Hugsteypan með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi

large_hugsportr

Þriðjudaginn 27. október kl. 17 heldur tvíeykið Hugsteypan fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Verk og vinnuaðferðir. Hugsteypuna skipa þær Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir. Í fyrirlestrinum munu þær fjalla um valin verk sem þær hafa unnið saman sem Hugsteypan og leggja áherslu á vinnuferli og aðferðir tvíeykisins sem um þessar mundir leggur lokahönd á sýninguna Umgerð sem verður opnuð í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi 31. október næstkomandi.

Hugsteypan er samstarfsverkefni Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur. Þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Hugsteypan hefur verið starfandi frá árinu 2008, en síðan þá hafa Ingunn og Þórdís starfað jöfnum höndum saman undir merkjum Hugsteypunnar og í sitt hvoru lagi við eigin myndlistarverkefni. Verk Hugsteypunnar hafa verið sýnd víða, t.a.m. í Listasafni ASÍ, Kling & Bang gallerí, Hafnarborg og Listasafni Árnesinga, auk nokkurra samsýninga erlendis. Hugsteypan hefur m.a. hlotið styrki úr Myndlistarsjóði, Launasjóði íslenskra myndlistarmanna, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Myndstef. 

Ólíkir bakgrunnar myndlistarmannanna tveggja mætast í verkum Hugsteypunnar þar sem efnistökin geta verið allt frá hugleiðingum um listasöguna og eðli myndlistar til kíminnar notkunar á viðurkenndum aðferðum rannsókna til að vinna myndlistarverk þar sem útkoman er alltaf fagurfræðileg og frjáls eftir því. Þar sem verk Hugsteypunnar eru afrakstur samtals milli þessara tveggja listamanna geta þau oft átt sér langan aðdraganda. Verkin eru unnin í ýmsa miðla, þó oftast í formi margþættra innsetninga. 

Fyrirlesturinn er sá fimmti í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Þorlákur Axel Jónsson, Haraldur Ingi Haraldsson, Margrét Elísabet Ólafsdóttir og Þórhallur Kristjánsson.

listak.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband