Safngestaráð Safnasafnsins á Svalbarðsströnd

SAFNASAFNIÐ - ALÞÝÐULIST ÍSLANDS
 
Safnasafnið á Svalbarðsströnd hefur stofnað Safngestaráð, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Því er ætlað það hlutverk að hafa jákvæð áhrif á starfsemi safnsins, vega það og meta og hugleiða verkefni sem gætu orðið því til framdráttar. Í ráðinu sitja:  Hlynur Hallsson, myndlistarmaður og formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna, og Sigríður Ágústsdóttir, leirkerasmiður og leiðsögumaður, Akureyri; Bryndís Símonardóttir, fjölskylduráðgjafi, Háuborg í Eyjafjarðarsveit; Ingibjörg Svafa Siglaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrum safnstjóri í Laufási, Grenivík; Völundur Jónsson, ljósmyndari, Mógili 1, Svalbarðsströnd; Guðfinna Magnúsdóttir, vöruhönnuður og kennari við Listaháskóla Íslands og Huginn Þór Arason, myndlistarmaður og stjórnarmaður í Nýlistasafninu, Reykjavík.


SAFNGESTARÁÐ
 
Safngestaráð er skipað 7 einstaklingum, 5 búsettum á Norðurlandi eystra, 2 á höfuðborgarsvæðinu, sem eru n.k. fulltrúar fyrir gesti eða markhópa Safnasafnsins; þeir mega hvorki vera skyldir né tengdir fólki í stjórn þess. Ráðið er myndað til 3ja ára, og framlengist tíminn um 1 ár í senn. Það starfar sjálfstætt án afskipta safnstjórnar, en þróar verkefni sín í samræmi við neðangreint - og stendur til boða aðstaða til fundarhalda í safninu hvenær sem er.
 
Safngestaráð Safnasafnsins er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, einstaklingar innan þess búa yfir mikilli reynslu og menntun sem gerir þeim kleyft að sinna starfi sínu af faglegri hæfni
Ekki er leitað fyrirmynda erlendis um safngestaráð (Visitor Panel) því verksvið þeirra er of þröngt; í söfnunum eru sérfræðingar á flestum sviðum, sýningar gagnrýndar í fjölmiðlum, og því ekki mikil þörf á utanað komandi aðstoð.
 
Safngestaráð gegnir ábyrgðar- og virðingarstöðu og mun með starfi sínu, að öllum líkindum, hvetja til stofnunar nýrra ráða, og vekja athygli einstaklinga og fyrirtækja á Safnasafninu, og öðrum söfnum og menningarstofnunum þjóðarinnar um leið. Safngestaráð getur því mótað viðhorf almennings til safna í framtíðinni.

Safngestaráði er ætlað það hlutverk að hafa jákvæð áhrif á starfsemi safnsins, gagnrýna það og meta; hugleiða ný verkefni sem þarfnast hugkvæmni og eftirfylgni; koma með uppástungur um kaup á kjörgripum sem safnstjóra er ókunnugt um; og jafnvel taka þátt í umræðum um starfsstefnu safnsins á komandi árum.

Safngestaráð fær vinnumöppu, í henni er: Atriðaorðaskrá(Gátlisti); Flokkun listasafna á Íslandi eins og þau kynna sig og starfa; Hugmyndasmiðja æskunnar; Hugmyndir - Fræðsla - Miðlun; Hringferill myndlistar, 16 þátta greiningarkerfi (útdráttur); Konurnar og safnið; Lán á safngripum samkvæmt gjafabréfum, varðveislusamningum og Safnalögum; Nýmæli - Frumkvæði - Jafnrétti; Siðareglur Alþjóðaráðs Safna, ICOM (útdráttur); Sjóðir; Skipulagsskrá; Starfslýsingar; Starfsstefna 2009-2013 (endurskoðuð árlega); Söfnunarstefna; Sýningastefna; Söfn, safnvísar, setur og einstaklingar sem varðveita íslenska alþýðulist; Umsagnir og ummæli
Safngestaráð fær fréttir af starfsemi safnsins og getur leitað eftir nánari upplýsingum á skrifstofu þess.

Safngestaráð metur m.a. aðgengi inni og úti, þarfir og aðstöðu fatlaðra, merkingar, fylgitexta, orðanotkun, þýðingar, sýningar og sýningaskrár, leiðsögn og skemmtun, bókastofu, sýnileg skólaverkefni, vörulínur, veitingar og verðlag, samspil á milli sýninga og hæða, áherslur, flæði, liti og sjónlínur (sjá nánar í Atriðaorðaskrá/Gátlista).

Safngestaráð getur, ef það vill, skilgreint markhópa safnsins og aldurssamsetningu og kannað hvernig hægt sé að ná til fleiri einstaklinga og hópa, innlendra sem erlendra. Í því samhengi hugar það að félagslegri, hugmynda- og fagurfræðilegri stöðu safnsins, og hvernig megi nýta hana til laða fólk að safninu eða kynna það sem víðast
Ekki er gert ráð fyrir umræðum um hjúskap, kynhneigð, nám, starf, tekjur, trú, fötlun og veikindi (Persónuvernd).

Safngestaráð kynnir niðurstöður sínar fyrir safnstjórn, sem semur spurningarlista á grundvelli þeirra, en að auki verða skráðar hugmyndir gesta um safnið og viðbrögð þeirra við því sem það býður upp á. Listarnir verða látnir liggja frammi í safninu um sumarið og gestir beðnir um að svara þeim. Mat Safngestaráðs og niðurstöður kannana verða strax kynntar á vefsíðu, sendar fjölmiðlum, og birtar í ársskýrslu og sýningaskrá safnsins ári síðar.

Safngestaráð getur - að eigin frumkvæði - lagt fram hugmyndir um öflun viðurkenninga og styrkja fyrir t.d. erlent samstarf, listaverkakaup, upplýsinga- og tölvumál, leikfanga- og tækjakaup, viðgerðir og byggingarframkvæmdir.

Safngestaráð fær afslátt á vörum í Kaupfélagi Svalbarðseyrar (safnverslun), hátíðarkvöldverð í safninu og gjafir í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf. Meðlimir ráðsins sem eru búsettir fyrir sunnan njóta uppihalds í Safnasafninu á  meðan þeir starfa nyrðra (Maí/Júní er hentugur tími, því að þá er búið að prufukeyra sýningarnar).

Safngestaráð endurnýjar sig sjálft, ef einhver innan þess lætur af störfum; það getur leitað ráða hjá safnstjóra um nýjan einstakling. Ef ráðið ákveður að hætta starfsemi sinni áður en samningstími rennur út, eða ef safnstjóri telur ekki þörf á því lengur, ganga öll gögn til stjórnar Safnasafnsins, sem getur myndað annað ráð á þeim grunni síðar.

Safngestaráð getur, Safnasafninu að meinalausu, og ef áhugi er fyrir því, víkkað starfssvið sitt og boðið öðrum söfnum á Norðurlandi Eystra þjónustu sína (gegn þóknun), en þá verður líklega að breyta samsetningu þess og ofangreindum ákvæðum verulega til að koma til móts við þarfir jafn margra ólíkra stofnana og þar starfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband