir framtíðarsýn þeirra sem störfuðu í Gilinu. Í kjölfarið var stofnaður samstarfshópur sem fékk það hlutverk að safna upplýsingum um þá starfsemi sem fyrir er í Gilinu og móta framtíðarsýn. 

Það var niðurstaða samstarfshópsins að hlúa þyrfti að þeirri einstöku starfsemi sem fram fer í Listagilinu með því að efla samvinnu og samstarf einstaklinga og stofnana. Með samþættingu og hagræðingu mætti bæta skilvirkni hinna opinberu stofnana og með hærri fjárframlögum til grasrótarstarf mætti auðga listalífið á markvissan hátt.

Samstarfshópurinn skilaði skýrslu til Akureyrarstofu síðastliðið vor. Niðustöður vinnunnar endurspegla þá umræðu sem átti sér stað innan þessa hóps frá því að verkefninu var ýtt úr vör. Eftirfarandi tillögur um Listasafnið á Akureyri eru meðal áhersluatriða:

Endurskoða þarf rekstur Listasafnsins m.a. með það að markmiði að Akureyri verði miðstöð myndlistar á landsbyggðinni. Setja þarf saman hóp sem samanstendur af myndlistarmönnum, kjörnum fulltrúum Akureyrarbæjar og völdum aðilum sem koma að menningarlífi í bænum til að móta hugmyndir um stefnu Listasafnsins. Í stefnunni þarf m.a. að koma fram hvernig safnið hyggst standa að kaupum og varðveislu listaverka, hvernig það hyggst sinna rannsóknarskyldu sinni sem og fræðsluskyldu. Tryggja þarf að safnið starfi í samræmi við núgildandi lög og reglur um listasöfn svo sem safnalög nr. 106/2001 en þar stendur m.a. „ En safn hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar“.

Til að tryggja frjótt starf og fjölbreytni innan safnsins þarf forstöðumaður að verða búsettur á Akureyri og ráðningartími hans verði ekki lengri en fimm ár en þó með möguleika á tveggja til þriggja ára framlengingu.

Tryggja þarf aðgengi að listaverkaeign bæjarins t.d. gegnum heimasíðu sem einnig væri hægt að nota til safnakennslu og kennslu í grunnskólum bæjarins.

Skrá skal sögu myndlistar markvisst með áherslu á landsbyggðina og gæti það verið hluti af rannsóknarskyldu safnsins.

Efri hæð Listasafnsins er skilgreind sem stækkunarmöguleiki fyrir safnið. Setja þarf fram áætlun um áframahaldandi vinnu við uppbyggingu safnsins og tímasetja opnun efri hæðarinnar. Þar yrði rými fyrir fasta sýningu, bókasafn, aðstaða fyrir fræðslustarf og safnabúð.

Marka þarf safninu sérstöðu. Sérstaða safnsins gæti falist í sérstakri áherslu á barnamenningu og að safnið yrði gert að móðursafni myndlistar á landsbyggðinni í samstarfi við Listasafn Íslands.

Sjónlistarhátíðin verði fastur liður í starfsemi safnsins, sem tví- eða þríæringur.

Akureyrarstofa hefur nú endurráðið forstöðumann Listasafnsins, sem búsettur er í Reykjavík og hefur verið forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri í næstum tólf ár. Ráðningartíminn er fimm ár með mögulegri framlengingu. Það bendir ekki til þess að vilji sé fyrir hendi til að endurnýja og breyta, þvert á móti er þetta ávísun á óbreytta stöðu - ráðamenn eru væntanlega sáttir við ástandið eins og það er og ekki ginkeyptir fyrir breytingum. Samningsferlið hefur staðið lengi yfir og er nú loks til lykta leitt. Ekki með framtíðahagsmuni myndlistar - listagils að leiðarljósi heldur eigin hagsmuni og samtryggingu. Auglýsingaferlið var augljóslega sýndarleikur Akureyrarstofu. Myndlistarfélagið harmar metnaðarleysi Akureyrarstofu og átelur harðlega ófagleg vinnubrögð við ráðningu forstöðumannsins.


Akureyri - hvert stefnir? Málþing í AkureyrarAkademíunni

akureyrarakademian_1

Akureyri - quo vadis? eða Akureyri - hvert stefnir er yfirskrift málþings sem AkureyrarAkademían stendur fyrir laugardaginn 22. október frá 13:00 til 17:00 í Húsmæðraskólanum, Þórunnarstræti 99 á Akureyri. Málþingið er öllum opið, aðgangur er ókeypis og vonast eftir líflegri umræðu. Fluttir verða sex fimmtán mínútna langir fyrirlestrar, boðið upp í hreyfimínútur þeirra á milli og ávaxta og grænmetishlé áður en farið er í almennar umræður. Dagskráin í heild sinni:

Akureyri - quo vadis? AKUREYRI - HVERT STEFNIR?

AkureyrarAkademíunni, laugardaginn 22. október kl. 13:00 - 17:00
Málþing öllum opið í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti 99 á Akureyri, aðgangur ókeypis.

1.) Stutt erindi um menntun og menningu
13:00 Menntun á Akureyri í framtíðinni?
- Darri Arnarson, formaður Ungmennaráðs Akureyrar
13:15 Menning á Akureyri í framtíðinni?
- Lárus H. List, listamaður
13:30 Spurningar til fyrirlesara
13:40 10 hreyfimínútur í umsjón Grétu Kristínar Ómarsdóttur

2.) Stutt erindi um atvinnu og aldur
13:50 Atvinna á Akureyri í framtíðinni? Soffía Gísladóttir frá Vinnumálastofnun
14:05 Að eldast á Akureyri í framtíðinni? Friðný Sigurðardóttir frá Öldrunarheimilum Akureyrar
14:20 Spurningar til fyrirlesara
14:30 10 hreyfimínútur í umsjón Grétu Kristínar Ómarsdóttur

3.) Stutt erindi um heilbrigði og sjálfbærni
14:40 Heilbrigði á Akureyri í framtíðinni? Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur og heilsuþjálfari
14:55 Sjálfbærni á Akureyri í framtíðinni? Brynhildur Pétursdóttir frá Neytendasamtökunum
15:10 Spurningar til fyrirlesara

SKIPTIMARKAÐUR SKOÐANA
15.20 Ávaxta- og grænmetishlé (kaffibaunin fær að fljóta með)
15.40 Samtala þátttakenda og fyrirlesara í þremur umræðuhornum

Horn 1: Menntun og menning.
Umræðustjóri: Jón Hjaltason
Ritari: Guðmundur Árnason

Horn 2: Atvinna og aldur.
Umræðustjóri: Hjálmar Brynjólfsson
Ritari: Sigurður Bergsteinsson

Horn 3: Heilbrigði og sjálfbærni
Umræðustjóri: Valgerður Bjarnadóttir
Ritari: Sólveig Georgsdóttir

16:15 Samantekt - ritarar umræðuhornanna gera grein fyrir helstu skoðunum sem settar voru fram og draga upp útópíu? framtíðarinnar.

16:45 Dagskrárlok

Málþingsstjóri er Pétur Björgvin Þorsteinsson, formaður AkureyrarAkademíunnar.

Sýning listakvennanna Örnu Valsdóttur og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur í gamla kennslueldhúsinu á miðhæðinni í Húsmæðraskólanum verður opin sama dag frá 12:00 til 18:00.

Verkefnið fékk styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.

Sýningarstjórn og samfélagsrýni, Hlynur Hallsson með fyrirlestur í Ketilhúsinu

hlynur_hafnarhus.jpg

hlynur_bush.jpg

Hlynur Hallsson heldur fyrirlestur á vegum Listnámsbrautar VMA, Listasafnsins á Akureyri og Menningarmiðstöðvarinnar í Grófargili.
Fyrirlesturinn sem ber titilinn " Sýningarstjórn og samfélagsrýni" fer fram í Ketilhúsinu í Listagilinu á Akureyri föstudaginn 23. september kl. 14:00 - 15:00, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Fyrirlestraröðin hefur verið hluti af námsefni listnámsbrautar VMA til fjölda ára og er boðið upp á 8 fyrirlestra yfir vetrartímann með áherslu á að við fáum innsýn í margvíslega heima lista og menningarlífsins.

Facebook

Í fyrirlestri sínum mun Hlynur segja frá nokkrum verka sinna og sýningum með áherslu á verk sem hafa með tengsl við áhorfendur að gera, samfélagsgagnrýni, þátttökuverk og sýningarstjórnun.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hamborg, Düsseldorf og Hannover og lauk mastersnámi 1997. Hlynur hefur haldið yfir 60 einksýningar nú síðast í GalleriBOX á Akureyri með Jónu Hlíf Halldórsdóttur og í Malkasten í Düsseldorf. Hann hefur tekið þátt í meira en 80 samsýningum á síðustu árum nú síðast í "Læsi" í Nýlistasafninu og "Beyond Frontiers” hjá Kuckei+Kuckei í Berlín.

Hlynur hefur einnig verið virkur sem blaðaútgefandi og sýningarstjóri og hann vinnur nú að sýningu á textaverkum íslenskar og erlendra listamanna sem tengjast Íslandi sem opnar í Berlín þann 15. október í tilefni að því að Ísland er heiðursgestur á bókakaupstefnunni í Frankfurt í ár.
Hann hefur rekið sýningarrýmið Kunstraum Wohnraum frá árinu 1994. Starfrækti sýningarrýmið Villa Minimo í Hannover 1997-1999 og sá um sýningar á Kaffi Karólínu 2005-2010. Hefur rekið Verksmiðjuna á Hjalteyri frá árinu 2008 ásamt félögum sínum og situr í stjórn hennar. Hann hefur einnig verið sýningarstjóri á sýningum í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Japan, Noregi og á Íslandi. Hlynur hefur einnig kennt við Myndlistaskólann á Akureyri og við Listaháskóla Íslands.

Hlynur var bæjarlistamaður Akureyrar 2005, hlaut tveggja ára starfslaun listamanna 2006 og tveggja ára starfslaun Kunstverein í Hannover árið 1997 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri  auk nokkurra einkasafna á Íslandi og í Evrópu. Fyrr á þessu ári kom út bókin “Myndir - Bilder - Pictures” með 33 texta/ljósmyndaverkum eftir Hlyn ásamt textum eftir fjóra höfunda.

Hlynur var formaður SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna 2009-2010, formaður Myndlistarfélagsins 2008-2009. Sat í stjórn Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar 2007-2010. Sat fjórum sinnum á Alþingi sem varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns-framboðs 2003-2007. Hann var í safnráði Kunstverein Hannover 1997-2001 og í stjórn Gilfélagsins 1989-1990 og formaður Leikklúbbsins Sögu 1988-1990.

Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Verk hans snúast gjarnan um samskipti, tengingar, skilning, landamæri, fjölmiðlun, viðhorf okkar og hvað við lesum úr hlutunum.

Nánari upplýsingar um verk Hlyns er að finna á:
http://hlynur.is   
http://www.hallsson.de
http://www.kuckei-kuckei.de
http://www.galerie-robert-drees.de
http://www.seitenwechsel-hannover.de
 

Fyrirlestraröð á haustönn 2011

Hlynur Hallsson
"Sýningarstjórn og samfélagsrýni"
15 ár af óvenjulegum sýningum

hlynur_s.jpg


Reynsla er Þekking í Verksmiðjunni á Hjalteyri

george_d.jpg


Reynsla er Þekking
George Hollanders / Sharka Mrnakova / Birgit Ehrhardt
10. - 25. september 2011

Opnun laugardaginn 10. september kl. 14
Opið laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og eftir samkomulagi 892 6804

https://www.facebook.com/event.php?eid=153838708036850


Sýningin Reynsla er Þekking er lífandi og listræn framsetning sem beinir athygli að eko- og úti kennslu í leikskólum, náttúrulegum leikgörðum og áhrifum þeirra á þroska fólks - bæði andlegan og líkamlegan. Þetta er einskonar hugleiðsla um óhefðbundnar kennsluaðferðir sem byggja á "experiential learning".

Miðpunkturinn er manneskjan, skilningarvit hennar, tengslin við náttúruna, náttúrulögmál, staðbundnar atvinnugreinar, auðlindir, menningararfleifðin, samfélagið og sjalfbærir lífnaðarhættir.
Sýningin mun standa frá 10. til 25. September 2011 í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Náttúrulegir leikvellir er gerðir úr náttúrulegu eða endurunnu hráefni eða hlutum. Heildrænt umhverfi sem þessar leikgarðar mynda, miðar að því að örva skilningarvit barnanna og fólks og færa þau nær náttúrunni og samfélaginu sem þau búa í.

Sýningin er margþætt og er samstarfsverkefni Sharka Mrnakova, George Hollanders og Birgit Ehrhardt.

Meðal þess sem verður sýnt er:
Afrakstur af þróunarverkefni um útikennslu sem var unnið í sumar í samstarfi við leikskólann Iðavelli á Akureyri. Þar voru elstu börnin úti alla daga frá júni og fram í miðjan júli á nærliggjandi leikvelli og unnu í anda úti leikskóla. Unnið var með náttúruleg og endurunnin hráefni, menningararfleifðinna s.s. sögur og staðbundna starfshætti, skilningarvitin, náttúrulögmál og element svo eitthvað sé nefnt. Einnig var unnið með órjúfanleg tengsl manneskjunnar og náttúrunnar með því að leggja áhersla á sjálfbæra lifnaðarhætti, endurvinnslu og náttúruvernd í gegnum daglegt starf eða upplifun og fræðslu.

Sýnt verður bland af verkefnum barnanna en einnig gögnum sem leikskólakennara söfnuðu saman s.s. upptökur (hljóð og myndbönd), ljósmyndir og fleira.

Einnig verða til sýnis hönnunarferli og uppbygging í samvinnu við foreldra frá náttúralegum leikgarði sem varð til við Krílakot í sumar til að gefa innsýn í hugmyndfræði á bak við þessa tegund af leikgörðum.  
Til sýnis verða aðferðir og óhefbundnar leiðir til að endurnýta sorp eða úrgang við kennslu í leikskólum eða fræðsluaðferðir.

Ýmsar innsetningar leika sér að skilningarvitum gesta og gangandi og eru gagnvirk til að gefa dýpri innsýn í eigin reynsluheim og hugmyndafræðina á bak við náttúrulega leikgarða og "experiential learning". Einnig eru til staðar gagnvirkt vinnusvæði þar sem gestir og gangandi geta tekið þátt í og skapað sína eigin hugarsmíð.

Á sýningunni er einnig ítarleg kynning um eko- eða úti leikskóla og náttúrulega leikgarða.

Menningarráð Eyþings er stuðningsaðili sýningarinnar.

George Hollanders & Sharka Mrnakova
Nánari upplýsingar veitir George i síma 892 6804




Verksmiðjan á Hjalteyri
http://www.verksmidjan.blogspot.com
https://www.facebook.com/pages/Verksmi%C3%B0jan-%C3%A1-Hjalteyri/92671772828
https://www.facebook.com/event.php?eid=153838708036850


george_g.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband