Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018
1.8.2018 | 11:11
Leiðsögn um sýninguna Fullveldið endurskoðað
Annan hvern laugardag í sumar hefur Listasafnið á Akureyri boðið upp á leiðsögn með listamönnum og fræðifólki um sýninguna Fullveldið endurskoðað. Laugardaginn 4. ágúst mun Guðmundur Ármann Sigurjónsson segja frá hugleiðingum sínum í tengslum við sýninguna og einstaka verk. Leiðsögnin hefst kl. 15 við Listasafnið, Ketilhús og verður svo gengið á milli verkanna og mun leiðsögnin taka um 45 mínútur.
Sýningin Fullveldið endurskoðað er útisýning sem sett er upp á á átta völdum stöðum í miðbæ Akureyrar. Alls eiga 10 ólíkir myndlistarmenn verk á sýningunni sem gerð eru sérstaklega í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Listamennirnir eru: Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Gunnar Kr. Jónasson, Hrefna Harðardóttir, Jón Laxdal Halldórsson, Jónína Björg Helgadóttir, Karólína Baldvinsdóttir, Libia Castro og Ólafur Ólafsson, Rebekka Kühnis, Samúel Jóhannsson og Snorri Ásmundsson. Markmiðið með sýningunni er að sýna nýja hlið á stöðu fullveldisins á okkar tímum og fá áhorfendur til að velta fyrir sér hugmyndum, útfærslum og fjölbreyttum sjónarhornum því tengdu.
Síðasta leiðsögnin um Fullveldið endurskoðað verður með Gunnari Kr. Jónassyni, laugardaginn 18. ágúst kl. 15-15.45. Sýningin hlaut styrk úr sjóði afmælisárs fullveldis Íslands. Sýningarstjórar eru Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Hlynur Hallsson.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2018 | 11:07
Jóna Bergdal sýnir í Bergi á Dalvík
Jóna Bergdal myndlistakona frá Akureyri hefur haldið fjölda einka- og samsýninga hérlendis og erlendis. Hún lauk námi í Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2003 og hefur auk þess sótt allnokkur námskeið hér heima og í Noregi til að opna fleiri víddir. Jóna hefur fengist við ýmiskonar tækni og mikið notað akríl og olíu í sínum verkum en síðustu ár hafa vatnslitir átt hug hennar og hjarta. Það er frelsið í vatnslitunum sem heillar hana, litaflæðið og frjálsa túlkunin sem vatn og litir spinna saman. Myndirnar hennar eru yfirleitt innblásnar af náttúrunni og umhverfinu, einnig hafa fuglar skipað nokkuð stóran sess í myndum hennar. Myndir frá Jónu hafa farið á sýningar víða og nú nýverið á sýningu í Bilbá á Spáni, Helsinki í Finnlandi og Fabriano á Ítalíu þar sem Jóna dvaldi og sótti fyrirlestra og námskeið og þangað er meðal annars sóttur innblástur fyrir þessa sýningu.
Sýningin opnar 4. ágúst 2018 kl. 14.
Allir velkomnir.
https://www.facebook.com/events/257451611702930