19.9.2008 | 11:50
Arna Valsdóttir opnar sýningu í Kunstraum Wohnraum á sunnudag
ARNA VALSDÓTTIR
BROT ÚR VERKUM
21.09. - 14.12.2008
Opnun sunnudaginn 21. september 2008, klukkan 11-13
Opið samkvæmt samkomulagi
KUNSTRAUM WOHNRAUM
Hlynur Hallsson Kristín Kjartansdóttir
Ásabyggð 2 IS-600 Akureyri +354 4623744 hlynur(hjá)gmx.net www.hallsson.de
Sunnudaginn 21. september 2008 klukkan 11-13 opnar Arna Valsdóttir sýninguna Brot úr verkum í Kunstraum Wohnraum á Akureyri. Hún sýnir að þessu sinni vídeómálverk, kyrrmyndir úr hreyfimyndum og innsetningum, teikningar, ljósmyndir og fleiri brot úr fyrri verkum.
Arna er fædd á Akureyri 1963 og nam myndlist við grafíkdeild MHÍ og lauk framhaldsnámi frá fjöltæknideild Jan van Eyck Academie í Maastricht árið 1989. Á þeim tíma fór hún að gera tilraunir með það að tengja saman fleiri þætti í myndlistinni og vann gjarnan verk þar sem saman fór hljóð, rými, mynd og hreyfing.
Arna hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og unnið einkasýningar þar sem hún vinnur verk beint inn í það rými sem hún velur hverju sinni.
Hún hefur meðal annars sett upp gagnvirk innsetningarverk í Garðskagavita, í Austurbæ, í Hafnarfjarðarleikhúsinu,í Nýlistasafninu, Í kjallara Kirsuberjatrésins, í Populus Tremula, í Ketilhúsinu, í Epal og nú síðast í Verksmiðjunni á Hjalteyri.
Arna hefur einnig sett verk sín upp á ráðstefnum um skólamál, í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og í Háskólanum á Akureyri.
Sýninguna í Kunstraum Wohnraum hugsar hún sem einskonar yfirlitssýningu þar sem litið er yfir farinn veg og það skoðað sem hennar fyrri sýningar hafa skilið eftir sig.
Nánari upplýsingar um verk Örnu Valsdóttur er að finna á http://www.arnavals.net
Meðfylgjandi mynd er af verki sem Arna setti upp á opnunarsýningu Verksmiðjunnar á Hjalteyri.
Kunstraum Wohnraum hefur verið starfrækt frá árinu 1994, fyrst í Hannover og nú á Akureyri. Það er til húsa á heimili Hlyns Hallssonar og Kristínar Kjartansdóttur í Ásabyggð 2. Sýning Örnu Valsdóttur stendur til 14. desember 2008 og er opin eftir samkomulagi og hægt er að hringja í síma 462 3744.
Nánari upplýsingar um Kunstraum Wohnraum er að finna hér.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.