Rósa Kristín Júlíusdóttir og Karl Guðmundsson sýna á bókasafni Háskólans á Akureyri

himintjold_og_dansandi_linur.jpg


Afhending hvatningarverðlauna CP-félagsins

Föstudaginn 15. maí klukkan 16:00 opna Rósa Kristín Júlíusdóttir og Karl Guðmundsson (Kalli) sýninguna Himintjöld og dansandi línur á bókasafni Háskólans á Akureyri. Verkin á sýningunni eru unnin með akrýllitum á bómullargrisju. Við opnunina verða veitt hvatningarverðlaun CP-félagsins. Hugtakið CP (Cerebral Palsy) er notað yfir algengustu hreyfihömlun meðal einstaklinga. 

Karl og Rósa Kristín hafa unnið saman að myndlist í mörg ár. Samstarfið var lengi vel samspil nemanda og kennara en hefur þróast markvisst yfir í samvinnu tveggja vina, félaga í listinni. Líta má á listir sem samskiptamáta; samtal listamannsins við áhorfandann, samspil listamannsins við efnið, en líka samtal eða samleik listamanna. Rósa Kristín og Karl hafa skapað verk saman á ýmsa vegu. Karl hefur málað efni byggt á eigin hugmyndum og Rósa unnið áfram með það á mismunandi vegu, oft sem uppistöðu í textílverkum sem byggja á sjónrænu samtali beggja. Að þessu sinni málaði Rósa efnin fyrst, en Karl tók við og málaði sínar „dansandi línur“. Innsetningin Himintjöld og dansandi línur er afrakstur þessa samtals eða samspils listamannanna.

Við sýningaropnunina verða veitt HVATNINGARVERÐLAUN CP félagsins á Íslandi en félagið hefur árlega afhent hvatningarverðlaun til þeirra sem eru góðar fyrirmyndir fyrir félagsmenn. Hvatningarverðlaunin í ár hljóta þau Brynhildur Þórarinsdóttir lektor og rithöfundur og listamannatvíeykið Rósa Kristín Júlíusdóttir lektor og Karl Guðmundsson. Þriðjudaginn 5. maí sl. opnaði Karl Guðmundsson sýninguna KALLI25 og þykir félaginu við hæfi þegar Karl og Rósa opna aðra sýninguna á tveimur vikum að hittast við opnunina og afhenda hvatningarverðlaunin í ár.


Dagskrá:

Karl Guðmundsson og Rósa Kristín Júlíusdóttir opna sýninguna Himintjöld og dansandi línur.

Ávarp: Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Ásdís Árnadóttir afhendir hvatningarverðlaunin fyrir hönd CP félagsins.
Brynhildur Þórarinsdóttir les kafla úr bók sinni Nonni og Selma; fjör í fríinu.
Hljómlist flytja Þórgnýr Inguson, Bjarni Helgason og Egill Logi Jónsson.
Léttar veitingar í boði CP félagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband