Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014
11.8.2014 | 19:42
ANÍTA HIRLEKAR SÝNIR Í HVÍTSPÓA ART GALLERÝ
VERIÐ VELKOMIN Á OPNUN SÝNINGU ANÍTU HIRLEKAR Í HVÍTSPÓA ART GALLERÝ Á AKUREYRI
FIMMTUDAGINN 14. ÁGÚST KL. 20:00
Á sýningunni sýnir Aníta masterslínu sína úr Central Saint Martins í London.
Í línunni leikur Aníta sér að því að nota hefðbundnar handversk aðferðir á nútímalegan hátt
og er útkoman listrænn glamúr með áherslu á óvenjulegar litasamsetningar, sterkan persónuleika og hreinar, kvenlegar línur. Á sýningunni má sjá átta alklæðnaði og eru allar flíkurnar handsaumaðar.
Aníta flutti frá Akureyri til London árið 2006 til að hefja nám í Central Saint Martins í London. Hún lauk BA gráðu árið 2012 í fatahönnun með áherslu á print og útskrifaðist með mastersgráðu árið 2014 með sérhæfingu í textíl.
Masterslína hennar var valin til sýninga á London Fashion Week fyrir Haust/Vetur 2014.
Anita vann nýlega til virtra verðlauna fyrir línuna á International Talent Support á Italíu, sem er alþjóðleg keppni sem styður við unga hönnuði.
Aníta hefur víðtæka reynslu á sviði hönnunar og hefur m.a. starfað hja Diane Von Furstenberg og J Crew í New York, Christian Dior í París, Ashish Gupta í London og Diesel á Ítalíu. Einnig vinnur hún sjálfstætt fyrir ítalskt tískuhús sem listrænn ráðgjafi.
Fjallað hefur verið um hönnun Anítu m.a. á Vogue UK, Style.com, Vogue Italia, I D magazine, Anothermag.com, Stylebubble, Showstudio.com og Elle UK.
https://www.facebook.com/events/1465495657041048
7.8.2014 | 20:12
Hekla Björt Helgadóttir opnar sýninguna Kyrrhuga í Populus Tremula
Stundum hef ég ekkert nema fallvalta trú á eigin bein....
að þau standi, að þau haldi...
á meðan brotsjórinn dynur...
hvar ertu til að segja mér að ég hafi það af?
svo oft sem ég óska að þú yrðir tjald...
vildirðu vera tjald?
í þetta eina sinn?
vildirðu breiða úr þér yfir mig...
og lofa mér að róa undir stilltum himni þínum?
reiðin er ekki verst...
reiðina má setja í glas og skála, fyrir styrjöld
þá er henni fagnað með reisn...
og reiðina má svæfa með perlum, fullum af doða...
svo stefnulaust reki dagarnir áfram...
án minnis um hnífsblöð...
hvar ertu þegar ég þarfnast þín?
ég þrauka... ég hef alltaf þraukað...
á meðan allir brostu yfir nekt minni...
brostu og eignuðust börn í brotsjó...
vildi ég þrauka...
því ég trúði að þú kæmir og leiddir mig í hvarf....
og ég stend... þú veist ég stend...
ég stend og ég skelf
á meðan ég brosi og spyr þau um öll þessi börn
sem þau ólu í brotsjó...
þessi börn verða hryðjuverkamenn og kónar...
þau munu særa, serða og sýkja...
en við brosum yfir því...
og lofum þessa brjálæðinga framtíðarinnar...
svikarar! með sýkt blóð
gefa aldrei með sér... þau komu í heiminn til að taka, sýkja
og geta af sér önnur börn í brotsjóinn
en já... ég veit...
ég lýg og sýki líka...
ég er hryðjuverkamaður og kóni...
ég er brjálæðingur sem lætur sig dreyma um byltingu,
til að fella stoðir sem jafnóðum rísa...
hef ég ekki löngu lært hvernig heimurinn baðar sig
í brotsjó?
hvernig heimurinn baðar börnin sín?
hin eilífa endurtekning...
hví ætti ég að þykjast betri... eða verri...?
það er enginn að leita að píslarvætti
í öðrum en sjálfum sér...
því allt snýst um að hafa það af
í þessum vægðarlausa öldugangi...
undir salthnefum og stáli...
og ég stend... þú veist ég stend...
kyrrhuga í brotsjó...
og brosi á meðan ég skelf.
-hekill 2014
Hekla Björt hefur lengi fengist við myndlist og ljóð og sameiningu miðlanna tveggja. Hún starfrækir Gallerí Geimdós á vinnustofu sinni í Gilinu og þar hefur hún boðið fjölda listamanna að sýna við ljóð sem hún sjálf hefur skrifað. Hún hefur tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum en einnig staðið að einkasýningum, nú síðast í Mjólkurbúðinni í Listagilinu þar sem hún sýndi þrívíða skúlptúra í gömlum skúffum. Hún hefur einnig starfað sem listrænn hönnuður fyrir Leikfélagið á Akureyri, Listasafnið á Akureyri og á fuglasafninu á Húsabakka. Í vor setti Hekla svo upp sviðslistaverkið Herba Humana í Samkomuhúsi Leikfélags Akureyrar.
Laugardaginn 9. ágúst opnar Hekla sýninguna Kyrrhuga í Populus Tremula klukkan 14:00. Einnig verður opið sunnudaginn 10. ágúst.
Sýningin verður óhefðbundin og miðar fyrst og fremst að upplifun áhorfenda.
Allir eru hjartanlega velkomnir í Kyrrhuga Kapellu
https://www.facebook.com/events/697332977020098
Næstkomandi sunnudag, 10. ágúst, kl. 15-16 mun Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) halda fyrirlestur í Ketilhúsinu um starfsferil Gísla B. Björnssonar í grafískri hönnun síðastliðna fimm áratugi. Goddur er prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og hefur um árabil stundað rannsóknir á íslensku myndmáli og táknmyndum í auglýsingum.
Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af síðustu dögum yfirlitssýningar Gísla B. í Ketilhúsinu, Fimm áratugir í grafískri hönnun, sem lýkur 10. ágúst.
Gísli B. er einn atkvæðamesti grafíker íslenskrar hönnunarsögu. Hann hefur komið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi og er höfundur margra þekktustu vörumerkja landsins. Hann setti á fót auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar eftir nám í Þýskalandi 1961 og ári síðar stofnaði Gísli sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands þar sem hann kenndi óslitið í fimm áratugi.
Aðgangur er ókeypis.
https://www.facebook.com/events/354989564650236