Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014
13.5.2014 | 20:13
Halldóra Helgadóttir sýnir í Mjólkurbúðinni
Halldóra Helgadóttir opnar málverkasýninguna AF JÖRÐU í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri laugardaginn 17. maí kl. 14.
Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna eru verkin unnin út frá áhrifum náttúru landsins
Undanfarin ár hefur Halldóra beint sjónum sínum að því smálega í náttúrunni, stækkað það upp og sett í nýjan búning.
Viðfangsefnin eru hraun, mosi og blóm sem við lítum oft á sem illgresi en eru þó svo sterk ímynd íslenskrar náttúru.
Sýning Halldóru Helgadóttur stendur til 1. júní og verður opin fim. - sun. frá kl. 14 - 17.
Allir velkomnir.
Menning og listir | Breytt 14.5.2014 kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2014 | 15:06
Listamannsspjall og sýningarlok í Flóru
Helga Sigríður Valdemarsdóttir
Þræðir
22. febrúar - 17. maí 2014
Sýningarspjall fimmtudaginn 15. maí kl. 20-21
Sýningarlok laugardaginn 17. maí
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168
http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/758529120866678
Fimmtudagskvöldið 15. maí kl. 20-21 verður Helga Sigríður í listamannsspjalli í Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri og allir eru velkomnir.
Nú eru einnig síðustu forvöð að sjá sýningu Helgu Sigríður Þræðir en hún hefur verið framlengd til 17. maí.
Helga Sigríður er fædd á Akureyri árið 1975. Hún útskrifaðist úr VMA af myndlista- og handíðabraut og er með diploma í myndlist frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Helga hefur tekið þátt í samsýningum Myndlistarfélagsins og haldið nokkrar einkasýningar og sýningin í Flóru er hennar sjöunda einkasýning.
Á sýningunni gefur að líta málverk sem Helga Sigríður hefur unnið á þessu ári.
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til laugardaga kl. 12-16.
Næsta sýning í Flóru er á verkum Kristínar G. Gunnlaugsdóttur og opnar hún 14. júní.
Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.
12.5.2014 | 14:59
Kjólandi í Populus tremula
Laugardaginn 17. maí kl. 14.00 verður opnuð myndlistarsýningin Kjólandi í Populus tremula.
Þar leiða saman kjóla sína listakonurnar Brynhildur Kristinsdóttir, Dagrún Matthíasdóttir, Jónborg Sigurðardóttir og Þóra Karlsdóttir.
Sýningin er einnig opin sunnudaginn 18. maí frá 14.00-17.00.
Aðeins þessi eina helgi. ALLIR VELKOMNIR.
Myndlistakonurnar fjórar hafa unnið saman í listum áður og eftir að hafa fengið inni í Populus Tremula var ákveðið að viðfangsefni sýningarinnar yrði unnið út frá einu orði. Orðið KJÓLANDI varð fyrir valinu og þær spinna sýninguna út frá því með möguleika rýmisins að leiðarljósi. Þær Brynhildur, Dagrún, Jónborg og Thora vinna á ólíkan hátt í myndlistinni en eru samstíga í bæði hugmyndaferli og í samvinnu í listum. Sýningin KJÓLANDI samanstendur af þrívíðum verkum sem unnin eru í ólík efni og aðferðir með það í huga að sýningargestir geti mátað sig við verkin og gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn.
Um verkin á sýningunni KJÓLANDI:
Brynhildur: Svífið hvítu álftir. Fljúgið hátt í mínum kjól. Hér eru hjörtu sem af hamingju sá.
Dagrún: Kom fagnandi kjólandi og far dansandi brosandi út lífið.
Thora: Kjólandi hversu margir sem þér eruð, fyrirgefandi, hylur og skilur hvaða ástand sem er.
Jónborg Sigurðardóttir : Kjóll er kjóll og ekkert annað, endurvinnslukjóll.
Menning og listir | Breytt 13.5.2014 kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2014 | 09:46
Opnun ljósmyndasýningar á Bókasafni HA
Mengun í lífkerfi sjávar Verur í viðjum
Maribel Longueira
Staður: Bókasafn Háskólans á Akureyri
Stund: Fimmtudagur 8. maí, kl. 16.00.
Við erum fólk á krossgötum sögunnar og ögurstundu fyrir framtíð jarðarinnar. Sambúð manna og umhverfis og þáttur þeirra í verndun eða eyðileggingu náttúrunnar er hnattrænt viðfangsefni. Myndunum er ætlað að vekja okkur til umhugsunar um þennan veruleika.
Á sýningunni er að finna myndir eftir spænsk-galisísku listakonuna og ljósmyndarann Maribel Longueira. Í myndunum er fléttað saman ásýnd barna, kvenna og karla sem tilheyra mismunandi kynþáttum, og hlutum sem standa fyrir sóun sem viðgengst í menningu okkar. Listakonan vinnur með eld og eyðileggingu náttúrunnar og umbreytir slíkum ímyndum í nýjar sjónrænar myndlíkingar. Augu sjáandans opna glugga og birta okkur tálsýnir um möguleika á öðrum og öðruvísi heimi.
Eiginmaður Maribel er galisíska skáldið Francisco X. Fernández Naval og verður hann með í för. Við opnun sýninganna mun hann flytja nokkur ljóð sem tengjast efni sýningarinnar.
Að sýningunni standa Stofnun Vilhjálms Stefánssonar í samstarfi við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Bókasafn Háskólans á Akureyri. Sýningin nýtur styrks frá Þróunarsjóði EFTA EEA.
Sýningin verður opin fram eftir sumri á Bókasafni Háskólans á Akureyri. Sýningin er öllum opin.
Bókasafn Háskólans á Akureyri
Sólborg, Norðurslóð 2
IS-600 Akureyri, Ísland
Sími: 460 8050/4608060
5.5.2014 | 12:24
KAÞARSIS víxlverkun í Populus tremula
Laugardaginn 10. maí kl. 18.00 til miðnættis opna tíu listamenn sýningu í Populus tremula og túlka verk hvers annars og útfæra í hinum ýmsu miðlum.
Dj Delightfully Delicious þeytir skífum fram eftir kvöldi.
Listamennirnir sem sýna eru: Agnes Ársælsdóttir, Axel Flóvent, Borgný, Dagný Lilja, Halla Lilja, Karólína Rós, Kristófer Páll, Lena Birgisdóttir, Úlfur og Þórður Indriði.
Sýningin er einnig opin sunnudaginn 11. maí frá 14.00-17.00.
Aðeins þessi eina helgi.
https://www.facebook.com/events/791691124176395
1.5.2014 | 16:51
Georg Óskar Giannakoudakis sýnir í Geimdósinni
Geimdósin kynnir næstu opnun og geimfara:
Georg Óskar Giannakoudakis (1985) og sýninguna
Svo frjáls.
Óskar hefur hlotið mikið lof og eftirtektir fyrir verk sín og samstarfið GÓMS, ásamt Margeiri Dire. Verk hans er hægt að skoða nánar á heimasíðunni: http://georgoskar.com/home.html
Dósin fékk Óskari eftirfarandi ljóð eftir Heklu Björt, að vinna með og verður afraksturinn til sýnis í Geimdósinni, laugardaginn 3. maí:
Og svo verðum við frjáls
Við stöfluðum nokkrum þúsundum reiðhjóla
á þök visnaðra sovétblokka.
Við kveiktum í hjólunum
og fórum svo á bát út á hafið
til að horfa á hrúgurnar brenna.
Þú leist á mig og spurðir: og verðum við svo frjáls?
ég þagði... og eldhafið litaði nóttina yfir þér.
Hinum meginn í firðinum, voru tveir hvítir hestar.
Hauslausir á ströndinni, á harðahlaupum inn í myrkrið.
Ég leit á þig og sagði: Svo verðum við frjáls.
-Hekla Björt 2013
Ljóðið er lýsing úr draumi, og fæst við þá ógn og eftirvæntingu að æða inn í óvissuna. Hvað tekur við og hvað er þarft að losa sig við áður en haldið er áfram og lengra?
Þegar við hugsum um framtíðina, hugsum við í skáldskap, því framtíðin hefur aldrei átt sér stað. Við búum hana til eins og skáldskap og listaverk. Við vitum aldrei hvað hún ber í skauti sér, en okkur er frjálst að dreyma um hana og skálda hana í eigin hugarfylgsnum.
Dósin spurði Óskar út í vinnu sína og vinnubrögð og hvernig textinn orkar á hann sem efniviður.
Óskar segir:
"Ég vinn mikið með æskuminningar, blanda þeim með nýlegri eða núverandi reynslu, þannig að útkoman verður alltaf sönn saga en með vissum skáldskap, því þar sem fortíð og nútíð mætast, þar er plássið fyrir sköpun.
Ég hef aldrei haldið dagbók, en ég hef lært að lokið listaverk er fullkomin dagbók.
"Mér finnst mjög ánægjulegt að grafa inn í undirvitund okkur með þeim aðferðum sem list hefur uppá að bjóða. Það eru svo margar faldnar hliðar lífsins sem er ekki hægt að ná með öðrum hætti. List er sálgreining á sjálfan sig, aðra menn og samfélagið. Í dag krefst heimurinn stöðugt að við að tökum eftir hvar við erum en ekki hver við erum, hann er hávær, og við erum mörg hver fyrirbæri í auglýsingabransanum. Það eru engin ljóð í slíkum hlutum. Ég leita af nýrrar reynslu af einföldum, daglegum hlutum en galdurinn er auðvitað að taka eftir þeim því þarna hafa þeir alltaf verið. Á daginn safna ég upplýsingum sem flestir myndu varla sjá merkilega og eða mikilvæga, og skrái þessa reynslu á striga. Titlar af einstökum verkum eru oftast fædd á sama hátt."
Dósin býður alla velkomna á opnunina næsta laugardag klukkan 15:00. Léttar veitingar verða í boði. Á sama tíma verður svo opnun Lilýar Erlu, Samtvinnað, í Deiglunni og Gilið mun bjóða upp á sól og svalandi menningu.
GEIMDÓSIN, Kaupvangsstræti 12. Listasafnshúsið/gengið inn úr portinu fyrir ofan, baka til.
https://www.facebook.com/geimdosin
https://www.facebook.com/events/289908191169422/