Samkeppnin meðal myndlistarmanna um lýsingu í forsal Menningarhússins Hofs

menningarhus

Fasteignir Akureyrarbæjar efna til samkeppni um lýsingu í forsal Menningarhússins Hofs á Akureyri.

Verkið er ljós eða ljósgjafar til uppsetningar í forsal hússins. Samkeppnin er haldin til þess að laða fram lausn á lýsingu sem sameinar í senn listræna útfærslu á rýminu og notagildi og áhersla er lögð á að hugmyndir og keppnistillögur undirstriki arkitektúr hússins og aðra umhverfisþætti.

Gera má ráð fyrir fjölbreyttri notkun á Forsalnum en hann verður m.a. nýttur til móttökuathafna og sýningarhalds. Verkefnið getur hentað vel til samvinnu milli myndlistarmanna og hönnuða úr ólíkum greinum og eru væntanlegir þátttakendur hvattir til þess að huga að möguleikum í þá veru.

Samkeppnin er tvískipt:

A. Opin hugmyndasamkeppni

Þeir myndlistarmenn sem taka þátt í samkeppninni senda inn hugmynd að hönnun lýsingar í forsalnum. Myndræn framsetning hugmyndar þarf að rúmast á tveimur blöðum af stærðinni A4, en einnig á að fylgja með stutt greinargerð á einu A4 blaði um hugmyndina að baki verkinu, efnisval og uppbyggingu. Engin frekari gögn eiga að fylgja tillögunni á þessu stigi.

Hugmyndinni skal skila inn undir dulnefni, eins og nánar er lýst í skilmálum keppninnar. Hugmyndinni þarf að skila til Fasteigna Akureyrar, Geislagötu 9, 600 Akureyri fyrir kl. 16:00 föstudaginn 16. október 2009.

B. Lokuð samkeppni um hönnun og uppsetningu ljósa eða ljósgjafa

Þeir myndlistarmenn sem komast í þennan síðari hluta samkeppninnar eru beðnir um að útfæra hugmynd sína og koma með tillögu að verki. Þeir þurfa að skila tæknilegri lýsingu, gera nauðsynlega uppdrætti og lagnateikningar að verkinu og greina frá stærð þess og umfangi auk nákvæmrar staðsetningar á ljósum eða ljósgjöfum. Sundurliðun á kostnaði vegna uppsetningar verksins skal fylgja tillögunni. Þátttakendur í lokaða hluta samkeppninnar fá greiddar kr. 250.000.- hver, fyrir tillögugerðina. Þessi hluti samkeppninnar tekur tvo mánuði og er miðað við að tillögu að verkunum verði skilað til Akureyrarstofu, Geislagötu 9, 600 Akureyri, þann 8. janúar 2010.

Samið verður við höfund eða höfunda þeirrar tillögu sem verður hlutskörpust að mati dómnefndar um gerð og uppsetningu verksins. Byggingarnefnd ákveður að lokum hvort og þá hvaða tillaga verður keypt.

Samkeppnin fer fram samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Nafnleyndar keppenda er gætt við mat dómnefnda á innsendum hugmyndum og tillögum.

Nánari upplýsingar, samkeppnislýsing, myndir og teikningar eru að finna hér: http://www.menningarhus.is/samkeppni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband