4.12.2017 | 22:39
Sýning á verkum Louisu Matthíasdóttur opnuð í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 9. desember kl. 15 verður opnuð sýning á verkum Louisu Matthíasdóttur, Stúlka með hjól, í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi.
Louisa Matthíasdóttir (1917-2000) var einn af framsæknustu listamönnum sinnar kynslóðar. Heilir og skýrir myndfletir og tærir og einfaldir litir einkenna verk hennar. Louisa stundaði nám í Evrópu og Bandaríkjunum og var búsett í New York frá árinu 1942. Hún hélt þó sambandi við Ísland og í verkum hennar má glöggt sjá áhrif íslensks landslags og birtu. Louisa málaði einnig uppstillingar, samferðafólk og sjálfsmyndir sem sjá má á þessari sýningu.
Stúlka með hjól er byggð á sýningunni Kyrrð sem Listasafn Reykjavíkur setti upp á Kjarvalsstöðum í apríl síðastliðnum. Með henni er framhaldið röð sýninga á verkum merkra íslenskra myndlistarkvenna í Listasafninu á Akureyri en áður hafa verið settar upp yfirlitssýningar á verkum Elísabetar Geirmundsdóttur og Nínu Tryggvadóttur.
Fjölskylduleiðsögn verður um sýninguna með Heiðu Björk Vilhjálmsdóttur, fræðslufulltrúa, laugardagana 16. desember og 20. janúar kl. 11-12. Þriðjudaginn 23. janúar kl. 17-17.40 heldur Jón Proppé Þriðjudagsfyrirlestur um Louisu Matthíasdóttur.
Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.
Meðfylgjandi mynd tók Einar Falur af Louisu árið 1992 á vinnustofu hennar í New York.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.