Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
15.8.2013 | 10:37
Guðbjörg Ringsted opnar yfirlitssýningu í sal Myndlistarfélagsins
Myndlist í 30 ár.
Guðbjörg Ringsted opnar yfirlitssýningu á verkum sínum í sal Myndlistarfélagsins á Akureyri þann 17. ágúst kl. 14.
Guðbjörg útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982 og vann við kennslu og gerð grafíkmynda og teikninga í nokkur ár. Árið 2007 sneri hún sér að málverkinu og hefur viðfangsefni Guðbjargar síðustu ár verið íslensku útsaumsmynstrin af þjóðbúningi kvenna þar sem mynstrin öðlast sitt eigið líf.
Sýningin stendur til 1. September.
Menning og listir | Breytt 19.8.2013 kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2013 | 14:52
Janne Laine og Stefán Boulter opna sýningu á Listasafninu á Akureyri
Opnun í Listasafninu á Akureyri 17. ágúst
ANAMNESIS / SILENCE
Janne Laine og Stefán Boulter Laugardaginn 17. ágúst kl. 15 opnar í Listasafninu á Akureyri sýning á verkum listamannanna Janne Laine og Stefáns Boulter. |
Menning og listir | Breytt 19.8.2013 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2013 | 14:00
Gunnar Kr. Jónasson sýnir í Populus tremula
Laugardaginn 17. ágúst kl. 14.00 opnar Gunnar Kr. Jónasson sýninguna tvý-þrý í Populus tremula.
Á sýningunni verða ný verk, unnin á og í þykkan handgerðan pappír. Listamaðurinn kallar þau hálfgildingsverk.
Gunnar Kr. hefur fyrir löngu getið sér orðs fyrir myndlist á ýmsum vettvangi en einkenni hans eru abstraktverk með kraftmiklum formum og sterkum andstæðum.
Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 18. ágúst kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.
9.8.2013 | 16:19
Þórdís Alda Sigurðardóttir sýnir í Ketilhúsinu
Laugardaginn 10. ágúst kl. 15 opnar Þórdís Alda Sigurðardóttir glæsilega og áhugaverða sýningu í Ketilhúsinu á Akureyri. Þórdís sækir efnivið sinn og hugmyndir í ,,dótakassa samtímans með öllum þeim efnum, hlutum, tækjum, tólum og klæðum sem er hið raunverulega, daglega sjónarspil stórs hluta mannkyns.
Sjónlistamiðstöðin er opin ALLA DAGA NEMA MÁNUDAGA frá kl. 9-5 og er aðgangur ókeypis.
Meira á www.sjonlist.is
7.8.2013 | 21:37
Ljósmyndasýning í Populus Tremula
Á laugardaginn verður opnun ljósmyndasýningar í Populus Tremula þar sem Daníel Starrason og Magnús Andersen sýna saman myndir sem þeir hafa tekið af tónlistarfólki. Myndirnar eru ýmist teknar sem kynningarefni fyrir tónlistarfólk eða af frumkvæði ljósmyndarana. Magnús er búsettur í Reykjavík og Daníel á Akureyri og á myndunum verður að finna hljómsveitir og tónlistarfólk frá hvorum stað.
Opnun sýningarinnar er kl. 14 á laugardaginn og þar munu Daníel og Inga Eydal flytja nokkur lög. Kl. 21 hefjast svo tónleikar þar sem nokkrar norðlenskar hljómsveitir og tónlistarfólk flytja tónlist sína en þar koma fram:
Þorsteinn Kári
Pitenz
Hindurvættir
Buxnaskjónar
Naught
Sýningin er opin 14-17 á laugardag og sunnudag. Aðeins þessa einu helgi.
Daníel Starrason
Magnús Andersen
7.8.2013 | 11:36
Guðrún Pálína Guðmundsdóttir opnar sýningu í Kartöflugeymslunni
Guðrún Pálína Guðmundsdóttir bæjarlistamaður Akureyrar 2013 opnar myndlistarsýninguna Rými, í Kartöflugeymslunni, Kaupvangsstræti 29, efst í Listagilinu á Akureyri þar sem arkitektastofan Kollgáta er. Sýningin opnar laugardaginn 10 ágúst kl. 15 og er hún opin alla daga á milli klukkan 14-16. Á sýningunni eru málverk sem öll fjalla um rýmið í víðum skilningi. Sýningin stendur út mánuðinn.
Málverkin fjalla um rými í víðri merkingu. Orðið er eins í eintölu og fleirtölu og á því vel við hér. Í tungumálinu er talað um að skapa sér rými, einnig um almenningsrými, einkarými, andrými, tómarúm og fl. og gefur það til kynna þörf fyrir að skilgreina rýmið utan og innra með einstaklingnum. Við flokkum hluti og skiptum þeim niður í hólf eða einhverskonar huglægt rými. Oft er einstaklingunum skipt eftir menntun, aldri, kyni og stjórnmálaskoðun.
Grunnþáttur þess að gera mynd er að skapa rými á persónulegan hátt með litum og myndbyggingu. Hver litur hefur sína eigin rýmisskynjun, sumir litir, þeir köldu víkja og þeir heitu koma fram. Ljós og myrkur hafa líka mikil áhrif á það hvernig maður skynjar rýmið, ásamt hitastigi og litum.
Þar sem þessi sýningarsalur er í arkitektastofu sem er byggð inn í brekkuna þá fannst mér tilvalið að sýna þessa myndaseríu frá 1994-1995 sem ég hef aldrei sýnt áður sem heild.
Að breyta gamalli kartöflugeymslu í nútíma arkitektastofu og sýningarsal finnst mér vel heppnuð breyting á notagildi og endurbyggingu rýmis. Í því rými fannst mér ég loksins eftir nær 20 ár finna passandi rými fyrir málverkin, þar sem útlit og innihald verkanna passaði við sjálft sýningarrýmið.
Menning og listir | Breytt 8.8.2013 kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2013 | 21:45
Lára Stefánsdóttir opnar ljósmyndasýningu í Mjólkurbúðinni
Lára Stefánsdóttir opnar ljósmyndasýninguna Snævi þakið í Mjólkurbúðinni Listagili laugardaginn 10.ágúst kl. 14.
Hið hvíta landslag vetrarins er afar fjölbreytt og mótar umhverfið í Ólafsfirði oft langan tíma vetrar. Landslagið sem undir er breytist, land með skurðum eða lækjum verður rennislétt, skaflar draga sig upp og það sem áður var slétt verða hæðir og hólar. Vindurinn og hitinn móta mynstur og fleti. Stundum gægist upp einmana staur eða girðing, dálítil þúfa eða steinn. Minimalískt umhverfið með snarbröttum fjallshlíðum í kring skapar andstæður sem stormurinn næðir um. Sólin nær ekki að skína í tæpa tvo mánuði en litir sólarlags og sólarupprásar skreyta himininn.
Þegar vorar bráðnar snjórinn og hvar sem er birtast kynjamyndir sem segja sögur, fátt er skemmtilegra en lesa í frásagnir fjallanna.
Í stað þess að bíða vors er vert að njóta hins snævi þakta landslags.
Lára Stefánsdóttir lærði í Academy of Art University í San Francisco þar sem hún tók MFA (Master of Fine Art) í listljósmyndun. Hún hefur haldið sýningar í bæjunum á Tröllaskaga; Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði, á Akureyri, í Reykjavík og í St Paul í Minnesota í Bandaríkjunum. Viðfangsefnin eru náttúran, tákn og sögur. Flestar ljósmyndir hennar eiga sér sögur sem hún er stundum til í að segja frá. Hún er skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga og kennir þar einnig listljósmyndun.
sýningin er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og stendur 10.-18.ágúst
Lára Stefánsdóttir
6.8.2013 | 10:44
Sigrún Guðmundsdóttir opnar sýningu í Flóru
Sigrún Guðmundsdóttir
Nætur(b)rölt
10. ágúst - 28. september 2013
Opnun laugardaginn 10. ágúst kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/1405164826365683
Laugardaginn 10. ágúst kl. 14 opnar Sigrún Guðmundsdóttir sýningu sem nefnist Nætur(b)rölt í Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri.
Á opnuninni mun Sigrún kynna bók sína sem ber sama titil, en hugtök verka hennar endurspeglast á ákveðinn hátt í sögunni.
Bókin samanstendur af örsögum og hugrenningum sem saman mynda eina smásögu. Við fylgjum sögupersónunni eftir yfir eina nótt á flakki á milli hugarheima og staða.
Sigrún Guðmundsdóttir býr og starfar í Hollandi. Hún lauk myndlistarnámi frá AKI í Enschede árið 2008 en var einnig í skiptinámi í School of the Museum of Fine Arts í Boston. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum í Hollandi og sýningin í Flóru er hennar sjöunda einkasýning.
Upplýsingar um Sigrúnu og verk hennar má finna á heimasíðunni www.sigrungudmundsdottir.com
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til föstudaga kl. 11-18 og laugardaga kl. 13-16 og stendur til laugardagsins 28. september 2013.
Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)