30.4.2018 | 21:39
Kristján Steingrímur Jónsson sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Föstudaginn 4. maí kl. 17.00 opnar Kristján Steingrímur Jónsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Sýningin stendur til 20. maí og er opin daglega kl. 14.00 17.00 þegar skilti er úti.
Viðfangsefni Kristjáns Steingríms eru í senn hlutbundið brot af stað og hugmyndir um staði. Verkin á sýningunni eru litafletir málaðir með litum gerðum úr jarðefnum frá ýmsum stöðum á jörðinni. Þau eru efnisleg staðfesting á tilveru staðar og áminning um að þeir eru jafnframt huglægir og háðir upplifun.
Verkin endurspegla þá staðreynd að líf á jörðinni endar sem jarðvegur sem verður nokkurs konar gagnagrunnur um tilvist okkar. Þannig skráir tíminn söguna í efnið og um leið atferli mannsins og samband hans við náttúruna.
Verkin á sýningunni eru sérstaklega unnin fyrir Kompuna.
Kristján Steingrímur er fæddur á Akureyri 1957. Hann stundaði nám við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1977 til 1981 og frá árinu 1983 við Listaháskólann í Hamborg þaðan sem hann útskrifaðist 1987. Frá því að Kristján lauk námi hefur hann unnið að listsköpun, haldið og tekið þátt í fjölda sýninga bæði í söfnum og galleríum. Hann hefur jafnframt sinnt kennslu og ýmsum störfum á sviði myndlistar. Kristján býr og starfar á Seltjarnanesi.
Uppbyggingasjóður, Fjallabyggð og Egilssíld styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.