12.6.2009 | 12:42
Safnamörk, samsýning við Safnasafnið
Laugardaginn 13. júní kl. 14:00 verður opnuð sýningin Safnamörk í Reinum norðan við Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Huginn Þór Arason, Karlotta Blöndal og Unnar Örn J. Auðarson sýna þar verk unnin sérstaklega með garð Safnasafnsins í huga.
SAFNAMÖRK
samsýning í Reitnum norðan við Safnasafnið á Svalbarðsströnd
Huginn Þór Arason, Karlotta Blöndal & Unnar Örn
Daganna 13/6 -7/9 2009
Laugardaginn 13.júní kl.14.00 opnar í Reitnum norðan við Safnasafnið á Svalbarðsströnd sýningin Safnamörk. Þar munu myndlistarmennirnir Huginn Þór Arason, Karlotta Blöndal & Unnar Örn sýna verk unnin sérstaklega með garð Safnasafnsins í huga. Á sýningunni vinna listamennirnir útfrá staðsetningu Safnasafnsins og endimörkum þess bæði landfræðilega sem og hugmyndafræðilega. Verk listamannanna koma frá ólíkum rótum, alþjóðlegum helgisiðum og venjum tengdum sumarsólstöðum, munnmælasögum um uppruna skóga í Eyjafirði, takmörk upplifunar í manngerðri náttúru og merkingu einkennisklæðnaðar.
Kristín Kjartansdóttir sagnfræðingur og garðyrkjukona segir í texta sem fylgir sýningunni:
Íslendingar sem í aldaraðir bjuggu allflestir hreinlega hálf grafnir í jörðu samsvöruðu sig vel við krafta náttúrunnar og upplifðu sig sem hluta af henni. Náttúran var eins og hýbýli landans órjúfanleg heild af manneskjunni sjálfri, ekki eitthvert fyrirbæri sem horft var á úr fjarska eða fólk réð yfir. Ólíkt því sem nú er þá fannst fólki það ekki þurfa að stjórna náttúrunni, heldur að læra umgangast hana. Þegar við gengum út úr moldarkofunum í byrjun 20. aldar, var náttúran skilin eftir, en svo snérum við okkur að því að beisla krafta hennar og stjórna eins og mögulegt er á meðan við ræktuðum tengslin við hana í yndislegum lautarferðum og landslagsmálverkum.
Sýningin Safnamörk er hluti af viðamikilli og fjölbreyttri sýningardagskrá Safnasafnsins þetta sumarið. Safnasafnið er opið í sumar alla daga vikunnar frá 10.00 til 18.00.
Nánari upplýsingar veitir Níels Hafstein safnstjóri í síma 4614066 og eins er hægt að hafa samband beint við listamennina. Huginn - 692 9817 / Karlotta - 846 5042 / Unnar - 699 5621
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Vefurinn | Breytt 13.6.2009 kl. 01:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.