18.6.2008 | 07:27
Hlynur Hallsson opnar sýningu í bæjarstjórnarsal ráðhúss Akureyrar
Hádegisopnun
Gallerý Ráðhús
Geislagötu 9
600 Akureyri
Hlynur Hallsson
Allskonar kræsingar, fjall án kinda, fleiri myndir og sprey
Hlynur Hallsson opnar sýninguna "Allskonar kræsingar, fjall án kinda, fleiri myndir og sprey" í bæjarstjórnarsal ráðhúss Akureyrar fimmtudaginn 19. júní klukkan 12:15
Þar gefur að líta sex ljósmynda/textaverk úr myndröðinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES" ásamt nýju spreyverki sem Hlynur hefur gert sérstaklega fyrir bæjarstjórnarsalinn.
Hlynur vann myndirnar á árunum 2002-2007 og í sumar kemur einmitt út bók með allri myndröðinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES" hjá forlagi höfundanna. Hlynur hefur gert spreyverk síðustu ár, það fyrsta í Texas 2002 og nú síðast á sýningunni "Bæ, bæ Ísland" í Listasafninu á Akureyri. Þann 16. ágúst verður opnuð yfirlitssýning á verkum Hlyns í Nýlistasafninu.
Brot úr texta eftir Claudiu Rahn úr bókinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES":
"Frásagnir Hlyns, sem eru samsettar úr einföldum aðal- og aukasetningum, ná í einfaldleika sínum samstundis til áhorfandans. Áhrifamáttur frásagnarinnar byggist fyrst og fremst á þeirri miðlunarleið sem listamaðurinn velur. Til dæmis segir Hlynur frá loftbelgsferð sem Hugi sonur hans fékk í tíu ára afmælisgjöf. Sagan byrjar sem saklaus frásögn en breytist fljótt í harmsögu og tapar þar með léttleika sínum þegar listamaðurinn minnist bókarinnar "Eilíf ást" eftir Ian McEwan. En í þeirri bók endar loftbelgsferðin jú ekki vel."
Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur á síðustu 10 árum sett upp um 60 einkasýningar og tekið þátt í um 80 samsýningum. Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2006. Hann hefur fengið 6 mánaða listamannalaun 1997, 2002 og 2003 og tveggja ára starfslaun 2006. Hlynur var útnefndur bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005. Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri, Listasjóðs Dungals, Listasafns Flugleiða, Samlung Howig í Zürich auk nokkurra einkasafna í Evrópu. Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, sprey, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de.
Allir velkomnir
Léttar veitingar
Verkefnastjóri Jóna Hlíf Halldórsdóttir
sími 6630545
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bækur, Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.