25.1.2016 | 14:24
Jónborg Sigurðardóttir - Jonna opnar "Völundarhús plastsins" í Vestursal Listasafnsins á Akureyri
Laugardaginn 30. janúar kl. 15 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri, Vestursal sýning Jonnu Jónborgar Sigurðardóttur Völundarhús plastsins. Sýningin er innsetning sem á að gera áhorfendur meðvitaða um umhverfisáhrif plastnotkunar.
Undanfarin ár hefur Jonna unnið ýmis verk innblásin af ofneyslu og sóun. Hún vill vekja athygli á að hver manneskja getur lagt sitt af mörkum í umhverfismálum, svo sem með endurnýtingu og notkun fjölnota innkaupapoka. Hún mun vinna verk úr endurunnu plasti í klefanum í Vestursal Listasafnsins meðan á sýningu stendur.
Jonna útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri vorið 1995 og sem fatahönnuður frá Københavns Mode- og Designskole 2011. Myndlist hennar spannar vítt svið, allt frá málverki til innsetninga. Hún hefur verið mjög virk í listalífinu á Akureyri síðustu árin; haldið einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og staðið fyrir uppákomum.
Sýningin Völundarhús plastsins stendur til 11. febrúar og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýningar Listasafnsins á Akureyri er alla fimmtudaga kl. 12.15-12.45. Aðgangur er ókeypis.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.