20.8.2016 | 20:27
Gunnar Kr. sýnir í Listasafninu á Akureyri
Á Akureyrarvöku, laugardaginn 27. ágúst kl. 15, opnar Gunnar Kr. sýninguna Formsins vegna í Listasafninu á Akureyri. Myndlist Gunnars Kr. einkennist af slagkrafti og þunga sem birtist með fjölbreyttum hætti. Hann hefur t.d. teiknað biksvartar blýsólir og logskorið stálblóm. Undanfarin misseri hefur Gunnar notað fislétt og viðkvæmt hráefni til myndgerðar pappír sem hann mótar, sker, litar og raðar saman uns tilætluðum áhrifum er náð. Í spennunni milli formrænnar tjáningar listamannsins annars vegar og hráefnisins sem hann notar hins vegar, er feiknarleg orka. Verk Gunnars Kr. líkjast um margt náttúrunni sjálfri; þau eru sterk, form endurtaka sig og fegurðin ríkir þótt hún sé á stundum ógnvekjandi. Kröftug en þó viðkvæm.
Myndlistarferill Gunnars Kr. spannar þrjátíu ár og hefur hann víða komið við. Á fjölmörgum sýningum hefur hann sýnt málverk, skúlptúra, teikningar og vatnslitamyndir. Gunnar býr og starfar að list sinni á Akureyri. Sýningarstjóri er Joris Rademaker.
Í tilefni sýningarinnar kemur út sýningarskrá með textum eftir Hlyn Hallsson og Joris Rademaker og ljóðum eftir Aðalstein Svan Sigfússon.
Listasafnið verður opið til kl. 22 á opnunardegi sýningarinnar. Sýningin er opin daglega kl. 10-17 út ágúst en eftir það kl. 12-17 þriðjudaga til sunnudaga. Aðgangur er ókeypis. Leiðsögn um sýningar Listasafnsins er á fimmtudögum kl. 12.15-12.45.
listak.is/is/syningar/naestu-syningar/gunnar-kr
facebook.com/events/922887221156829
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.