Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Sýning - Gjörningar - Tónleikar í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

56373672_2115561065187154_1591921596673556480_o.jpg?_nc_cat=103&_nc_ht=scontent-lhr3-1

Föstudaginn 19. apríl kl. 14.00 opnar Unnar Örn J. Auðarson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Þann sama dag kl. 15.00 hefst Gjörningadagskrá á föstudaginn langa þar sem fram koma Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Aðalsteinn Þórsson, Styrmir Örn Guðmundsson og Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir.

Laugardaginn 20. apríl kl. 17.00 verða haldnir tónleikar þar sem þrjú tónskáld koma fram með eigið efni og fjórði tónlistamaðurinn aðstoðar við flutning. Tónlistamennirnir eru:
Þórir Hermann Óskarsson, tónskáld, píanóleikari
Daníel Sigurðsson, tónskáld, trompetleikari
Snorri Skúlason, kontrabassaleikari

Daníel Helgason, tónskáld, gítarleikari

Nánari upplýsingar um listamennina hér að neðan.
Boðið verður uppá veitingar og eru allir velkomnir.
Uppbyggingasjóður/Eyþing, Fjallabyggð, Norðurorka, Aðalbakarí, Kjörbúðin og Rammi ehf. styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Kompan

Unnar Örn J. Auðarson Í myndlist sinni vinnur Unnar Örn gjarnan með staðreyndir, frásagnir og merkingu stóru sögunnar og gefur fundnu efni annað samhengi innan ramma myndlistarinnar. List hans er ekki bundinn einum sérstökum miðli en jafnan eru verk hans hlutar eða brot úr stærri leiðangri sem tekur í sig merkingu þess sýningarstaðar sem verkið er hluti af. Unnar útskrifaðist árið 1999 frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk mastersnámi við Listaakademíuna í Malmö 2003. Bókverk, auk annars prentverks skipa stóran þátt á sýningum og höfundarverki listamannsins.
Mirage [ b-b-br–b-b-br–breytingar ]
Sérstaða lands er undirstrikuð í þáttum sem oft eru nefndir landgæði. Undir þessa skilgreiningu flokkast veðurfar, jarðfræði landsins og aðrir sýnilegir sem og ósýnilegir þættir. Landmæling er aðferð mannsins til kortlagningar á náttúrunni. Við kortlagningu verður til teikning sem álitin er óháð vísindaleg mæling - þessi mæling breytir náttúru í manngert umhverfi - umhverfi sem hægt er að þróa og breyta. Mælingin er leið mannsins til stjórnunar og er talin gefa hugmynd um það sem er og jafnvel gefa forspá um það sem verður í framtíðinni.
Á sýningunni í Alþýðuhúsinu á Siglufirði er dregin er fram óljós hugmynd af landi - þar sem nærvera manneskjunnar er einungis hilling - birtist stutta stund við sjóndeildahring en hverfur jafn óðum. Manneskjan er í þessu landi lítið annað en mælikvarði á víðáttu - kvarði sem gefur merkingarlausa mynd af umhverfinu og ósýnilegum gæðum þess.

Gjörningadagskrá

Ásdís Sif Gunnarsdóttir
Ásdís Sif Gunnarsdóttir er fædd í Madison, Wisconsin, Bandaríkjunum og býr og starfar í Reykjavík. Ásdís Sif stundaði nám við UCLA í Los Angeles og við The School of Visual Arts í New York. Ásdís Sif er þekkt fyrir sýningar sínar í óhefðbundnum rýmum og vídeó innsetningar, sem fela í sér þrívídd og örvandi framsetningu ljóðaformsins með sjónrænum hætti. Hvert vídeó er sem sönglag, í framsetningunni blandar hún þeim innbyrðis og flytur ljóð meðan á sýningu stendur. Verk Ásdísar eru breytileg, allt frá stærri sýningum og vídeó innsetningum, til ljóðalesturs og ljósmyndasýninga.

Aðalsteinn Þórsson Ég hef svo ég muni ekki áður tekið þátt í svona gjörninga dagskrá eins og Alþýðuhúsið á Siglufirði býður upp á. Þannig að minn gjörningur mun leitast við að taka á því. Gjörningar hafa í gegn um tíðina verið mikilvægur þáttur í minni listsköpun. Þó minna seinni árin. Fyrir mér eru mörkin milli gjörnings og annarra gjörða í listrænu starfi ekki alltaf fullkomlega ljós.
Aðalsteinn Þórsson er fæddur 20. október 1964. Foreldrar voru bændur á Kristnesi í Eyjafirði og þar ólst hann upp. Aðalsteinn varð snemma skapandi, teiknaði mikið og smíðaði úr spýtum, aðallega vopn og morðtól. Eftir grunnskóla fór hann í bændaskóla. Í einhverju tómarúmi vitandi ekkert hvert sig langaði. Formlegt listnám hóf hann ekki fyrr en í kring um tvítugt, 24 ára byrjaði Aðalsteinn í Myndlistaskólanum á Akureyri sem nemandi í fullu námi. Síðan hefur ekki verið aftur snúið af braut listarinnar. Hann fór í framhaldsnám í Finnlandi og seinna í Hollandi þar sem hann bjó og starfaði í 19 ár, eða til ársins 2016. Í fyrstunni málaði Aðalsteinn aðallega en varð sífellt meira afhuga tilbúnum litum og málaði um tíma helst með drykkjum á pappír og þá mest með kaffi. Það verkefni sem Aðalsteinn hefur hefur unnið að umfram önnur er samt “Einkasafnið” verkefni sem hann hefur unnið að síðan 2001. Í þessu verki gengur Aðalsteinn út frá því að afgangar neyslu sinnar séu menningar verðmæti á sama hátt og afgangar hugans hið skapandi verk. Þannig inniheldur Einkasafnið bæði andlegan og efnislegan afgang/sköpun lífs hans. Miðstöð Einkasafnsins opnaði í júní 2018, í landi Kristness í Eyjafirði. Þar verður hægt sjá safnkostinn og fylgjast með framgangi .
söfnunarinnarhttp://steini.art

Styrmir Örn Guðmundsson
Styrmir Örn Guðmundsson (f. 1984) er sögumaður, hljóðfærasmiður, söngvari og myndskreytari. Hann hrífst af hinu fjarstæðukennda, en með því er frekar átt við milda og kærleiksríka afstöðu en þráhyggju fyrir hinu fáránlega. Hann ber umhyggju fyrir hinu fjarstæðukennda. Hann aðstoðar það við að þróast. Hann gefur því pláss meðfram öllu öðru, þar sem það getur tekið form hins óþolandi nágranna eða þíns besta vinar. Styrmir hefur búið og starfað sem myndlistarmaður í Reykjavík, Amsterdam og Varsjá.

Í verkinu Líffæraflutningur hefur Styrmir mótað röð leirskúlptúra sem hver og einn sækir form sitt í lögun líffæra okkar. Þetta eru lungu, lifur, heili og magi, allt lykillíffæri líkamans sem halda okkur á lífi. Við þekkjum þessi form sem búa innra með okkur, við finnum fyrir þeim en fæst höfum við séð þau í raunveruleikanum. Styrmir hefur valið þau út frá formi og eiginleikum þeirra en hér gegna líffærin hlutverki hljóðfæra. Maginn er Udu tromma, lifrin er flauta, lungun eru dauðaflautur Azteka og heilinn er gæddur hljóðgervli sem býr til hljóm úr rafbylgjum. Á sama hátt og hvert líffæri líkamans hefur mjög ákveðið og aðeins eitt hlutverk í tilverunni fá þau ný og afmörkuð hlutverk í Líffæraflutningi Styrmis. Þau minna á að ekkert þeirra getur án hinna verið, þau eru tengd órjúfanlegum böndum í vél án varahluta. Þrátt fyrir hve ómissandi þessi lífsnauðsynlegu líffæri eru hugsum við ekki alltaf nógu vel um þau. Okkur þykir þau jafnvel vera ógeðfelld, notum táknmyndir líffæra til að hræða hvert annað í formi hryllingsmynda og hrollur fer um okkur ef við sjáum þau í formalíni á rannsóknarstofum.

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir
ListMessa varð til á sýningu í Kling og Bang árið 2009 á föstudeginum langa. Gjörningurinn felst í því að lofsama listina í trúarlegu samhengi og er gjörningakarakterinn einskonar prestur sem er settur saman út frá ímynd bónda, lækni, kennara og listamanns.

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir (f. 1982) býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr LHÍ 2008 og með BA gráðu í Listfræði úr HÍ 2012. Hún lauk MFA námi við School of Visual Arts in New York (2014) Katrín Inga hlaut viðurkenningu úr Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur (2017), Dungal viðurkenningu (2012), námsstyrk úr Guðmundu Andrésardóttur sjóðnum (2013) og Fulbright námstyrk (2012). Katrín hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum hérlendis og erlendis, má þar nefna einkasýningu í Nýlistarsafninu árið 2013 og samsýningu á High Line Art í New York árið 2017. Katrín hefur stofnað og rekið ýmis fyrirbæri tengt myndlist og vinnur iðulega í þágu listarinnar. Viðfangsefni Katrínar eru oft um hið félagslega og pólitíska landslag innan listanna sem hún tekst m.a. á við með aðferðum eins og skrifum, gjörningum og teikningum.


Tónleikar

Þórir Hermann Óskarsson
Þórir Hermann lærði á píanó frá unga aldri ásamt klarínett og gítar, á Englandi þar sem hann ólst upp. Eftir að hann flutti til Íslands 16 ára gekk hann í FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík, þar sem hann útskrifaðist með Burtfararpróf í klassískum píanóleik og tónsmíðum. Þórir Hermann er að mestum hluta klassískt menntaður en þó sækir hann innblástur úr mörgum áttum, þar á meðal Jazz, Prógressívt Rock, Pop, Elektróník og Þjóðlagatónlist. Um þessar mundir stundar Þórir Hermann tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands. Á tónleikunum í Alþýðuhúsinu mun Þórir flytja eigin verk á píanó í bland við verk Daníels Sigurðssonar sem leikur á trompet og í samstarfi við Snorra Skúlason sem leikur á kontrabassa.

Daníel Sigurðsson
Daníel Sigurðsson byrjaði að læra á trompet 9 ára í Skólasveit Vesturbæjar. Hann byrjaði að spila jazz í Hagaskóla með hljómsveitinni Danni og Dixieland-Dvergarnir. Síðan þá hefur hann spilað með hljómsveitum eins og Ojba Rasta, Boogie Trouble, Amaba Dama, Ara Árelíusi, sem og sinni eigin hljómsveit, Óreglu, sem hefur gefið út tvær plötur og er að vinna í sinni þriðju. Undanfarin ár hefur Daníel líka samið nokkra strengjasextetta, þrjú lúðrasveitarverk, nokkur verk fyrir píanó og ýmislegt fleira. Eitt píanóverk verður flutt af Þóri Hermanni í Alþýðuhúsinu, og svo verða spiluð þrjú fyrir píanó, kontrabassa og trompet."

Daníel Helgason
Daníel Helgason hóf gítarnám 8 ára gamall og árið 2012 útskrifaðist hann úr Tónlistarskóla FÍH af jazzbraut. Fjórum árum síðar lauk hann tónsmíðanámi í Listaháskóla Íslands. Hann hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og spilað opinberlega og í upptökum með listamönnum á borð við Unu Stef, Kristjönu Stefánsdóttur (Bambaló), Svavar Knút og fleiri. Daníel spilar einnig töluvert af Suður-Amerískri latín tónlist og hefur tileinkað sér kúbanska tres-gítarinn. Auk þess er hann í DÓH tríó sem fékk tvær tilnefningar í jazz og blús flokki í Íslensku tónlistarverðlaununum 2018 fyrir plötu ársins og sem flytjendur. Á þeim sama viðburði var Daníel útnefndur sem Bjartasta vonin í sama flokki.
Á þessum tónleikum ætlar Daníel að leika frumsamið efni í bland við önnur lög og spuna.

https://www.facebook.com/events/658017734629881


Opið myndlistarverkstæði fyrir börn í Deiglunni

55959880_1028759730640748_4972013442186608640_o.jpg?_nc_cat=110&_nc_ht=scontent-dus1-1

Opið myndlistarverkstæði fyrir börn á aldrinum 7 - 10 ára í Deiglunni laugardaginn 13. Apríl 2019, kl. 13:30 - 17:30.

Myndlistakennararnir Sigrún Birna Sigtryggsdóttir og Guðmundur Ármann Sigurjónsson verða á staðnum til að leiðbeina.
Til boða stendur að mála, gera skúlptúra úr tré, pappír og endurunnu efni. Einnig verður hægt að þrykkja hæðarprent með einföldum efnum á pappír. Börnin geta komið og verið eins lengi eða stutt og þau vilja og prófað ýmsa miðla. Lagt er til að forráðamenn séu nálægt og við hvetjum forráðamenn og börn til að vinna saman.

Börnin geta tekið verkin með sér heim að degi loknum.
Fatahlífar verða í boði en við hvetjum þátttakendur til að mæta í fötum sem mega skemmast.
Engin skráning nauðsynleg, bara mæta.

Deiglan, Kaupvangsstræti 23, Akureyri.

Viðburðurinn er hluti af Barnamenningarhátíð á Akureyri og er styrktur af Akureyrarbæ.

https://www.facebook.com/events/2388765911156069


Ólafur Sveinsson sýnir í Mjólkurbúðinni

54798088_2565083660231288_9138417953107083264_o.jpg?_nc_cat=106&_nc_ht=scontent-lht6-1

Ólafur Sveinsson sýnir í Mjólkurbúðinni

55
Sýnd verða olíumálverk á striga unnin á síðasta ári. Ein grafíkmynd gæti slæðst með til að valda ójafnvægi. Jafnvægi eða mótvægi. Allir velkomnir !

30. mars - 7. apríl 2019.

https://www.facebook.com/events/385062022332347


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband