Tveir viðburðir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

29178469_1605424932867439_692271375754199040_o

Alþýðuhúsið á Siglufirði
17.- 18. mars 2018

Helgina 17. – 18. mars verða tveir viðburðir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Brák Jónsdóttir opnar sýningu í Kompunni 17. mars kl. 15.00 og Bergþór Morthens verður með kynningu á verkum sínum í Sunnudagskaffi með skapandi fólki 18. mars kl. 14.30.


Spretta.

Brák hefur dvalið í sýningarrýminu langtímum og rannsakað galleríið og möguleikana sem það býður uppá. Hversdagsleg nálgun, útvíkkun efnis og áferðar í rýminu sjálfu fylltu hana löngun til að leika sér með rifurnar milli gólfborðanna. Þær virkuðu á hana eins og þagnir í tónlist eða tækifæri til að lesa á milli línanna. Verkið varð til þegar tvö ólík efni mættust áreynslulaust og reiðubúin til að taka hvort á móti öðru til samstarfs. Um leið virkjar Brák allt rýmið í ljóðrænum andblæ stillu jafnt sem fínlegrar hreyfingar.

Brák Jónsdóttir, fædd 1996, hefur verið viðriðin listir og menningu frá blautu barnsbeini. Hún ólst upp í Listagilinu á Akureyri á vinnustofu foreldra sinna og fór ung að taka þátt í því starfi sem þau standa fyrir. Fyrir nokkrum árum fór hún að vinna að eigin listsköpun og að standa fyrir menningarviðburðum. Hún er ein stofnenda viðburðarýmisins Kaktus á Akureyri og hefur staðið fyrir Hústöku og Dóbíu af öðrum heimi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Brák hefur mest gert gjörninga og vídeólist ásamt því að hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum í samstarfi við aðra listamenn á Íslandi, í Danmörku og í Hollandi.


Bergþór Morthens myndlistarmaður mun vera með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Þar mun hann segja frá eigin verkum og þróun í sköpunarferli. Vendingar í ferli málverksins, átök ólíkra stíla, form og formleysi, hræðsla við liti og jafnvel smá pólitík verður meðal þess sem um verður rætt.
Bergþór Morthens (f. 1979) lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri 2004 og MA námi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg 2015. Hann hefur haldið einkasýningar á Íslandi, í Rúmeníu og Svíþjóð og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Grikklandi, í Svíþjóð og Danmörku. Bergþór er búsettur í Gautaborg en á einnig hús á Siglufirði og kennir myndlist við Menntaskólann á Tröllaskaga.

29133249_1604024236340842_3903665650433785856_n

Efri mynd: Verk eftir Brák Jónsdóttir

Neðri mynd: Verk eftir Bergþór Morthens

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband