Hrafnkell Sigurðsson sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði

17039393_1246342538775682_4794456371749041160_o

Laugardaginn 4. mars 2017 kl.14.00 opnar Hrafnkell Sigurðsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði með myndröðina “ Urban mountains “. Sýningin er hluti af listahátíðinni Skafl sem fram fer í og við Alþýðuhúsið 3. til 5. mars.
Sýning Hrafnkels er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 þegar skilti er úti og stendur til 19. mars.
www.hrafnkellsigurdsson.com

Hrafnkell Sigurðsson (1963)

Hrafnkell var í gamla mynd- og handskólanum árin 1982 – 86 og þaðan lá leiðin í Jan Van Eyck Akademie, Maastricht, Hollandi. 1990 lauk hann einnig MFA frá Goldsmiths College í London. Fyrsta einkasýning hans var í hinu víðfræga Slúnkaríki á Ísafirði en mikill heiður þótti fyrir ungan listamann að sýna þar á þessum árum. Það var þó ekki í faðmi vestfiskra fjalla sem landslagið varð að leiðarljósi í verkum Hrafnkels.
„Í Hollandi uppgötvaði ég landslagið í póstkortum og fundnum myndum. Kannski hefur það snúist um söknuð að einhverju leyti án þess að ég gerði mér endilega grein fyrir því. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að fara frá litla Íslandi um einhvern tíma, sakna þess og skynja aðeins betur stærð heimsins. Í Hollandi byrjaði ég að leika mér með landslagshefðina og hef gert það síðan. Ég mun líka gera það áfram vegna þess að rætur mínar eru í landslaginu og verkin mín leita þangað.“

Í verkum sínum fjallar Hrafnkell um tengsl náttúru og manns. Þar spinnast saman þættir úr rómantík og módernisma sem á stundum vísa til ritúala. Hið skíra yfirbragð sem virkar í fyrstu fjarlægjandi gefur verkunum nálægð. Yfirborð umhverfist í innri heima og í meðförum listamannsins breytist óreiðan í samhverfu. Hin rómantíska sýn á hið upphafna sem einkennist af samfellu ógnar og heillunar tekst á við hið hversdagslega sem birtist í formi líkamans, en hann er hvorttveggja í senn, fulltrúi óreiðu og jafnvægis. Segja má að líkaminn sé miðpunktur myndbirtinga Hrafnkells, allt frá snjófjöllum og tjöldum til nýbygginga og ruslapoka. Það er þó ekki fyrr en í myndbandsverkunum sem hann kemur fram nakinn og auðsveipur, fulltrúi þeirra ólíku afla sem knýja verk listamannsins áfram.

Í ljósmyndaverkum sínum fjallar Hrafnkell Sigurðsson um ímyndir náttúru og hins manngerða. Ljósmyndir af snjósköflum vísa til rómantískrar landslagsmyndahefðar, utan að þessar fjallamyndir eru til marks um mannleg ummerki innan borgarmarka. Þannig er hefðin útfærð og unnin og heimfærð upp á nútímaveruleika borgarbúans.

https://www.facebook.com/events/142511411085312


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband