Sýningu Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar í Listasafninu á Akureyri lýkur á sunnudag

IMG_1863%20logsuda
Sunnudaginn 24. ágúst lýkur sumarsýningu Listasafnsins á Akureyri er
helguð er yfirliti á verkum Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar.
Guðmundur hefur starfað við myndlist og kennslu síðastliðna fjóra
áratugi og verið mikilvirkur í félags- og baráttumálum
myndlistarmanna. Eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands
árið 1967 og Valand-listaháskólann í Gautaborg með MA-gráðu frá
grafíkdeild árið 1972, flutti Guðmundur norður um haustið fyrir
áeggjan Harðar Ágústssonar sem vildi að hann tæki að sér að leiða hið
nýstofnaða Myndlistarfélag Akureyrar til vegs og virðingar, en þá um
mundir skorti sárlega kennara. Guðmundur lét strax að sér kveða sem
einn fyrsti gagnmenntaði myndlistarmaður norðurlands. Jónas Jakobsson
og Haukur Stefánsson höfðu rutt veginn ásamt Kristni G. Jóhannssyni.
Haukur stofnaði Félag frístundamálara árið 1947 sem bauð upp á
kennslu í málun og skúlptúr í höndum Jónasar uns það fjaraði út í
byrjun sjöunda áratugarins.

Það er með stolti og ánægju sem Listasafnið á Akureyri setur upp
þessa sýningu á verkum Guðmundar, sem er aðallega helguð nýlegum
málverkum hans og þrykkimyndum en varpar einnig ljósi á vítt umfang
listamannsferils hans í rúmlega fjörutíu og fimm ár. Enda þótt
lífsstarf hans samanstandi af hlutbundnum teikningum, hlutlægum og
hálf-abstrakt landslagsmálverkum, dúkristum og tréþrykksmyndum, var
það framan af tilgangurinn, fremur en formið, sem var driffjöðrin í
listsköpun hans. Félagsraunsæislegar þrykksmyndir hans og málverk frá
síðari hluta sjöunda áratugarins og þeim áttunda ­ stemmningar úr
Slippnum og vefnaðarverksmiðjum, myndir af verkafólki í vígaham ­
gerðu það að verkum að hann þótti vafasamur meðal rótgróinna borgara
á Akureyri. Slíkum mönnum ætti að halda í hæfilegri fjarlægð frá
nemendum. Guðmundur hvikaði þó hvergi frá því markmiði sínu að færa
alþýðunni listina og var í fylkingarbrjósti vaxandi hreyfingar fólks
sem vildi telja bæjaryfirvöld á það að styrkja og leggja meiri
fjármuni í þetta ólgandi listalíf, ekki síður en listmenntun.

Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út 150 síðna bók um
listferil Guðmundar sem í rita m.a. Kristján Kristjánsson
heimspekingur og listfræðingurinn Shauna Laurel Jones, sem segir að
ígrunduð rannsókn Guðmundar á burðarþoli og takmörkunum hinna ýmsu
miðla hafi gert honum kleift að nýta efniviðinn vel og slípa sínar
ólíku listrænu aðferðir. Á nýliðnum árum hefur Guðmundur tekið að
huga grannt að hinu formfasta hugtaki um rammann; ef hugsað er í
hugtökum er raunar erfitt að ramma inn allt hans starf á sviði
listarinnar með einstökum merkimiðum fyrir stefnur og stíla ­ en
þannig kýs Guðmundur greinilega að hafa það.

Guðmundi er fullljóst að hann hefur oft og iðulega gengið gegn
stefnum og straumum í listaheiminum, bæði á Íslandi og erlendis;
þetta hefur þó ekki verið ætlunarverk hans. Fyrst og fremst hefur
hann staðið vörð um heilindi sín sem einstaklingur og listamaður,
ómetanlegt hlutverk sitt sem kennari og þá trú sína að það sé
nauðsynlegt að næra þann mikla áhuga á listum sem íbúar á Akureyri
hafa ræktað með sér á undanförnum áratugum. Enda þótt Reykjavík hafi
löngum togað til sín listrænt og vitsmunalegt starf, hefur Guðmundur
Ármann Sigurjónsson ötullega lagt krafta sína í að Akureyri þróist á
þá lund að bærinn verði réttnefnd menningarmiðstöð upp á sitt eindæmi.

Þess má að lokum geta að í framhaldi af þessu yfirliti á verkum
Guðmundar í Listasafninu á Akureyri verða settar upp sýningar með
honum í Turpentine galleríinu í Reykjavík í júlí 2008 og í Norræna
húsinu í Færeyjum sama ár um haustið. Það mun því halda áfram að gára
um G.Ármann, eins og hann signerar myndir sínar, um ókomna tíð.

Norðurorka er aðalstyrktaraðili sýningarinnar. Nánari upplýsingar
veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í
síma 899-3386. Netfang: hannes@art.is.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emma Agneta Björgvinsdóttir

Snilldar sýning og frábær bók.

Emma Agneta Björgvinsdóttir, 21.8.2008 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband