2.9.2016 | 08:09
Myrkramessa á A!
3. hæðin, Listasafnið á Akureyri, gengið inn í portinu að aftan.
Að kvöldi næsta laugardags mun fjölbreyttur hópur listafólks efna til Myrkramessu á 3.hæð Listasafnsins á Akureyri.
Af gefnu tilefni er gestum því boðið við veisluborð að upplifa
Kílómeters kökk í hálsi
Tvo óþokka skila krafti
óð til bands og banda
og fullnægingasvipi karla
...svo fátt eitt sé nefnt. Messan hefst klukkan 21:30 og vart þarf að taka það fram, en allir eru hjartanlega velkomnir.
FRAM KOMA:
Aldís Dagmar Erlingsdóttir Svarkur
tvinnar saman ólíkum aðferðum og miðlum í innsetningum og myndbandsverkum, með áherslu á inntak, tjáningu og upplifun
Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir
útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015. Í verkum sínum fæst hún við það að ákalla galdur póesíunnar og kanna tilvist trúarinnar í margvíslegum miðlum; ljósmyndum, gjörningum, texta, vídeó, skúlptúr sem og sameiningu þeirra. Eftir útskrift hefur hún meðal annars komið að tímaritinu
Listvísi Málgagn um myndlist og tekið þátt í ýmsum sýningum; HÁVAÐI II í Ekkisens, YMUR festival á Akureyri, Stream in a Puddle í Gallerii Metropol í Eistlandi, Plan B listahátíð í Borgarnesi og Kynleikum sem opnuðu í Ekkisens, fluttu sig yfir í Ráðhúsið og lokuðu með þriðju opnun í Tjarnarbíó
Anton Logi Ólafsson
er listamaður starfandi í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr LHÍ 2015 með BA-gráðu í Myndlist. Anton vinnur í hverjum þeim miðli sem kann að henta, en undanfarin ár hafa einkum einkennst af gjörningalist. www.antonlogi.wix.com/antonlogi
Bergþóra Einarsdóttir
er ljóðskáld og dansari sem rappar þegar færi gefst. Síðustu þrjú ár hefur hún komið fram með Reykjavíkurdætrum og upp á síðkastið með kontrabassarappdúóinu Silkiköttunum. Hún hefur komið fram í ótal dansmyndum og dans- ljóðagjörningum og fengið tilnefningu til Grímunnar fyrir danshöfundaverk. Árið 2014 gaf hún út ljóðabókina Sjósuðu með Partusi Press. Um þessar mundir skrifar hún aðallega lagatexta um pólitík, ást eða dauða
Egill Logi Jónasson
útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistarskólans á Akureyri 2013 og frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands í vor 2016.
Egill vinnur málverk, teikningar og klippimyndir, auk þess sem hann kokkar tónlist og myndbandsverk.
http://www.drengurinn.portfoliobox.me/
Freyja Eilíf
er sjálfstætt starfandi myndlistarkvendi sem býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2014 og stofnaði sýningarýmið Ekkisens haustið sama ár og rekur það enn ásamt því að teyma hústökusýningar á vegum Ekkisens í öðrum rýmum, bæði hérlendis og erlendis. Freyja vinnur verk í mjög blandaða miðla og oft á tíðum fundið efni. Hún hefur einnig gefið út þónokkur bókverk og stofnaði til að mynda tímaritið Listvísi Málgagn um myndlist árið 2012. https://freyjaeilif.com/
Gunnhildur Helgadóttir
útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistarskólans á Akureyri vorið 2013 og árið 2015 lauk hún námi við mótun/keramikdeild í Myndlistarskólanum í Reykjavík.
Gunnhildur hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og viðburða og má síðast nefna sýninguna tilraunir leir og fleira sem enn stendur yfir í Hafnarborg
Hekla Björt Helgadóttir
er listamaður og skáld, búsett á Akureyri. Hún er ein stofnenda listarýmisins Kaktus og hefur unnið við listræna hönnum fyrir söfn og leikhús. Hekla hefur staðið fyrir fjölmörgum sýningum og viðburðum, tekið þátt í fjölda samsýninga, listrænu samstarfi og á að baki allnokkrar einkasýningar.
Hlín Ólafsdóttir
er búsett í Berlín þar sem hún leggur stund á myndlist við Kunsthochschule Berlin-Weißensee
Snorri Páll (Jónsson Úlfhildason)
er skáld og slitamaður, borinn árið 1987 á níunda síðasta sjónvarpslausa fimmtudeginum. Fyrsta ljóðabók hans, Lengist í taumnum, kom út árið 2014. Snorri er sýningasóknari Sakminjasafnsins, en fyrsta sýning þess átti sér stað í reykvíska sýningarýminu Ekkisens um það leyti sem árleg hátíð þjáningar og upprisu gekk í garð. Marglaga framhald þeirrar sýningar fer fram síðar á þessu ári á gömlu herstöðinni í Keflavík
Steinunn Gunnlaugsdóttir
fæst við list og brúkar til þess ýmsa miðla.Verk hennar kjarnast um tilvistarátök innra með hverri mannskepnu sem og togstreitu og átök hennar við alla þá ytri strúktúra sem umkringja hana
eða uppgjöf gagnvart þeim
http://www.sackofstones.com/forsida/
Myrkramessan er off venue viðburður á gjörningahátíðinni A!
Slippfélaginu er kærlega þakkað fyrir styrk sinn.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.