29.6.2018 | 15:55
Freyja Eilíf sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Miðvikudaginn 4. júlí kl. 14.00 opnar Freyja Eilíf sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
"Listaverk um ferðalög út úr mannslíkamanum inn í aðra heima "Trommukjöt, sýning eftir Freyju Eilíf opnar miðvikudaginn 4. júlí kl. 14:00 17.00 í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Til sýnis verða nýleg verk eftir listakonuna sem unnin eru eftir leiðslum út úr mannslíkamanum inn í aðra heima.
Sýningin er opin daglega til 22. júlí frá kl. 14.00 17.00
"Á sýningunni Trommukjöt verða málverk, skúlptúrar og vídjóverk sem ég hef unnið sem minjar og vísbendingar annarra tilvistarsviða eftir eigin tilraunir gegnum drauma- og hugleiðsluferðalög. Það sem drífur mig áfram í þessari rannsókn er forvitni um jarðvist mannsins og það sem ekki er staðfastlega vitað um heiminn og okkur sjálf. Með verkunum vil ég færa víddirnar, raunverulegar og ímyndaðar, huldar og óstaðsettar inn í okkar veruleika. Til þess að varðveita þær og færa hugmyndina um víddirnar nær okkur og þenja þannig svæði mannshugans sem og heiminn sem hann dvelur í.
Freyja Eilíf er fædd í Reykjavík 1986 og útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2014. Hún hefur unnið sýningar víða um Norðurlönd og Evrópu ásamt því að starfrækja sýningarýmið Ekkisens í Þingholtunum í miðbæ Reykjavíkur til dagsins í dag sem hún stofnaði árið 2014. Freyju voru veitt laun úr starfsjóði listamanna árið 2018 og að auki hefur hún hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín á sviði myndlistar, svo sem tilnefningu til Menningarverðlauna DV 2016 og Tilberann árið 2015.
Freyja Eilíf 692-5114
Uppbyggingarsjóður/Eyþing, Fjallabyggð, menningarsjóður Siglufjarðar og Egilssíld styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.