13.1.2016 | 20:51
Jón Laxdal Halldórsson og Samúel Jóhannsson opna sýningar í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 16. janúar kl. 15 verða opnaðar tvær fyrstu sýningar ársins í Listasafninu á Akureyri. Í Mið- og Austursal sýnir Jón Laxdal Halldórsson undir yfirskriftinni úr rústum og rusli tímans, en þar má sjá má sjá verk frá löngum ferli Jóns sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna. Í Vestursal safnsins opnar Samúel Jóhannsson sýninguna Samúel og er hún hluti af sýningarröð sem stendur til 13. mars og inniheldur fjórar tveggja vikna sýningar. Aðrir sýnendur eru Jonna Jónborg Sigurðardóttir, Baldvin Ringsted og Noemi Niederhauser.
Jón Laxdal Halldórsson (f. 1950) nam heimspeki við Háskóla Íslands og gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974. Jón var einn þeirra sem stóðu að blómlegri starfsemi Rauða hússins á Akureyri og setti þar upp sína fyrstu einkasýningu árið 1982. Klippimyndir hafa verið hans helsta viðfangsefni allar götur síðan. Verkum Jóns má lýsa sem ljóðrænni naumhyggju en þau spanna í raun mun víðara svið. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum sýningum víðs vegar um heim og þau er að finna á fjölda safna.
Samúel Jóhannsson (f. 1946) hefur verið virkur í myndlist samfellt frá árinu 1980 og vinnur með akrílmálningu, vatnsliti, blek, lakk og járn. Líkt og á fyrri sýningum er viðgangsefnið mannslíkaminn og andlitið. Að þessu sinni einbeitir hann sér fremur að túlkun andlitsins en formum hinna ýmsu líkamshluta. Myndlistasýningar Samúels eru orðnar fjölmargar. Hann hefur haldið rúmlega 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.
Ávörp á opnun flytja Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins og Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu. Valgerður Dögg Jónsdóttir les ljóð og tónlistarflutningur er í höndum þeirra Anne Balanant og Áka Sebastians Frostasonar.
https://www.facebook.com/events/1697850297160945
https://www.facebook.com/events/1548584222131199
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.