Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur opnar sýningu í Safnasafninu

kindur

 

Laugardaginn 12. júlí kl. 14.00 verður opnuð ný sýning á verkum 
Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur í Safnasafninu á Svalbarðsströnd í 
Eyjafirði, en safnið bauð henni að hafa tvær sýningar í röð til að 
kynna verk hennar með markvissari hætti en áður hefur verið gert, og 
hefur hún þetta að segja um verk sín og sýningarhald:

"Undanfarin ár hef ég undirbúið sýningu eða uppákomu sem ber 
yfirskriftina Réttardagur. Þessi töfrum líki dagur þegar fé er safnað 
af fjalli og rekið í réttir, er upphaf nýs tímabils, menning og 
allsnægtir. Verkefnið á uppruna sinn í nánasta umhverfi, því ég bý 20 
metra frá Reistarárrétt í Arnarneshreppi, Eyjafirði
Ég er alin upp á Siglufirði þar sem afasystir mín og maðurinn hennar 
stunduðu fjárbúskap á túninu heima. Við bjuggum ofarlega í bænum, 
hærra en kirkjan, uppi við fjallsrætur. Sem barn fékk ég að hjálpa 
til við þau störf sem fylgja búskapnum, ýmist úti eða inni
Síðan þá hafði ég hvorki hugsað sérstaklega um kindur né búskap fyrr 
en ég flutti nánast í réttina. Þá fann ég hvað æskuminningarnar sóttu 
á mig og ég upplifði réttir og sveitalíf á alveg nýjan máta - 
merkilegt hvað fjárbúskapurinn á sér sterkar rætur í þjóðarsál 
Íslendinga, því að innan um alla nýsköpun heldur sauðkindin velli
Ég hef í huga að smíða nokkur hundruð kindur, hesta, hunda og menn 
inn í réttina sem stendur við húshornið hjá mér. Síðar mun sú sýning 
skiptast í minni einingar eða, eftir því sem árin líða, stærri, og þá 
í samræmi við þá sýningarstaði sem hýsa verkin. Ég held áfram að 
smíða skúlptúra eða vinna annars konar verk inn í verkefnið á næstu 
fimm árum. Þannig bætist nýtt við hverja sýningu, sem vonandi þróast 
og leiðir mig í óvæntar áttir. Einnig mun samstarf við aðra listamenn 
setja svip sinn á réttardaginn, einkum þá sem fjalla um sauðkindina í 
verkum sínum.

Á síðari sýningu minni í Safnasafninu verða tveir gestalistamenn, 
Mirjam Blekkenhorst með hljóðverk og Níels Hafstein með myndaröð um 
skilningarvit lambsins."

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir hefur vakið æ meiri athygli á síðari 
árum, verk hennar eru formsterk og áleitin, lýsa ákveðnum 
persónueinkennum, túlka svipbrigði og stöður, falla inn í 
fjölbreytileg rými og eru óður til náttúrunnar og fagurs mannlífs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband