Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018

Sköpun bernskunnar 2018 og Helga Sigríður Valdemarsdóttir í Listasafninu á Akureyri

28061630_1754186391269862_7329418694600018812_o

Laugardaginn 24. febrúar kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi: Sköpun bernskunnar 2018, samsýning listamanna, skólabarna og Leikfangasafnsins á Akureyri, og sýning Helgu Sigríðar Valdemarsdóttur, Kyrrð.

Þetta er fimmta sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp til þess að örva skapandi starf og hugsun skólabarna á aldrinum tveggja til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru börn, starfandi listamenn og Leikfangasýningin á Akureyri. Sköpun bernskunnar er því samvinnuverkefni í stöðugri þróun og er hver og ein sýning sjálfstæð og sérstök.

Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og var valin til þátttöku í Barnamenningarhátíð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins 2017. Þemað að þessu sinni er tröll í víðum skilningi sem vísar í þjóðsögur Íslendinga. Á sýningunni mætast þátttakendur og eiga listrænt samtal við sýningargesti.

Þátttakendur að þessu sinni eru Georg Óskar, Ninna Þórarinsdóttir, Sigga Björg Sigurðardóttir, Leikfangasafnið á Akureyri, Grímseyjarskóli, Oddeyrarskóli, Iðavöllur og Krógaból.

Boðið verður upp á listasmiðju með Ninnu Þórarinsdóttur sunnudaginn 25. febrúar kl. 11-12, og fjölskylduleiðsögn laugardagana 10. mars og 14. apríl. Aðgangur ókeypis.

Sýningarstjóri: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

https://www.facebook.com/events/195492057867274

Kyrrð kvenna

Í umbreytingum samtímans og ati hversdagsins leitar manneskjan að huglægum rýmum til að öðlast innri ró. Slík rými eru víða og margvísleg: úti í náttúrunni, taktföst sundtök, gönguferð með hundinn, jógastaða, góð vinasambönd. Þar sem kyrrð finnst, stilla vinnst.

Þörfin fyrir, og leitin að, jafnvægi og kyrrð er ævagömul. Konur hafa til að mynda lengi fundið sér kyrrðarrými með ástundun handverks. Sitjandi prjónandi fá þær hvíld frá amstri, frið fyrir áreiti, þær eru uppteknar og löglega afsakaðar, fá að vera með sjálfum sér, í eigin tómi, í rými sem þær þurfa að taka sér, hafa skapað sér.

Helga Sigríður Valdemarsdóttir (f. 1975) útskrifaðist af Mynd- og handíðabraut VMA 1997 og lauk diplómanámi í myndlist frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2003. Á sýningunni Kyrrð notar hún ljósmyndir, málverk og innsetningu til að fjalla um kyrrðarrými konunnar.

Boðið verður upp á heilun í tengslum við sýninguna laugardagana 3. og 10. mars og sunnudagana 4. og 11. mars kl. 14-17 og fjölskylduleiðsögn laugardagana 10. mars og 14. apríl. Aðgangur ókeypis.

Sýningarstjóri: Hlynur Hallsson.

https://www.facebook.com/events/342665802900233

listak.is


Listhópurinn Rösk Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu

27460033_1739045976117237_8307397891239364534_n

Þriðjudaginn 20. febrúar kl. 17-17.40 heldur listhópurinn Rösk Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Listin, gjörningar og gleði. Í fyrirlestrinum mun hópurinn, sem samanstendur af Brynhildi Kristinsdóttur, Dagrúnu Matthíasdóttur, Jonnu (Jónborgu Sigurðardóttur) og Thoru Karlsdóttur, fjalla m.a. um hvernig ólíkar aðferðir þeirra sem einstaklinga kalla fram hugmyndaferli og samvinnu í listsköpun. 

Sýningar Rösk gera gestum kleift að taka þátt og máta sig við listaverkin. Þar með myndast skemmtilegt samtal milli gesta og listaverkanna. Birtingarmynd þess samtals verður leikur, dans og látbragð sem auðgar sýningarnar lífi og gleði. Gjörningur sem gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri.

Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ, Finnur Friðriksson, dósent í íslensku, Herdís Björk Þórðardóttir, hönnuður og Jeannette Castioni, myndlistarkona, og Ólafur Guðmundsson, leikari.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband