Jóna Hlíf opnar sýninguna HOLE UP í Listasal Mosfellsbæjar

    MYNDLISTAOPNUN
    Listasalur Mosfellsbæjar
    Kjarna, Þverholt 2
    Laugardaginn 09.08.2008
    klukkan 14:00

 

    Jóna Hlíf opnar sýninguna H O L E  UP
    Hole Up v, to go into a hole; retire for the winter, as a hibernating animal.
    
    Á laugardaginn 9. ágúst klukkan 14:00 opnar sýningin H O L E  UP í Listasal Mosfellsbæjar. Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýnir þá samnefnda innsetningu sem er mynduð úr skúlptúr og hljóðverki.
    
     „H O L E  UP er lokahnykkur á innsetningum þar sem ég hef verið að prófa mig áfram með ljós og efni til að kveikja hughrif í rýmum," segir Jóna Hlíf. „Áður hef ég sýnt einkasýningu á Akureyri og tekið þátt í samsýningu í Portúgal þar sem ég nota rýmið í bland við ákveðna grunnþætti til að búa til nokkurs konar hella eða hreiður. Lokaniðurstaðan í ferlinu er ólík í hvert skipti, innsetningarnar verða aldrei eins í uppsetningunni, þótt spilað sé með sömu grunnþætti í hvert skipti – ljós og efni. Fyrir vikið er hver hellir einstakur og þeir breytast eðlilega eftir sem ég venst efninu sem ég nota í uppsetningar. Einhver óræður kuldi er samt kjarninn í öllum hellunum, eins og líklega í flestum hellum, nema mínir hellar hafa líka við sig einhver notalegheit í bland við ónáttúruna. "
    
    Titill sýningarinnar vísar að sögn Jónu til árstímans, nú þegar dagur er tekinn að styttast og nóttin að lengjast. „Rökkrið er farið að sækja á," segir Jóna Hlíf „og fyrir vikið tikkar Íslendingseðlið inn. Fólk fer að sækjast í að marka sér holur og hýði og sumir draga sig í hlé fram í apríl eða maí. Kannski er þetta hellalíf á veturna partur af útileguarfleifðinni, ég veit það ekki. Allavega er það ennþá ríkt í okkur að geta hjúfrað okkur upp að sjónvarpinu, sófanum og teppinu þegar veturinn er kaldastur og helblá snjóbirtan ætlar allt að kæfa."
    
    Jóna Hlíf fæst við innsetningar, skúlptúra, vídeó, málverk og texta í listsköpun sinni. Hún útskrifaðist með MFA gráðu frá Glasgow 2007. Jóna starfar sem sýningarstjóri við Gallerí Ráðhús og VeggVerk á Akureyri. Hún var einn af umsjónarmönnum Gallerís BOX frá stofnun til 2008 og sá um Gestavinnustofuna á Akureyri veturinn 2007-2008. Framundan á árinu er sýning í D-sal Listasafns Íslands, Grasrótarsýning í Verksmiðjunni á Hjalteyri og á næsta ári tekur Jóna Hlíf þátt í samsýningu í Vancouver.
    
    Sýningin stendur yfir til 6. September 2008.
    Nánar upplýsingar um verk Jónu Hlífar er að finna á heimasíðunni; www.jonahlif.com

    Allir velkomnir.

 Jóna Hlíf Halldórsdóttir                                                                                                                   
    sími 6630545
    Listasalur Mosfellsbæjar

    Sími 566 6822
    bokasafn@mos.is


www.mos.is/bokasafn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband