Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Myndlistarsýning við matjurtargarða Akureyrarbæjar

img_7367.jpg

Laugardaginn 23. júní kl. 15-17 opnar myndlistarsýning við matjurtargarða bæjarins sem eru við gömlu gróðrarstöðina á Krókeyri í Innbænum, (ofan við Iðnaðar- og Mótorhjólasöfnin).
Sýningin er hluti verkefnis Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur myndlistarmanns og Jóhanns Thorarinsens garðyrkjufræðings, sem nefnist Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar.

Verkefnið hófst 2010 og var í kjölfarið valið til norrænu menningarráðstefnunnar Nordmatch í Helsinki fyrir Íslands hönd. Þá tóku fimm myndlistarmenn þátt í sýningunni og einn félags- og garðyrkjufræðingur. Í ár hefur sýningin stækkað og bætt við sig leikmönnum og listnemum og eru þeir samtals ellefu. Þátttakendur í sýningunni eru Arna G. Valsdóttir, Hlynur Hallsson, Kristín Þóra Kjartansdóttir, Þórarinn Blöndal, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, Joris Rademaker, Sigrún Héðinsdóttir, Júlía Runólfsdóttir, Hugi Hlynsson, Viktor Hollanders og Ívar Hollanders.

Afmælisnefnd Akureyrar vegna 150 ára afmælis bæjarins og Eyþing styrktu verkefnið. 26. ágúst verður svo uppskeruhátíðin þegar menn geta gætt sér á uppskerunni, ásamt því að hlýða á fyrirlestra um myndlist, gróður og ræktun.
Allir eru velkomnir.


Yst sýnir í Bragganum í Öxarfirði

gegnsaei3.jpg

Gegnsæi – til hvers?

Sýning Ystar í Bragganum í Öxarfirði
hefst 23ja júní og stendur til 9. júlí.

Er eitthvert gagn af rýni?  
Sjáum við í gegnum þetta? -eða
sjáum við í gegnum fingur og látum leikflétturnar ráða för?

Kynnt verður bókverkið Til hennar þar sem ljóðskáldið Jónas Friðrik og Yst leiða saman verk sín með menningarstyrk frá Norðurþingi og Eyþingi.


Rósa Njálsdóttir sýnir í Deiglunni

deiglan

Glæsileiki, fegurð, fágun, kynþokki - tónlistin, tískan, hattarnir, kjólarnir, hárgreiðslan - demantar, daður og dramatík – allt einkennir þetta The Golden Age of Hollywood sem hófst 1927 með frumsýningu The Jazz Singer og stóð fram yfir 1960. Þessi gullaldartími kvikmyndagerðar í Hollywood er innblástur sýningar Rósu Njálsdóttur, Stjörnublik, sem opnar kl. 13 laugardaginn 16. júní í Deiglunni á Akureyri. Þar gefur að líta portrett myndir af þeim leikurum og leikkonum - aðeins brot af þeim bestu - sem heilluðu heimsbyggðina hér áður fyrr og gera enn. Myndirnar eru ýmist í lit eða svart/hvítu, málaðar með olíu á striga. Rósa hóf nám í olíumálun árið 2004 og er þetta hennar fjórða einkasýning.

Sýningin verður opin kl. 13-17 frá 16. júní - 1. júlí, alla daga nema mánudag og þriðjudaga.


Birgir Sigurðsson opnar sýningu í Flóru

birgir_sy_769_ning.jpg

Laugardaginn 16. júní kl. 14 opnar Birgir Sigurðsson myndlistarsýningu sem nefnist „Reynslusaga matarfíkils” í Flóru í Listagilinu á Akureyri. Sýningin er vídeo-innsetning sem gefur áhorfandanum innsýn inn í heim matarfíkils. Gjörningurinn „Reglugerð um ofát” verður fluttur kl. 14.

„Efniviður sýningarinnar er upplifun mín og reynsla af matarfíkn“ segir Birgir. „Sýningin er þakklæti til matarfíknarinnar sem hefur skipt mig miklu máli í mínu lífi. Mér finnst engin þörf á að tala um þyngd, þyngdartap eða annað sem snýr að þyngd líkamans. Ég er að fjalla um næturátið mitt og hvernig það hefur birst mér allt mitt líf: Ég vakna til að borða og get ekki hætt.“
Birgir Sigurðsson er menntaður rafvirki og er að mestu sjálfmenntaður í myndlist. Hann hefur á undaförnum 14 árum haldið fjölmargar myndlistarsýningar og rekur nú 002 Gallerí á heimili sínu í Hafnarfirði.  
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru og stendur til laugardagsins 7. Júlí 2012. Einnig verður boðið upp á listamannaspjall með Birgi Sigurðssyni, fimmtudaginn 5.júlí kl. 20.00.

Nánari upplýsingar veitir Birgir í síma 867 3196 í pósti 002galleri@talnet.is

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.

birgir.jpg

Birgir Sigurðsson
Reynslusaga matarfíkils
16. júní - 7. júlí 2012
Opnun og gjörningur laugardaginn 16. júní kl. 14
Flóra, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri


Mystic

Laugardaginn 9. júní klukkan 15:00 opnar Kolbrún Róberts sýningua sína „Mystic“ í Sal Myndlistarfélagsins að Kaupvangstræti 10.

268600_2091822828099_1621119977_2082337_5793279_n

Á sýningunni verða olíumálverk af íslenska hestinum annars vegar og hins vegar fossum, sólarlögum, Búddah og gyðjum bænar og friðar. Þessi sýning er ferð milli tveggja heima þar sem eldur, vatn, jörð og andvari sameinast huga, sál og líkama. Þar sem íslenski hesturinn og Búddah eru tákn jarðtengingar, gyðjurnar og Búbbah tákn huga, sálar og líkama og fossar ásamt eldrauðu sólarlagi tákn elds, vatns, jarðar og himins.

Sýningin stendur til 24. júní og er opin um helgar frá 14:00 til 17:00 og á opnunartíma skrifstofu félagsins miðviku- fimmtu- og föstudaga milli 13:00 og 17:00.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband