20.4.2017 | 18:05
Sköpun bernskunnar 2017 og UPP opna í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 22. apríl kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu, Ketilhúsi: Sköpun bernskunnar 2017, samsýning listamanna, skólabarna og leikfangasýningarinnar í Friðbjarnarhúsi, og Upp, útskriftarsýning listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Síðarnefnda sýningin er einnig sett upp í Deiglunni.
Þetta er fjórða sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp til þess að örva skapandi starf og hugsun skólabarna á aldrinum tveggja til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru börn, starfandi listamenn og Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi. Sköpun bernskunnar er því samvinnuverkefni í stöðugri þróun og er hver sýning sjálfstæð og sérstök.
Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og er einstök hvað varðar listrænt samtal myndlistarmanna og barna. Þemað að þessu sinni er fjaran í víðum skilningi.
Þátttakendur í ár eru leikskólarnir Tröllaborgir og Lundarsel, grunnskólarnir Brekkuskóli og Giljaskóli, Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi og listamennirnir Hekla Björt Helgadóttir, Magnús Helgason, Marina Rees og Samuel Rees. Sýningarstjóri er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.
Þriggja ára samstarf
Sýningar á lokaverkefnum nemenda hafa lengi verið fastur liður í starfsemi listnáms- og hönnunarbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri. Sýningarnar eru tvær yfir árið og annars vegar settar upp í lok vorannar og hins vegar í lok haustannar. Þetta er þriðja árið í röð sem þær eru haldnar í samstarfi við Listasafnið á Akureyri.
Við undirbúning slíkra sýninga velja nemendur sér verkefni eftir áhugasviði þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér nýja miðla eða dýpka skilning sinn á þeim sem þeir hafa áður kynnst.
Að baki verkanna liggur hugmynda- og rannsóknarvinna og leita nemendur víða fanga í eigin sköpunarferli, allt eftir því hvað hentar hverri hugmynd og þeim miðli sem unnið er með. Nemendur fá eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samtali og samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem frumkvæði, hugmyndaauðgi og öguð vinnubrögð eru lögð til grundvallar.
Nemendur hönnunar- og textílkjörsviðs:
Anton Örn Rúnarsson
Birna Eyvör Jónsdóttir
Elva Rún Kristjánsdóttir
Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir
Kamilla Sigríður Jónsdóttir
Karitas Fríða W. Bárðardóttir
Nemendur myndlistarkjörsviðs:
Andri Leó Teitsson
Ármann Ingi Þórisson
Eva Mist Guðmundsdóttir
Fanný María Brynjarsdóttir
Sandra Wanda Walankiewicz
Sindri Páll Stefánsson
Valgerður Þorsteinsdóttir
Upp stendur til 30. apríl en Sköpun bernskunnar 2017 til 28. maí. Opið þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17.
Aðgangur er ókeypis.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.