Sýning Hlyns Hallssonar í Gallerí Víð8ttu601 sett upp aftur og framlengd

esb_hlynur.jpg

Gallerí Víð8tta601

Hlynur Hallsson

Landnám - Ansiedlung - Settlement

16.05. - 23.08. 2009

Verkið sem Hlynur Hallsson setti upp í Gallerí Víð8ttu hefur verið stolið í tvígang en vegna þrjósku listamannsins og sýningarstjóranna hefur það verið sett upp í þriðja skipti og sýningin verið framlengd um mánuð.

Litla Skerið í Tjörninni sem myndaðist þegar Drottningarbraut var lögð árið nítjánhundruð sjötíu og eitthvað er ónumið land. Tunglið var það einnig einu sinni og Norðurpóllinn og Suðurpóllinn líka. Hver verður fyrstur til að stíga á þetta Sker litið persónulegt skref en um leið stórt skref fyrir mannkynið? Ekki Bandaríki Norður Ameríku heldur auðvitað Evrópusambandið. Hið nýja heimsveldi er mætt á staðinn. Þar hefur verið settur upp fáni ESB, sannkallaður landnemafáni.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur verið iðinn við að setja upp sýningar og síðastliðið haust setti hann upp nokkurskonar yfirlitssýningu á verkum sínum í Nýlistasafninu og í A-sal Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur ásamt verslunum, veitingastöðum og þjónustufyrirtækjum í Miðborginni setti hann upp verkið ÚT/INN.
Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2006. Hann hefur hlotið starfslaun myndlistarmanna og var bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005. Hlynur vinnur með aðstæður, texta, innsetningar, ljósmyndir, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Hversdagslegir atburðir eins og sundferðir, snjóhúsbygging eða verslunarleiðangur geta verið efniviður í verkum hans en einnig landmæri, samskipti fólks og viðhorf okkar. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de

Anna Bryndís Sigurðardóttir og Þorsteinn Gíslason hafa starfrækt Gallerí Víð8ttu601 frá árinu 2007. Sýningarnar í Hólmanum í tjörninni í Innbænum á Akureyri munu halda áfram fram á næsta ár og þá taka aðrir sýningarstaðir við.

Sýningin hjá Gallerí Víð8ttu601 hefur verið framlengd til 23. ágúst 2009 og vonandi fær fáninn að vera í friði svo lengi. Nánari upplýsingar um Gallerí Við8ttu601 veita Anna Bryndís Sigurðardóttir og Þorsteinn Gíslason í 435 0033 eða 8461314 og í tölvupósti: vid8tta(hjá)simnet.is
Nánari upplýsingar um verkið veitir Hlynur í síma 6594744 og í tölvupósti: hlynur(hjá)gmx.net


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband